Þorvaldur S. Helgason
thorvaldur@frettabladid.is
Föstudagur 16. júlí 2021
23.00 GMT

Veg­ferðin í leit að rétt­læti fyrir börn vöggu­stofanna hófst form­lega þegar þeir Árni, Fjölnir Geir Braga­son, Hrafn Jökuls­son, Tómas V. Alberts­son og Viðar Eggerts­son gengu á fund borgar­stjóra þann 7. júlí síðast­liðinn en hún á sér þó langan og per­sónu­legan að­draganda fyrir Árna.

„Þetta mál hófst á svo­lítið undar­legum stað en það var á Barna­spítala Hringsins. Þetta hófst þannig að eld­huginn Hrafn Jökuls­son, forn­vinur minn, hafði árum saman komið á barna­spítalann og teflt við börnin einu sinni í viku. Svo hittist þannig á að ég var þarna með yngsta son minn, Óla, sem var í tvö ár á barna­spítalanum vegna al­var­legra veikinda. Svo kemur Hrafn einu sinni sem oftar en í þetta sinn tókum við ekki skák heldur fórum að ræða við Óla, sem var þá sex­tán ára, um að­búnað á sjúkra­húsum og hvernig þetta var í gamla daga þegar for­eldrar máttu ekki einu sinni heim­sækja börn sín. Þá upp­lýsti Hrafn mig um það sem ég vissi ekki að hann hafði verið vistaður á Vöggu­stofu Thor­vald­sens­fé­lagsins. Þar byrjaði þetta því að ég og syst­kini mín vorum öll meira og minna á vöggu­stofum og síðan í kjöl­farið á fleiri opin­berum stofnunum,“ segir Árni.

„Á þessum degi 3. janúar 2019 þegar þetta allt hófst, þá bundumst við Hrafn fast­mælum um að koma þessu máli á ein­hvern rek­spöl þannig að það myndi kannski leiða til rann­sóknar af því þetta var sví­virði­leg starf­semi og brotið bein­línis á börnum og mæðrum þeirra. Síðan líður og bíður og ég var mjög upp­tekinn vegna veikinda sonar míns, m.a. af því við for­eldrarnir bjuggum á spítalanum bæði hér heima og er­lendis. Síðasta vor þá tökum við upp þráðinn aftur og úr verður að Hrafn biður mig um að rann­saka starf­semi vöggu­stofa borgarinnar en ég kom víða að lokuðum dyrum því heimildirnar eru ekki að­gengi­legar.“

Hrafn Jökulsson og Ólafur Ívar Árnason tefla á Barnaspítala Hringsins í maí 2018.
Mynd/Árni H. Kristjánsson

Margt ó­huggu­legt kom í ljós

Árni tók saman greinar­gerð um starf­semi vöggu­stofa sem varð að bréfi sem þeir fimm­menningar sendu borgar­stjórn 13. júní síðast­liðinn og setti allt af stað. Í bréfinu er farið yfir sögu Vöggu­stofunnar að Hlíðar­enda sem starf­rækt var 1949-1963 og Vöggu­stofu Thor­vald­sens­fé­lagsins sem starf­rækt var 1963-1973.

Árni segir að fleiri vöggu­stofur hafa verið starf­ræktar á 20. öld en þær voru þá yfir­leitt reknar af ein­hvers konar fé­laga­sam­tökum á meðan borgin bar al­farið á­byrgð á Vöggu­stofunni að Hlíðar­enda og Vöggu­stofu Thor­vald­sens­fé­lagsins.

„Það er ekki hægt að gera löngu látið fólk á­byrgt, í borgar­stjórn kemur fólk og fer en á­byrgðin stendur alltaf eftir. Því er miðað við starf­semi þessara tveggja stofnana enda var þetta sama starf­semin sem fluttist á milli húsa. Það kom margt mjög ó­huggu­legt í ljós sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir,“ segir Árni.


