Jóhanna Bjarn­dís Arapin­owicz, er ein þeirra tuttugu far­þega sem eru fastir í Breiða­fjarða­ferjunni Baldur sem varð vélar­vana tíu sjómílum frá Stykkishólmi í dag. Far­þegar um borð í ferjunni þurfa að gista þar í nótt á meðan verið að reyna toga Baldur í land. Jóhanna segir hins vegar að það fari vel um far­þegana sem sitja flestir í aðal­rýminu og horfa á sjón­varpið.

„Við erum bara föst hérna. Varð­skipið er komið en við bíðum bara eftir Phoenix dráttar­bátnum. Þannig við erum bara strand hérna og fer mjög vel um okkur,“ segir Jóhanna í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Við verðum hér í nótt. Phoenix kemur ekki fyrr en í nótt var okkur til­kynnt áðan. Þá verður byrjað að draga okkur í átt að Stykkis­hólmi.“

Rann­sóknar­skipið Árni Frið­riks­son er kominn með Breiða­fjarðar­ferjuna Baldur í tog.
Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Það fer mjög vel um okkur nema það vaggar mjög mikið“

Jóhanna var á leið til Reykja­víkur en hún er í sjúkra­flutninga­námi í bænum. Að hennar sögn fer vel um alla og bauð kokkurinn þeim í kvöldmat.

„Það eru kojur hérna í boði en við erum hérna í aðal­rýminu. Það er sjón­varp hérna, frítt á teríunni og kokkurinn bauð okkur í kvöld­mat. Það fer mjög vel um okkur nema það vaggar mjög mikið,“ segir hún og bætir við „ó­geðs­lega mikið.“

Spurð um hvort það hafi ekki verið boðið upp á ein­hverja á­fenga drykki til að rétta sig af á bátnum segir Jóhanna létt að það sé allt í boði. „Það má alveg fá sér. Það er allt í boði.“

„Við erum bara að berast með straumnum“

Gert er að ráð fyrir að draga Baldur til hafnar á Stykkis­hólmi en Jóhanna segir hins vegar að ekki eru allir far­þegarnir vissir um hvernig þeir ætla koma sér frá Stykkis­hólmi.

„Þau eru búin að segja við verðum hérna í nótt. Við heyrðum í fréttunum áðan að það væri svo vont veður á Snæ­fells­nesinu. En við vitum ekki neitt, við erum bara að berast með straumnum,“ segir hún í orðsins fyllstu merkingu.

Spurð um hvort ein­hver ótti hafi komið yfir far­þegana þegar báturinn varð vélar­vana segir hún svo ekki vera.

„Nei nei ekki neitt. Það eru allir mjög ró­legir hérna og enginn ótti eða neitt þannig.“

Kom ekki til greina að fara í þyrluna

Far­þegum stóðst til boða að vera hífðir upp í þyrlu Land­helgis­gæslunnar í kvöld en enginn þáði boðið. Jóhanna segir að það hafi ekki komið til greina í sínu tilfelli.

„Það vildi það enginn. Það átti að toga okkur upp í þyrluna það vildi enginn fara í þá á­hættu,“ segir hún og hlær.

Jóhanna er að ferðast með þremur sam­starfs­mönnum sínum hjá Heil­brigðis­stofnun Vest­fjarða, sjúkra­liða, sjúkra­flutninga­manni og hjúkrunar­fræðing. Þau reikna með að koma sér vel fyrir í nótt eins og aðrir farþegar.

„Það eru flestir hérna eigin­lega hálf­sofandi og liggja og hafa það gott,“ segir Jóhanna að lokum.