Anna Pála Sverris­dóttir, sendi­ráðu­nautur hjá fasta­nefnd Ís­lands gagn­vart Sam­einuðu þjóðunum í New York, segir að fólk verði að muna eftir því að setja sig í spor þeirra sem veikjast af kórónu­veirunni og þeirra sem hafa misst ást­vini úr veikindum vegna veirunnar á meðan við bíðum þess að hlutirnir fari í eðli­legt horf.

Anna Pála er bú­sett í New York en var í vor, í fyrstu bylgju far­aldursins, bú­sett í Brussel í Belgíu þar sem hún starfaði fyrir sendi­ráð Ís­lands og fasta­nefnd gagn­vart Evrópu­sam­bandinu í þrjú ár. Þá var hún langt gengin með sitt fjórða barn og þurfti vegna flensu­ein­kenna að fara í ein­angrun í stuttan tíma. Hún segir að sú reynsla leið­beini henni og minni hana á að halda að­gerðirnar út.

„Í lok apríl var ég lögð inn á spítala, nánar til­tekið CO­VID-álmu St. Luc spítalans í Brussel. Ég var sett í ein­angrunar­stofu og eyddi þar tveimur nóttum. Var þá langt gengin með barn, sem líkast til var ástæðan fyrir inn­lögn fyrir utan flensu­ein­kenni og ör­lítið skringi­lega súr­efnis­mettun. Þennan tíma fór ég aldrei út úr litlu sjúkra­stofunni fyrir utan að vera keyrð í hjóla­stól í lungnaskanna. Starfs­fólk kom og sinnti mér upp­dressað í hlífðar­búnað,“ segir Anna Pála í færslu sem hún deildi ný­lega á Face­book.

Hún segir að vegna þess um hve stuttan tíma hafi verið að ræða hafi þetta ekki verið mjög dramatískt en minnir þó á að þarna var ekki mikið vitað um veiruna. Starfs­fólkið hafi ýmist verið mjög slakt eða ber­sýni­lega mjög stressað að smitast af veirunni.

Inni­lokunar­kenndin fylgir enn

Læknir hafi þó sagt henni eftir fyrstu nóttina að ef prófið yrði já­kvætt, yrði hún þarna mögu­lega á­fram, í sömu að­stæðum í ein­angrun, í tvær til þrjár vikur vegna þess að súr­efnis­mettunin væri ekki 100 prósent og vegna þess að CO­VID-smituðum gæti hrakað of­boðs­lega hratt.

„Inni­lokunar­kenndin sem ég upp­lifði þá hefur að vissu leyti fylgt mér síðan. Ég var nú ekki fyrsta ó­létta konan í heiminum til að vera eitt­hvað and­stutt en að liggja þarna í ein­angrunar­stofunni og hugsa um fræði­lega mögu­leikann á að geta ekki andað, setti CO­VID í annað sam­hengi fyrir mig. Tak­markanir á mínu fé­lags­lífi skipta litlu í saman­burði við upp­lifun þeirra sem liggja inni­lokuð á spítala og í öndunar­vél,“ segir Anna Pála í færslunni sinni.

Hún segir að ný­lega hafi hún verið minnt á allt það sem við öll höfum neitað okkur um í um tíu mánuði gæti hafa orðið til þess að ein­hvers staðar í heiminum sé ein­hver á lífi sem annars væri það ekki.

„Gott að hafa í huga nú þegar lík­húsin eru að fyllast annars staðar í Banda­ríkjunum. Við þurfum að halda þetta út,“ segir Anna Pála.

Margir hafa flúið borgina eftir að faraldurinn skall á.
Fréttablaðið/Getty

Með­vituð um marg­þætta for­réttinda­stöðu

Hún segist, í sam­tali við Frétta­blaðið, vera mjög með­vituð um sína for­réttinda­stöðu. Bæði gagn­vart að­gerðunum sjálfum og þeim sem að liggja veikir inn á sjúkra­húsunum.

„Að­gerðirnar eru þungar fyrir fólk sem býr við undir­liggjandi sjúk­dóma eða er eitt eða býr við þannig að­stæður að það geti ekki auð­veld­lega lagað sig að þessu. Svo ekki sé talað um fólk sem hefur misst vinnuna. En það að geta sett sig í spor þeirra sem verða í al­vörunni veik er mikil­vægt. Það er svo fjar­lægt kannski að hugsa um fólkið í öðrum löndum sem liggur inni á spítala og hvað þá til fólks sem liggur á spítala í landi sem er langt í burtu. En ég ó­vænt upp­lifði það í stuttan tíma. Þannig ég reyni að hafa það í huga,“ segir Anna Pála.

Hún segir að for­réttinda­staðan að­stoði auð­vitað við að geta haldið að­gerðirnar út.

„…með öruggt hús­næði, heilsu og fjöl­skyldu sem sér til þess að mér leiðist sko ekki. Fullt af fólki er búið að fara illa útúr að­gerðunum gegn veirunni. Í Belgíu dó ungur strákur í vor þegar löggan elti hann á flótta. Hann hafði verið bö­staður fyrir að vera úti á skelli­nöðrunni sinni án þess að eiga erindi. Löggur með dyra­varða­komplexa nutu sín í botn í Brussel í vor. Fullt af slæmum stjórn­mála­mönnum hafa notað veiruna sem af­sökun til að kúga fólk.

Ég var ekki smituð af CO­VID í apríl. Ég ætla að halda að­gerðirnar út. En mikið sem við þurfum að passa að þær séu ekki fyrst og fremst í þágu fólks með dyra­varða­komplexa. Og vari ekki einni sekúndu lengur en þar,“ segir Anna Pála í færslu sinni.

Lauk ekki um áramótin

Hún segir að á­stæðan fyrir því að hún hafi rifjað þessa lífs­reynslu upp er að ára­mótin 2020 hafi verið „á­kveðið blöff“.

„Það breytist í raun ekkert al­menni­lega fyrr en á seinni part þessa árs og þegar maður hugsar til þess verður maður kannski von­laus,“ segir Anna Pála.

Hún segir að fyrir hana og konu hennar hafi þetta veru­leg á­hrif. Þær séu með lítil börn, þar af eitt unga­barn, sem þær geti ekki kallað eftir að­stoð með eða heim­sótt Ís­land auð­veld­lega.

„Þetta tosar í þótt að ég sé í marg­falt betri stöðu en margir aðrir. Mér fannst þetta því svo­lítið erfitt, hvað það er mikið eftir, en þá er gott að hafa þetta allt í huga. Að þetta er ekki búið og líf annars fólks er í húfi,“ segir Anna Pála að lokum.