Það sem enginn skilur er, hvernig gátu yfir­völd rekið skað­lega starf­semi sem stríðir gegn mann­legu eðli, heil­brigðri skyn­semi og fyrir­liggjandi rann­sóknum? Það er gjör­sam­lega ó­skiljan­legt hvernig hægt var að hunsa grátandi börnin.


Gróðrar­stía and­legrar veiklunar

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem reynt hefur verið að opna á um­ræðuna um vöggu­stofur. Um miðjan sjötta ára­tuginn reyndu borgar­full­trúarnir Dr. Sigur­jón Björns­son, sál­fræðingur, og Adda Bára Sig­fús­dóttir, veður­fræðingur, að vekja at­hygli á málinu í borgar­stjórn en það féll í grýttan jarð­veg.

„Þetta hefur haft svo skelfi­legar af­leiðingar fyrir flest börnin sem voru þarna, en það sem er ó­skiljan­legt er að eftir að þetta var af­hjúpað 1967 af Dr. Sigur­jóni og Öddu Báru þá var málið gert flokks­pólitískt. Þau voru bara ein­hverjir kommar, hægri­menn voru með borgina, og þetta var af­greitt eins og þau vildu koma höggi á í­haldið,“ segir Árni.

Dr. Sigur­jón hélt ræðu á borgar­stjórnar­fundi í mars 1967 þar sem hann lýsti vöggu­stofunum sem „gróðrar­stíu and­legrar veiklunar“. Þá skrifaði hann greinina „Vist­heimili fyrir ung börn“ sama ár þar sem hann sýndi fram á skað­semi þess að van­rækja börn til­finninga­lega til lengri tíma með vísun í rann­sóknir í barna­sál­fræði og geð­læknis­fræði. Næst var hreyft við málinu árið 1993 þegar út­varps­þáttur Viðars Eggerts­sonar, „Eins og dýr í búri“ var frum­fluttur. Þar var fjallað um bar­áttu móður hans til að endur­heimta tví­bura sína sem hún varð við­skila við frá fæðingu vegna fá­tæktar.

„Það sem enginn skilur er, hvernig gátu yfir­völd rekið skað­lega starf­semi sem stríðir gegn mann­legu eðli, heil­brigðri skyn­semi og fyrir­liggjandi rann­sóknum? Það er gjör­sam­lega ó­skiljan­legt hvernig hægt var að hunsa grátandi börnin. Á endanum hættu börnin að gráta. Það eru til heimildir um að börn hafi hætt, ó­með­vitað auð­vitað, að nærast því þau gáfust upp. Þau fengu aldrei örvun, sem er grund­vallar­at­riði fyrir þroska unga­barna. Það var bein­línis for­boðið að sinna öðru en líkam­legum þörfum barnanna. Mörg urðu rang- eða til­eygð vegna þess að þau sáu bara loftið úr rimla­rúmunum og fengu enga skyn­örvun,“ segir Árni.

Mörg börnin voru ó­ta­landi þegar þau komu út af vöggu­stofum og bjuggu við mál­helti fram eftir aldri. Sum þeirra, eins og Viðar Eggerts­son og tví­bura­systir hans sem voru vistuð á Hlíðar­enda til tveggja og hálfs árs aldurs, þróuðu með sér sitt eigið tungu­mál af því enginn talaði við þau. Alls voru 510 börn vistuð á Hlíðar­enda á starfs­tíma vöggu­stofunnar og á Vöggu­stofu Thor­vald­sens­fé­lagsins voru um það bil 100 börn vistuð ár­lega fram undir lok sjöunda ára­tugarins.

Árni er sagnfræðingur að mennt og tók saman greinar­gerð um starf­semi vöggu­stofa í Reykjavík frá 1949-1963.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Mæðurnar beittar þrýstingi til að láta frá sér börnin

Í greinar­gerð Árna kemur fram að „í lang­flestum til­vikum var um að ræða börn ungra, fá­tækra, ein­hleypra eða veikra mæðra sem talið var að gætu ekki alið önn fyrir börnum sínum“. Mæðurnar fengu ekki að snerta börn sín í heim­sóknum heldur þurftu þær að horfa á börnin í gegnum gler­vegg. Þá voru vöggu­stofurnar eins konar ó­form­legar ætt­leiðingar­mið­stöðvar þar sem barn­laus hjón völdu sér börn.

