„Eins og við höfum sagt allan far­aldurinn að þá auð­vitað erum við að meta stöðuna frá degi til dags þannig að við tökum þessa á­kvörðun núna að stíga var­færin skref og halda á­fram að fara var­lega,“ segir Svan­dís.

Met­fjöldi smita hefur greinst undan­farnar vikur en þó er enn fátt um al­var­leg veikindi og nú liggja 25 manns inni á sjúkra­húsi vegna með veiruna. Að­spurð um hvort ríkis­stjórnin meti stöðuna al­var­lega segir Svan­dís að þau þurfi lengri tíma til að átta sig ná­kvæm­lega á því hvernig bylgjan er að þróast.

„Við sjáum það að þegar smitin eru eins mörg og þau eru núna, kannski hundrað á dag eða meira, að þá auð­vitað hefur það á­hrif á heil­brigðis­kerfið þó að hlut­fall þeirra sem veikjast mikið sé lágt. Það er þessi línu­dans sem við erum að fara og við erum að passa upp á það að heil­brigðis­kerfið okkar fari ekki að þol­mörkum og að hjálpa því að styrkjast og færa þol­mörkin ef að þess er kostur. Það er það sem við höfum líka verið að gera með á­kveðnum að­gerðum. Svo erum við náttúr­lega bara að bæta varnirnar í sam­fé­laginu með því að styrkja bólu­setningar enn þá meira. Þó að bólu­setningar séu greini­lega að verja okkur vel gegn al­var­legum veikindum þá getum við, með því að gefa örvunar­skammta við­kvæmustu hópunum, varið þá enn þá betur og það eigum við að gera,“ segir Svan­dís.

Fjölda­margar að­gerðir til að styrkja heil­brigðis­kerfið

Verður farið út í ein­hverjar sér­stakar að­gerðir til að styrkja heil­brigðis­kerfið núna á næstunni?

„Já, við erum náttúr­lega með fjölda­margar að­gerðir í far­vatninu sem ég gerði grein fyrir á föstu­daginn sem eru bæði að­gerðir sem lúta að mönnun, inn­viðum, stuðningi annarra þátta heil­brigðis­kerfisins, og svo fram­vegis,“ segir Svan­dís og vísar þar í yfir­lýsingar ríkis­stjórnarinnar í kjöl­far síðasta ríkis­stjórnar­fundar á föstu­daginn.

Þá var meðal annars til­kynnt að unnið væri að opnun tíu Co­vid-rýma á höfuð­borgar­svæðinu, fjölgun á gjör­gæslu­rýmum á Land­spítalanum og mögu­leika þess að koma á fót sér­stakri Co­vid-einingu á Land­spítala sem myndi starfa til lengri tíma. Einnig er stefnt að því að Heil­brigðis­stofnanir Suður­lands og Suður­nesja muni geta tekið við sjúk­lingum frá Land­spítala og mun Heil­brigðis­stofnun Vestur­lands að­stoða við mönnun fag­fólks.

„Núna höfum við ráðið verk­efna­stjóra til að halda utan um þetta verk­efni sér­stak­lega, það er að segja að þessi hlutir gangi allir mjög greið­lega fyrir sig. Því um leið og við fáum til dæmis stuðning við Land­spítala frá Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja eða Suður­lands, eða Heil­brigðis­stofnun Vestur­lands, þá er það að bæta mögu­leika spítalans til þess að standa undir hlut­verki sínu í þessum far­aldri. Þannig það eru fjölda­mörg verk­efni sem við erum að ráðast í sem lúta ekki bara að fjár­magni heldur líka að skipu­lagi þjónustunnar,“ segir Svan­dís.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.
Fréttablaðið/Eyþór

Mikil­vægt að hafa opna umræðu

Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, sagði í við­tali í gær að hann byggist ekki við því að við yrðum að fullu laus við veiruna fyrr en eftir tvö ár, í fyrsta lagi. Verður farið út í eitt­hvað lang­tíma­plan til að undir­búa þennan mögu­leika?

