Donald Trump, fráfarandi forseti, flutti ávarp á herstöðinni Joint Base Andrews í Maryland fylki í dag á sama tíma og Joe Biden og Kamala Harris lögðu leið sína í St. Matthew the Apostle dómkirkjuna ásamt mökum sínum.

Donald og Melania hafa nú yfirgefið Hvíta húsið til þess að vera viðstödd sérstakt kveðjupartý fyrir forsetann og munu því ekki fylgjast með innsetningarathöfn Bidens og Harris.

Trump reifaði feril sinn og sagðist vonast til þess að næsta ríkisstjórn muni ekki hækka skatta en óskaði þeim þó góðs gengis. Að lokum sagðist hann ætla að snúa eftir í einhverri mynd.

„Við höfum afrekað mikið,“ sagði Trump í upphafi ávarpsins og þakkaði fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn. Hann gaf Melaniu orðið sem þakkaði þjóðinn fyrir ástina og stuðninginn.

„Við endurbyggðum herinn og við settum á laggirnar nýja deild, geimherinn,“ sagði Trump stoltur og fullyrti að hann var vinsælasti forsetinn meðal fyrrverandi hermanna.

Hann sagðist stoltur af því að hafa lækkað skatta. „Ég vona að þau muni ekki hækka skattana ykkar. En ef þau gera þá, þá var ég búin að vara ykkur við,“ sagði hann við hlátursköll fylgjenda sinna.

Trump sagði þróun bóluefna í Bandaríkjunum vera nánast kraftaverk. „Við höfum unnið hörðum höndum og eins og íþróttafólk segir þá skildum við allt eftir á vellinum.“

í lok ávarpsins sagði Trump að það hafi verið mikill heiður að hafa verið forseti og í kjölfarið fóru fylgjendur hans að syngja „Thank you, Trump!“ og „U-S-A!“. Lagið YMCA eftir The Village People spilaði þegar hann yfirgaf sviðið.

Hér fyrir neðan má sjá ræðu hans í heild sinni.