„Um þræði héldu Barna­vernd Reykja­víkur og for­stöðu­konan hverju sinni. For­stöðu­konan hafði alveg ó­trú­leg völd, hún gat gert út­tekt á heimilum, komið til leiðar að for­eldrar yrðu svipt for­ræði og skikkað börn í vist. En á sama tíma var gífur­legur þrýstingur barn­lausra hjóna því þetta var löngu fyrir daga ætt­leiðinga er­lendis frá,“ segir Árni.

Hann segir að finna megi skýringu á þessari ætt­leiðingar­stefnu í árs­skýrslum Barna­verndar Reykja­víkur á árunum 1967-1969, þar sem tekið er fram hversu hag­kvæmt það sé að koma börnum á sjálf­bær einka­heimili í fóstur.

„Það eru til skjal­festar frá­sagnir af því að mæður í veikri stöðu hafi verið beittar svo miklum þrýstingi að þær gáfu eftir og af­söluðu sér börnum sínum. Sláandi dæmi er um konu sem lá á sjúkra­húsi, al­var­lega veik eftir barns­burð, og full­trúar Barna­verndar­nefndar komu í­trekað á sjúkra­húsið til að reyna að fá konuna til að af­sala sér barninu. Þarna er valda­ó­jafn­vægið gífur­legt. Þetta er eitt­hvað sem þarf að skoða en mál­efnið er hálf­gert tabú meðal mæðranna og því fólki sem ætt­leiddi börnin. Til að gæta sann­mælis þá efast ég ekkert um að öll þessi börn hafi lent á góðum heimilum hjá ást­ríkum for­eldrum og þetta orðið þeim til heilla. En eftir stendur samt sem áður að þetta var stundum gert á vafa­sömum for­sendum og eftir sátu mæður og fjöl­skyldur í sárum,“ segir Árni.


Það er ó­trú­legur fjöldi sem missti gjör­sam­lega fótanna, ekki bara út af vöggu­stofunum heldur einnig vegna vistunar á öðrum stofnunum. Ég var mjög lán­samur að eignast góða konu sem beindi mér rétta leið eftir eyði­merkur­ráf í myrkri.


Gert ráð fyrir dauðs­föllum

Sam­kvæmt heimildum Árna var nokkuð um að börn kæmu á vöggu­stofurnar beint af fæðingar­deild. Þetta voru stundum börn sem voru mikið fötluð og jafn­vel ekki hugað líf en í stað þess að dvelja á sjúkra­húsi, þar sem þau hefðu getað fengið við­eig­andi að­stoð, þá voru þau flutt á vöggu­stofu. Einnig eru heimildir um að börn hafi veikst al­var­lega, svo sem af lungna­bólgu, en ekki flutt á sjúkra­hús.

„Svo er náttúr­lega þetta ó­huggu­lega dæmi um að það hafi verið gert ráð fyrir dauðs­föllum á Vöggu­stofu Thor­vald­sens­fé­lagsins. Þarna var skírnar­fontur til að skíra dauð­vona börn og lík­her­bergi. Það sem er ó­trú­legast í þessu er að það virðist sem sumar konur hafi verið sviptar for­ræði barna sinna áður en þau ólu börnin því þau voru tekin strax við fæðingu og flutt á vöggu­stofuna. Af hverju var þessum börnum ekki sinnt á sjúkra­húsi? Þetta er bara ó­skiljan­legt!“ segir Árni.

Að­spurður um hvort slíkt hafi hrein­lega staðist lög segir Árni að laga­stoð virðist hafa verið fyrir hendi í þeim til­vikum þar sem móðirin var í ó­reglu um eða fyrir með­göngu.

