Anna Pála Sverrisdóttir, sendiráðunautur hjá fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York, segir að fólk verði að muna eftir því að setja sig í spor þeirra sem veikjast af kórónuveirunni og þeirra sem hafa misst ástvini úr veikindum vegna veirunnar á meðan við bíðum þess að hlutirnir fari í eðlilegt horf.
Anna Pála er búsett í New York en var í vor, í fyrstu bylgju faraldursins, búsett í Brussel í Belgíu þar sem hún starfaði fyrir sendiráð Íslands og fastanefnd gagnvart Evrópusambandinu í þrjú ár. Þá var hún langt gengin með sitt fjórða barn og þurfti vegna flensueinkenna að fara í einangrun í stuttan tíma. Hún segir að sú reynsla leiðbeini henni og minni hana á að halda aðgerðirnar út.
„Í lok apríl var ég lögð inn á spítala, nánar tiltekið COVID-álmu St. Luc spítalans í Brussel. Ég var sett í einangrunarstofu og eyddi þar tveimur nóttum. Var þá langt gengin með barn, sem líkast til var ástæðan fyrir innlögn fyrir utan flensueinkenni og örlítið skringilega súrefnismettun. Þennan tíma fór ég aldrei út úr litlu sjúkrastofunni fyrir utan að vera keyrð í hjólastól í lungnaskanna. Starfsfólk kom og sinnti mér uppdressað í hlífðarbúnað,“ segir Anna Pála í færslu sem hún deildi nýlega á Facebook.
Hún segir að vegna þess um hve stuttan tíma hafi verið að ræða hafi þetta ekki verið mjög dramatískt en minnir þó á að þarna var ekki mikið vitað um veiruna. Starfsfólkið hafi ýmist verið mjög slakt eða bersýnilega mjög stressað að smitast af veirunni.
Innilokunarkenndin fylgir enn
Læknir hafi þó sagt henni eftir fyrstu nóttina að ef prófið yrði jákvætt, yrði hún þarna mögulega áfram, í sömu aðstæðum í einangrun, í tvær til þrjár vikur vegna þess að súrefnismettunin væri ekki 100 prósent og vegna þess að COVID-smituðum gæti hrakað ofboðslega hratt.
„Innilokunarkenndin sem ég upplifði þá hefur að vissu leyti fylgt mér síðan. Ég var nú ekki fyrsta ólétta konan í heiminum til að vera eitthvað andstutt en að liggja þarna í einangrunarstofunni og hugsa um fræðilega möguleikann á að geta ekki andað, setti COVID í annað samhengi fyrir mig. Takmarkanir á mínu félagslífi skipta litlu í samanburði við upplifun þeirra sem liggja innilokuð á spítala og í öndunarvél,“ segir Anna Pála í færslunni sinni.
Hún segir að nýlega hafi hún verið minnt á allt það sem við öll höfum neitað okkur um í um tíu mánuði gæti hafa orðið til þess að einhvers staðar í heiminum sé einhver á lífi sem annars væri það ekki.
„Gott að hafa í huga nú þegar líkhúsin eru að fyllast annars staðar í Bandaríkjunum. Við þurfum að halda þetta út,“ segir Anna Pála.

Meðvituð um margþætta forréttindastöðu
Hún segist, í samtali við Fréttablaðið, vera mjög meðvituð um sína forréttindastöðu. Bæði gagnvart aðgerðunum sjálfum og þeim sem að liggja veikir inn á sjúkrahúsunum.
„Aðgerðirnar eru þungar fyrir fólk sem býr við undirliggjandi sjúkdóma eða er eitt eða býr við þannig aðstæður að það geti ekki auðveldlega lagað sig að þessu. Svo ekki sé talað um fólk sem hefur misst vinnuna. En það að geta sett sig í spor þeirra sem verða í alvörunni veik er mikilvægt. Það er svo fjarlægt kannski að hugsa um fólkið í öðrum löndum sem liggur inni á spítala og hvað þá til fólks sem liggur á spítala í landi sem er langt í burtu. En ég óvænt upplifði það í stuttan tíma. Þannig ég reyni að hafa það í huga,“ segir Anna Pála.
Hún segir að forréttindastaðan aðstoði auðvitað við að geta haldið aðgerðirnar út.
„…með öruggt húsnæði, heilsu og fjölskyldu sem sér til þess að mér leiðist sko ekki. Fullt af fólki er búið að fara illa útúr aðgerðunum gegn veirunni. Í Belgíu dó ungur strákur í vor þegar löggan elti hann á flótta. Hann hafði verið böstaður fyrir að vera úti á skellinöðrunni sinni án þess að eiga erindi. Löggur með dyravarðakomplexa nutu sín í botn í Brussel í vor. Fullt af slæmum stjórnmálamönnum hafa notað veiruna sem afsökun til að kúga fólk.
Ég var ekki smituð af COVID í apríl. Ég ætla að halda aðgerðirnar út. En mikið sem við þurfum að passa að þær séu ekki fyrst og fremst í þágu fólks með dyravarðakomplexa. Og vari ekki einni sekúndu lengur en þar,“ segir Anna Pála í færslu sinni.
Lauk ekki um áramótin
Hún segir að ástæðan fyrir því að hún hafi rifjað þessa lífsreynslu upp er að áramótin 2020 hafi verið „ákveðið blöff“.
„Það breytist í raun ekkert almennilega fyrr en á seinni part þessa árs og þegar maður hugsar til þess verður maður kannski vonlaus,“ segir Anna Pála.
Hún segir að fyrir hana og konu hennar hafi þetta veruleg áhrif. Þær séu með lítil börn, þar af eitt ungabarn, sem þær geti ekki kallað eftir aðstoð með eða heimsótt Ísland auðveldlega.
„Þetta tosar í þótt að ég sé í margfalt betri stöðu en margir aðrir. Mér fannst þetta því svolítið erfitt, hvað það er mikið eftir, en þá er gott að hafa þetta allt í huga. Að þetta er ekki búið og líf annars fólks er í húfi,“ segir Anna Pála að lokum.
The year is off to a good start here @IcelandUN. Now fully manned with @annapalan joining us from Brussels🎉Still divided into two alternating teams because of the pandemic but united in spirit! #TeamModerna #TeamPfizer #Hello2021 🙌 pic.twitter.com/3DnijrL8ZS
— Iceland at UN 🇮🇸 (@IcelandUN) January 14, 2021