Fé­lagið Ís­land-Palestína stóð fyrir mót­mælum á Austur­velli í dag en margir söfnuðust þar saman til þess að krefjast að­gerða frá ís­lenskum stjórn­völdum vegna fram­göngu Ísraels­hers í garð Palestínu­manna. Alls hafa 140 Palestínu­menn og níu Ísraelar látist í á­tökunum sem hafa verið staðið yfir í tæpa viku.

Fundurinn fór fram undir nafninu Stöðvum blóð­baðið #sheik­hJarrah en sam­kvæmt lýsingu við­burðarins á Face­book var farið fram á að ís­lensk stjórn­völd myndu setja við­skipta­bann á Ísrael þar til á­rásunum á Gaza-svæðið linnir, þjóð­ernis­hreinsunum í Sheikh Jarrah verði hætt, og land­ráni á landi Palestínu­manna verði stöðvað og landi skilað til baka.

Sorglegt að horfa upp á stjórnvöld standa hjá

Á fundinum var þess krafist að ís­lensk stjórn­völd grípi tafar­laust til að­gerða og beindi fundar­stjórinn Guð­finnur Sveins­son orðum sínum beint að ríkis­stjórninni þegar hann sagði; „Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis­ráð­herra: Það er ekki nóg að hafa á­hyggjur af á­standinu. Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra: Það er ekki nóg að taka undir með aðal­fram­kvæmda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna og láta þar við sitja.“

„Stjórn­völd á Ís­landi eru í ein­stakri stöðu til þess að láta til sín taka af al­vöru þau geta beitt efna­hags­þvingunum sem hafa sannað gildi sitt í að knýja fram breytingar. Það er sorg­legt að horfa upp á ís­lensk stjórn­völd standa hjá og láta veik­burða yfir­lýsingar duga í stað þess að taka á­byrgð, nýta sér það vald sem við höfum gefið þeim og grípa til beinna að­gerða,“ sagði Guð­finnur.

Guðfinnur Sveinsson á fundinum.

„Við þurfum að hætta að líta undan. Við þurfum að finna kjarkinn til þess að gera það sem er rétt, alveg sama þó það þýði stirðari sam­skipti við Banda­ríkja­stjórn. Það er dýr­mætara að gera það sem er rétt. Við eigum að grípa til þeirra að­gerða sem standa okkur til boða og setja við­skipta­bann á Ísrael strax,“ sagði Guð­finnur enn fremur.

„Palestína er ekki í stríði“

Fala­steen Abu Libdeh var meðal ræðu­manna á fundinum en hún vísaði til þess að 73 ár væru liðin frá því að Ísrael var stofnað, þann 14. maí 1948, en degi síðar voru hundruð þúsunda Palestínu­manna rekin af heimilum sínum. Í dag minnast Palestínu­menn al-Nakba eða það sem kalla má dag á­fallsins mikla.

„15. maí markar upp­hafið á hörmungar­sögu, þá strax flúðu fleiri en milljón manns frá heimilunum sínum. Fólkið og af­kom­endur þeirra, sem eru enn á flótta, hafa aldrei fengið að snúa aftur heim,“ sagði Fala­steen og vísaði til þess að af 8 milljón Palestínu­mönnum væru um 5 milljónir fólk á flótta frá heimilinu sínu.

Að sögn Fala­steen er löngu tíma­bært að fólk í hinum vest­ræna heimi tali um deilu­aðila eða stríðandi fylkingar þegar talað er um Ísrael og Palestínu. „Palestína er ekki í stríði. Palestína er ekki með her,“ sagði Fala­steen.

„Réttur fólks til að verja grund­vallar­mann­réttindi sín, réttur þeirra sem sæta kúgunum og of­beldi, sem sæta ó­lög­legri land- og eigna­upp­töku, réttur þess fólks að verja sitt, jafn­vel með vopnum, er skýr og viður­kenndur í al­þjóð­legum mann­réttinda­sátt­málum. Það að fólk nýti þann rétt, gerir það ekki að hryðju­verka­mönnum.“

Falasteen Abu Libdeh tók til máls á fundinum.

„Rétturinn til þess að ráðast á her­lausa þjóð er hins vegar enginn. Það hefur engin þjóð rétt til að stunda stríðs­glæpi og þjóð­ernis­hreinsanir. En það er ná­kvæm­lega það sem er að gerast í Palestínu, og það er ná­kvæm­lega það sem er búið að gerast síðustu 73 árin. Við eigum að kalla hlutina réttu nafni, vegna þess að ef við gerum það ekki þá er hætt við því að við séum hluti af vanda­málinu,“ sagði Fala­steen enn fremur.

Þurfa að standa með þolendanum

Þá sagði hún mikil­vægt að ís­lensk stjórn­völd tali skýrt og sjái að sam­band Ísrael og Palestínu sé ekki sam­band jafningja, heldur sam­band geranda og þol­enda. „Þegar við notum orð og setningar eins og; „við höfum miklar á­hyggjur af stöðunni en það eru öfga­menn í báðum hópum,“ þá erum við vitandi eða ó­með­vitað að horfa fram hjá kjarna málsins, því sem gerandinn vill gjarnan að við sjáum ekki: hann sjálfan.“

Sóttvarna var vel gætt á Austurvelli.

„Ís­lenskir stjórn­mála­menn nota sömu orð og kollegar þeirra til dæmis í Banda­ríkjunum, þeir tala um rétt of­beldis­mannsins til að verja sig. Nú er tíma­bært að ís­lensk stjórn­völd tali skýrt; Látið af þessari með­virkni sem er búin að standa yfir í 73 ár og sýnið öðrum vest­rænum þjóðum gott for­dæmi. Eftir 73 ára hjá­setu er tíma­bært að taka af­stöðu með þolandanum.“

Vopnahlé má ekki bíða

Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, var einnig á fundinum en hún vísaði til þess að Ís­land eigi í sér­stöku sam­bandi við Palestínu og var fyrsta vest­ræna ríkið til að viður­kenna sjálf­stæði og full­veldi Palestínu árið 2011.

„Ríkis­stjórn Ís­lands verður að vera með af­dráttar­laus skila­boð og taka skýra af­stöðu með sak­lausum borgurum Palestínu sem verða fórnar­lömb ofur­eflis eins sterkasta hernaðar­ríkis heims. Ríkis­stjórn Ís­lands verður að senda skýr skila­boð til deilu­aðila um að al­þjóða­lög séu virt og að frið­sam­legum leiðum sé beitt í deilum Ísraels­manna og Palestínu­manna,“ sagði Rósa.

„Al­þjóða­sam­fé­lagið verður að semja um vopna­hlé strax. Það má ekki bíða.“