„Þetta var vafa­laust hugsað barninu til heilla. Það verður að koma skýrt fram, þetta voru þau úr­ræði sem þá voru í boði og stundum var auð­vitað nauð­syn­legt að grípa til þeirra. Bara alveg eins og í dag að stundum verður hrein­lega að svipta ó­hæfa for­eldra börnum sínum. Svo er annað sem þarf að koma fram að ungar ó­giftar mæður fóru stundum sjálf­viljugar með börn sín á vöggu­stofur, í góðri trú eftir með­mæli, á meðan þær voru að koma undir sig fótunum. Þær vissu ekki betur. Svo kannski fengu þær aldrei börnin aftur vegna þess að Barna­vernd mat stöðuna þannig.“

Í svefnherbergi elstu barnanna á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins 1967.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Bragi Guðmundsson

Vöggustofur í Reykjavík

  • 1949 – Vöggustofan að Hlíðarenda við Sunnutorg sett á laggirnar.
  • 1959 – Thorvaldsensfélagið ræðst í að byggja nýja vöggustofu.
  • 1963 – Thorvaldsensfélagið færir Reykjavíkurborg vöggustofuna að Dyngjuvegi að gjöf. Starfsemin á Hlíðarenda flyst óbreytt þar yfir.
  • 1967 – Dr. Sigurjón Björnsson vekur athygli á málefni vöggustofa með greininni „Vistheimili fyrir ung börn“ og í borgarstjórn ásamt Öddu Báru Sigfúsdóttur.
  • 1973 – Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins breytt í upptökuheimili fyrir börn.
  • 1979 – Starfsemi upptökuheimilisins á Dyngjuvegi hætt og það sameinað rekstri upptökuheimilisins við Dalbraut.
  • 1993 – Útvarpsþátturinn „Eins og dýr í búri“ eftir Viðar Eggertsson frumfluttur í Ríkisútvarpinu.
  • 2021 – Árni H. Kristjánsson, Fjölnir Geir Bragason, Hrafn Jökulsson, Tómas V. Albertsson og Viðar Eggertsson ganga á fund Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.
Vöggustofa Thorvaldsensfélagsins við Dyngjuveg árið 1963.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Sveinn Þormóðsson

Silunga­pollur eins og fangelsi

Eins og áður sagði voru Árni og öll syst­kini hans vistuð á stofnunum meira og minna í æsku.

„Ef til vill sluppum við syst­kinin betur en margur annar. Við höfum getað farið í gegnum lífið svona að mestu uppi­standandi, auð­vitað höfum við glímt við erfið­leika og allt það. En við náðum öll að mennta okkur og eignast fjöl­skyldur, ó­líkt mörgum öðrum. Því það er ó­trú­legur fjöldi sem missti gjör­sam­lega fótanna, ekki bara út af vöggu­stofunum heldur einnig vegna vistunar á öðrum stofnunum. Ég var mjög lán­samur að eignast góða konu sem beindi mér rétta leið eftir eyði­merkur­ráf í myrkri,“ segir Árni og bætir við að ekki hafi allir verið svo lán­samir. Mörg vöggu­stofu­barnanna hafi upp­lifað mikla höfnun og glímt við lítið sjálf­traust alla sína ævi.

Syst­kinin héldu sam­bandi við for­eldra sína framan af og dvöldu tíma­bundið hjá þeim á milli þess sem þau voru á stofnunum. Hópurinn tvístraðist endan­lega 1969 en Árni og einn bróðir hans fylgdust að. Árni segir þau syst­kinin hafa haldið sam­bandi á full­orðins­árum þó það hafi stundum verið stopult. Árna er ekki kunnugt um ná­kvæm­lega hversu lengi hann dvaldi á vöggu­stofu en hann hefur sótt um að fá að­gang að gögnum varðandi æsku sína hjá Borgar­skjala­safni og Þjóð­skjala­safni.

