Faðir barnanna sem Edda Björk Arnardóttir flutti frá Noregi í einkaflugvél í mars opnar sig um brottnám barnanna og átökin á milli hans og Eddu í viðtali við norska blaðið Nettavisen. Í viðtalinu kemur fram að miðillinn hafi fengið aðgang að öllum gögnum málsins fyrir viðtalið auk þess sem þau þýddu viðtalið við móðurina hjá Eddu Falak, Eigin konur, og ræddu við hana sjálf í viðtali.

Í upphafi viðtalsins segir að maðurinn sé við það að bugast vegna málsins og að hann sé opinskár um það hversu mikil áhrif málið hefur haft á hann. Þá segir að það hafi greinilega haft mikil áhrif á hann að öll fimm börnin hans hafi verið tekin og að móðir barnanna hafi opinberlega greint frá alvarlegum ásökunum gegn honum.

„Þetta er nánast óbærilegt. En sem betur fer á ég fólk í kringum mig sem er að hugsa um mig,“ segir faðirinn.

Ítarlega er farið yfir sögu málsins í umfjöllun Nettavisen og hvernig móðirin hefur ekki einu sinni, heldur tvisvar, tekið börnum frá föðurnum og í síðara skiptið í einkaflugvél eins og ítarlega hefur verið fjallað um. Fyrra skiptið var árið 2019 en þá voru börnin hjá henni í fríi en fóru svo ekki aftur heim. Edda sagði þau við slæma tannheilsu en dómstóll komst síðar að því, samkvæmt gögnum Nettavisen, að börnin hefðu verið við slæma tannheilsu líka þegar þau voru í hennar forsjá og var hún því dæmd fyrir að koma börnunum ekki aftur heim til Noregs.

„Ég treysti því að yfirvöld fylgi lögunum í þessu máli og vinni að því að skila þeim eftir þetta ólöglega brottnám. Þessi börn hafa verið tekin frá fyrirvinnu sinnu, skólanum og vinum sínum,“ segir lögmaður mannsins frá Íslandi og bætir því við að enginn sé yfir lögin hafinn.

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að drengirnir dvelja enn á heimili móður sinnar hér á landi og eru byrjaðir í skóla.

Saksóknari í Noregi hefur gefið út ákæru á hendur móðurinni fyrir brottnámið en lögreglan á Íslandi aðhefst ekkert fyrr en hún fær beina skipun frá lögreglunni í Noregi.