Mennta- og menningar­mála­ráð­herra segir ljóst að það þurfi að gera mikið betur þegar kemur að stuðningi við börn með sér­þarfir í skóla­kerfinu. Frétta­blaðið hefur undan­farið fjallað um nýtt átak á vegum Ör­yrkja­banda­lags Ís­lands og á­hyggju­fullra for­eldra sem er ætlað að vekja at­hygli á al­var­legum mis­bresti í skóla­kerfinu í inn­leiðingu stefnu um skóla án að­greiningar.

„Við verðum bara að gera betur. Það er ljóst að við höfum þar ríku eftir­lits­hlut­verki að gegna, mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið, og við förum bara í það með for­eldrunum hvernig er hægt að styðja betur við mennta­kerfið okkar, eins og okkur vera ber,“ segir Lilja Al­freðs­dóttir, mennta- og menningar­mála­ráð­herra í sam­tali við Frétta­blaðið.

Fjórir for­eldrar í sam­starfi við ÖBÍ hafa hótað að fara í mál við skóla og bæjar­fé­lög vegna þess að þau telja skólana ekki mæta þörfum barnsins þeirra og þar sé komið í veg fyrir rétt barnsins til að stunda nám í sínum hverfis­skóla.
Eitt for­eldri sem Frétta­blaðið ræddi við sagði það eiga að vera jafn réttur allra að fá að sinna námi í sínum hverfis­skóla og líða vel í náminu.

Hægt að skoða það að lögfesta stöðu sjúkraþjálfara og iðjuþjálfara

Að sögn Lilju er nauð­syn­legt að vinna með for­eldrum til að komast að lausn í málinu og er mögu­legt að það komi ekki til þess að mál verði höfðuð. Eitt af því sem að for­eldrar barnanna hafa kallað eftir er að lög­fest verði í hverjum skóla staða sjúkra­þjálfar og iðju­þjálfa. Spurð hvort það sé mögu­leiki segir Lilja að það sé hægt að skoða það.

Að­spurð um hvort hún telji að inn­leiðing skóla án að­greiningar hafi gengið vel hér á landi segir Lilja að það sé komin á­kveðin reynsla með það en ljóst sé að enn er hægt að gera betur.

„Við viljum bjóða upp á allra bestu menntun, bæði að þú hafir að­gengi að þínum hverfis­skóla og líka að ef það er þörf á því að fara í sér­skóla, að það sé í boði. Þannig þetta er auð­vitað svona þróun og verður það á­fram.“