„Þetta rennur í einn graut hjá mér því ég var svo mikið á Silunga­polli og öðrum stofnunum. Minnið mitt nær aldrei á vöggu­stofu þannig ég get ekki sagt til um það. En syst­kini mín voru þarna nokkuð lengi, ég veit það, og tvö þeirra fóru þaðan í fóstur og til ætt­leiðingar. Við eigum það lík­lega sam­merkt syst­kinin að hafa glímt við fé­lags­fælni og sum hafa talað um erfið­leika með að tengjast og treysta fólki. En við sluppum nokkuð vel, miðað við það sem ég hef heyrt og til eru heimildir um. All­tént vor­kennum við okkur ekkert þrátt fyrir erfiða æsku.“

Silunga­pollur var vist­heimili sem rekið var af Reykja­vík­ur­­borg frá 1950-1969 fyrir börn á aldrinum þriggja til sjö ára. Árið 2010 fór fram rann­sókn á starf­semi Silunga­polls á vegum vist­heim­ila­­nefnd­ar­þar sem kom í ljós að sum börnin voru beitt kyn­ferðis­of­beldi þar. Árni líkir vistinni á Silunga­polli við fangelsi.

„Ég man til dæmis að hurðar­húnar voru mjög hátt uppi þannig að börnin gátu ekki opnað. Svo voru þau geymd á daginn í stórum sal sem líkja má við dýra­garð. Þarna voru börn sem glímdu við ýmsa erfið­leika, öllu att saman og mikið um of­beldi á meðal barnanna. Ef þú fyllir heilan sal af börnum sem eiga öll við erfið­leika að glíma þá geturðu rétt í­myndað þér á­standið,“ segir hann.

Árni tveggja ára 1963 og níu ára 1970.
Myndir/Úr einkasafni

Stofnun getur aldrei alið upp barn

Árni segir stofnana­vistina hafa haft mikil á­hrif á hann og syst­kini hans. Þau hafi þó öll náð að lifa sínu lífi þrátt fyrir ýmis konar bakslög.

„Börn sem glíma við mikinn til­finninga­legan sárs­auka og kunna ekkert að takast á við það lenda oft í ó­reglu. Eigum við ekki að segja að víman sé svona ein­hvers konar líkn. Þegar það er mikill til­finninga­legur sárs­auki þá getur þú engan veginn unnið úr því, þú hefur ekkert bak­land og enga fjöl­skyldu til að hjálpa þér. Stofnun getur í rauninni aldrei alið upp barn, vegna þess að grund­vallar­þörf barns er ást, um­hyggja og öryggi og slíkt er ekki í boði á stofnun. Fólkið sem sinnir þér og gefur þér að borða er bara í vinnunni.“

Varstu í sam­bandi við for­eldra þína eftir að þú varðst full­orðinn?

„Já, ég var það. Pabbi flutti reyndar til Ástralíu og var þar lengi. Ég var svo í sam­skiptum við hann þegar hann kom til baka og alltaf í sam­skiptum við móður mína en eftir að hún missti yngsta bróður minn frá sér þá missti hún endan­lega fótanna í lífinu. Þetta var of sárt og þetta var of mikið og eftir það átti hún sér aldrei við­reisnar von í lífinu.“

Móðir Árna glímdi við ó­reglu og veikindi í gegnum líf sitt og þykir honum það einna sárast hversu mikið var litið niður á hana og aðrar konur í sam­bæri­legri stöðu.

„Ég get náttúr­lega ekki sett mig í spor þessara mæðra en það sem mér finnst mjög sárt er for­dóma­fullt við­horfið gagn­vart þeim. Það var ekki þeim að kenna hvernig komið var fram við börn þeirra á vöggu­stofum en allar mæðurnar skynjuðu auð­vitað hve hrylli­legt þetta var fyrir þau. Þær voru síðan for­dæmdar af starfs­fólki vöggu­stofa, fé­lags­mála­yfir­völdum og jafn­vel sam­fé­laginu.“

Funduð þið syst­kinin fyrir gremju gagn­vart for­eldrum ykkar?