„Ég held að það sé að minnsta kosti mjög mikil­vægt að við sem sam­fé­lag ræðum það. Það er mikil­vægt að sú um­ræða sé opin, því það eru auð­vitað meiri líkur en minni að við munum eiga í þessu enn um hríð, hversu langan tíma get ég ekki spáð fyrir um. En það skiptir miklu máli að við höfum opna um­ræðu um hvað það þýðir. Ég held að við séum öll sam­mála um það að við þurfum að reyna að halda sam­fé­laginu gangandi eins mikið og nokkurs er kostur en um leið að passa að heil­brigðis­kerfið okkar sligist ekki af of miklu á­lagi og að vernda okkar við­kvæmasta fólk. Þetta hefur alltaf verið okkar mark­mið en við erum í svo­lítið annarri stöðu núna þegar við erum með Delta af­brigðið í svona mikilli út­breiðslu í bólu­settu sam­fé­lagi.“

Fólk er kannski orðið svo­lítið þreytt að halda inni í sér andanum og fara fram til baka og margir vilja fara að sjá að­eins meira heild­ræna nálgun á þetta?

„Já, auð­vitað myndum vil öll vilja að við sæjum betur inn í fram­tíðina en um leið þá þurfum við líka að gæta að því að það séu engar tak­markanir í gildi nema þær sem er hægt að rök­styðja með góðu móti.“

Að­spurð um hvort að sam­staða hafi verið innan ríkis­stjórnarinnar um á­kvörðunina að fram­lengja sótt­varnar­ráð­stafanir sagði Svan­dís að málin hafi verið rædd og skipst á ýmsum skoðunum en niður­staðan hafi verið þessi og ein­hugur sé um hana.

Ég held að við séum öll sam­mála um það að við þurfum að reyna að halda sam­fé­laginu gangandi eins mikið og nokkurs er kostur en um leið að passa að heil­brigðis­kerfið okkar sligist ekki af of miklu á­lagi og að vernda okkar við­kvæmasta fólk.

Kemur til greina að nýta hrað­próf meira

Í mörgum Evrópu­löndum, þar á meðal Dan­mörku, er boðið upp á hrað­próf fyrir sýna­töku sem fólk getur nýtt sér áður en það mætir til vinnu eða á manna­mót. Hefur komið til tals að bjóða meira upp á slíkt hér á landi?

„Það skiptir máli þá að halda því að­skildu þau hrað­próf sem þurfa í raun og veru rann­sóknar­stofu og sýna­töku­sér­þekkingu, þar sem þú þarft líka sér­fræðing til þess að taka sýnið, og hins vegar það sem sums staðar er í boði sem eru kölluð sjálfs­próf sem að fólk getur bara keypt úti í apó­teki og tekið sjálft. En þetta með hrað­prófin, við sjáum alveg fyrir okkur að við getum notað þau meira, við erum náttúr­lega að byrja að nota þau núna í þjónustu við ferða­menn sem eru á leiðinni út úr landinu og sjáum mögu­leika á því að geta notað þau í ríkari mæli varðandi sýna­töku á fólki sem er með mikla tengingu við sam­fé­lagið og er að koma inn í landið.“

Eins og kerfið er núna þá þarf fólk að til­greina ein­kenni til að geta bókað sýna­töku en væri ekki rakið að auð­velda að­gengi fólks að sýna­töku?

„Við þurfum náttúr­lega að gæta mjög vel að því að greiningar­getan okkar sé nýtt í það sem brýnast er, sem er auð­vitað ein­kenna­sýna­taka og síðan sýna­taka af fólki í sótt­kví. En hrað­prófin gætum við nýtt til þess að verja betur við­kvæma hópi, til dæmis með því að nýta þau til að prófa starfs­fólk sem vinnur með slíkum hópum, hvort sem það eru hjúkrunar­heimili, heil­brigðis­stofnanir eða aðrir staðir. Þetta er til skoðunar og það er starfs­hópur á mínum vegum sem að er að fara í saumana á því að fara yfir mögu­leikann á því að geta nýtt hrað­prófin enn þá betur og ég vænti þess að fá eitt­hvað frá þeim alveg á næstu dögum.“

Sem kemur aftur inn á þann punkt að ef við erum að fara að lifa með veirunni næstu tvö árin þá þarf að finna ein­hverja leið til að láta þetta ganga greiðar fyrir sig svo fólk þurfi ekki að bíða eftir niður­stöðum í heilan dag.

„Al­gjör­lega, þetta eru alltaf þessi sömu mark­mið. Að verja okkar við­kvæmasta fólk, passa upp á heil­brigðis­kerfið en reyna að láta sam­fé­lagið ganga sinn vana­gang eins og nokkurs er kostur og þá gætu hrað­prófin verið þáttur í því,“ segir Svan­dís að lokum.