Tveir fyrrum starfs­menn Sælu­kots segja öryggi hafa verið mjög á­bóta­vant og að­búnaður slæmur í leik­skólanum Sælu­koti þegar þær voru þar við störf. Þær segja frá upp­lifun sinni í Frétta­vaktinni á Hring­braut í kvöld.

Elín Ásta Sól­skríkja starfaði á leik­skólanum í ellefu mánuði á árunum 2015 til 2016 en Sigur­björg Árna­dóttir starfaði þar árið 2019. Þær gerðu báðar margar at­huga­semdir við starf­semi skólans þegar þær störfuðu þar og segja að lítið hafi breyst.

Fyrrverandi starfs­menn skólans og foreldrar sem hafa haft börn þar í vist sendu ný­lega frá sér á­kall um að honum sé lokað eða að rót­tækar breytingar séu gerðar á starf­semi hans.

Sigur­björg lýsir því að á leik­skólanum hafi verið slæmur að­búnaður bæði barna og starfs­manna. „Allt of fáir starfs­menn, of mikið af slysum. Stundum matur af skornum skammti. Það er langur listi,“ segir hún.

„Við starfs­fólkið slepptum því oft að borða þannig að það væri nægur matur handa börnunum í skólanum á okkar deild,“ segir Elín.

Elstu krakkarnir gátu opnað hliðið út á götu

Öryggið á staðnum er yfir­höfuð mjög á­bóta­vant að sögn Elínar en oft voru bara fáir starfs­menn með mikinn fjölda barna. Þá voru einnig skápar og hillur illa festar við veggi. „Þannig að líka bara að­búnaður á hús­næðinu, alla­vega á þeirri deild sem ég var á og úti, var bara mjög slæmur,“ segir hún.

Stundum var starfs­fólk eitt með eitt­hvað í kringum sex börn, eins til tveggja ára. Það neyddist þá til að skilja hópinn eftir eftir­lits­lausan ef skipta þurfti á ein­hverjum barnanna.

Sigur­björg segist ekki hafa verið með elstu krakkana og því síður lent í svo­leiðis vand­ræðum. Hins vegar hafi verið eitt hlið sem elstu krakkarnir gátu sjálfir opnað og komist þannig út á götu. „Og þeir gerðu það,“ segir Sigur­björg.

Sigur­björg segist hafa skammast yfir því að hliðinu væri ekki breytt sem varð til þess að henni var að lokum sagt upp. „Það var greini­lega eitt­hvað sem ég átti ekki að gera,“ segir hún.

Elín og Sigur­björg segjast báðar hafa litla trú á því að nokkuð verði gert til að bæta starf­semi skólans. „Reykja­víkur­borg sagði við okkur á sínum tíma að þau gætu voða lítið gert því þetta er einka­rekið,“ segir Elín. „Það voru svörin sem við fengum. Þannig að það var í raun og veru ekkert gert og það eru komin fimm ár síðan ég var að vinna þarna og það hefur ekkert breyst.“

Börnin með bit­för og mar

Ein­hverjir for­eldrar hafa brugðið á það ráð að taka börn úr skólanum, sam­kvæmt Elínu og Sigur­björgu. Meðal á­stæðanna fyrir því hafi verið að börnin voru oft með meiðsli.

„Þau hafa verið marg­bitin, þau hafa verið með mar og svo fram­vegis og mei­ri­þorri starfs­manna sem hefur þarna unnið er alveg frá­bær en ein starfs­manneskja ræður ekki við mjög stóran hóp og getur ekki komið í veg fyrir öll á­föll sem verða þarna þegar það er svona undir­mannað,“ segir Sigur­björg.

Á leik­skólanum var enginn leik­skóla­menntaður, enginn deildar­stjóri og enginn þroska­þjálfi þegar Elín og Sigur­björg voru þar við störf. „Það var skráður leik­skóla­stjóri en ég sá hana aldrei þessa ellefu mánuði sem ég vann þarna,“ segir Elín.

Elín segir að það reyndist erfitt að fá hjálp fyrir börn sem þurftu að­stoð vegna þroska­skerðingar. „Þar á meðal var barn á minni deild sem við þurftum að fá að­stoð með, það var greini­leg þroska­skerðing og við vorum að berjast við það í marga mánuði að fá ein­hverja að­stoð fyrir þetta barn,“ segir Elín. Sigur­björg segist hafa orðið vitni að svipuðu at­viki þegar hún vann á leik­skólanum.

Á­kall fyrr­verandi starfs­manna

Reykja­víkur­borg stað­festi í gær að leik­skólinn Sælu­kot sé til skoðunar vegna kvartana og á­bendinga um starf­semi þess. Í til­kynningu frá borginni í gær kom fram að brugðist verður við ýmist með bréfum, fundum eða eftir­liti og í kjöl­farið með til­mælum og kröfu um að gerðar verði úr­bætur á því sem talið er á­bóta­vant.

Til­kynning borgarinnar var send út í kjöl­far þess að fyrr­verandi starfs­menn Sælu­kots frá sér á­kall þar sem þess er krafist að skólanum verði lokað eða gerðar veru­legar breytingar á starfs­háttum hans. Í skýrslu sem kom út um leik­skólann árið 2017 kom fram að mat á námi og vel­ferð barna í Sælu­koti var talið ó­við­unandi.

Fram­kvæmt var ytra mat á Sælu­koti árið 2017 og má hér sjá skýrslu vegna matsins. Þrír þættir í starfi leik­skólans voru taldir ó­við­unandi; leik­skóla­þróun og sí­menntun, opin­ber birting og um­bætur og mat á námi og vel­ferð barna.

Við­talið við Elínu Ástu Sól­skríkju og Sigur­björgu Árna­dóttir má sjá í heild sinni í Frétta­vaktinni á Hring­braut.