„Já eðli­lega, öll á ein­hverjum tíma­punkti en síðan erum við held ég öll löngu búin að fyrir­gefa þeim. Þetta var bara fá­tækt og veikt fólk. Móður­fjöl­skyldan mín var blá­snauð, þau bjuggu í Múlakampnum í bröggum. Þannig að ég held að ég geti talað fyrir hönd okkar allra að það er enginn að erfa þetta við þau í dag. Þetta voru bara að­stæður sem for­eldrar mínir réðu engan veginn við. Ég veit það að þau vildu okkur allt hið besta en þau réðu bara ekki við líf sitt.“

Fimmmenningarnir á fundi borgarstjóra 7. júlí síðastliðinn.
Fréttablaðið/Ernir

Vilja rétt­læti fyrir mæðurnar og börnin

Reykja­víkur­borg hefur heitið því að rann­saka starf­semi vöggu­stofanna að Hlíðar­enda og Dyngju­vegi en ljóst er að mikið verk er fyrir höndum. Við­brögðin hafa verið mikil og segist Árni hafa þurft að slökkva á símanum sínum fyrstu dagana því hann hafi hrein­lega ekki stoppað. At­huga­semdir fólks hafi lang­flestar verið já­kvæðar en ein­staka hafa ýjað að því að fimm­menningarnir séu á höttunum eftir fé eða bótum. Árni hafnar því al­farið og segir það aldrei hafa komið til tals.

„Við erum ekki á höttunum eftir því, bara alls ekki. Við erum viljum bara að starf­semin verði rann­sökuð og gerð skil. Því þetta er svartur blettur á sögu Reykja­víkur­borgar og sögu barna á Ís­landi. Ég er ekki að segja hvað verði í fram­tíðinni enda ræð ég engu þar um. En það var aldrei hug­myndin okkar Hrafns, við vildum rétt­læti, ekki síst fyrir mæðurnar,“ segir Árni.

Hvað heldurðu að verði næstu skref í þessu máli?

„Næstu skref eru að fylgja þessu eftir. Það sem við gerum núna í fram­haldinu er að spyrja reglu­lega um fram­vindu málsins og auð­vitað vonast ég til þess að það verði eitt­hvað gert og þetta verði rann­sakað. Þessi með­ferð á börnum var alveg með ó­líkindum því í rauninni er þetta ekkert svo langt síðan.“

Fimm­menningarnir stofnuðu hópinn „Rétt­læti“ á Face­book sem er eyrna­merktur börnum sem voru vistuð á vöggu­stofum, að­stand­endum þeirra og á­huga­fólki um mál­efnið. Sögurnar hafa hrannast inn bæði frá fólki sem var sjálft vistað á vöggu­stofum og að­stand­endum þeirra.

„Það vilja allir meina að þetta hafi haft mjög slæm á­hrif og það er ó­trú­lega há tíðni ó­reglu og sjálfs­víga hjá þessum hópi fólks. En það má ekki al­hæfa að það sé ein­göngu hægt að skrifa á vöggu­stofurnar því flest börnin voru líka vistuð á öðrum miður góðum stofnunum,“ segir Árni.

Lagt hefur verið til að Árni verði full­trúi barna í nefnd sem skipuð verður um rann­sókn málsins en hann segist ekki vera til­búinn að gera það enda standi það honum of nærri til þess að gæta hlut­lægni.

„Ég geri þetta náttúr­lega bara með­fram öðru og ætlaði aldrei að þetta yrði svona stórt, ég sá það í raun ekki fyrir mér. Eld­huginn Hrafn þrýsti á mig til þess að leggjast í þessa rann­sóknar­vinnu, hann sagði að ég væri dæmdur til að gera þetta af því ég er sagn­fræðingur.“

Nú mun senni­lega taka ein­hvern tíma að leiða málið til lykta, ætlarðu þér að fylgja því eftir?

„Þetta mál má ekki hel­taka okkur en auð­vitað munum við ýta við borgar­stjórn ef okkur fer að lengja eftir svörum og fylgja því þannig eftir. Ég er ekki einn og auk öflugra fé­laga minna þá er fjöldinn allur af fólki sem lætur sig málið varða og styður væntan­lega rann­sókn. Að lokum vil ég hvetja þá sem voru vistaðir á vöggu­stofum og að­stand­endur þeirra til að segja sögu sína — það er mikil­vægt!“ segir Árni.

Athugasemdir