Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, var á fundi með eigin flokksmönnum þegar Fréttablaðið náði af henni tali. Hún segist fastlega gera ráð fyrir því að heyra í oddvitum annara flokka síðar í dag.
„Ég er að tala við mitt fólk og við erum að leggja áherslu á okkar mál. Það er fyrst og fremst það sem við erum að leggja áherslu á,“ segir Sanna aðspurð að því hvort hún hafi rætt við aðra oddvita í dag. Sósíalistar hafa útilokað samstarf við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn.
Ertu þá hluti af einhverjum meirihlutaviðræðum sem stendur?
„Nei, ég er bara með fólkinu mínu hér, Sósíalistum. Við erum að ræða saman,“ segir Sanna. Aðspurð hvort hún hafi meðal annars heyrt í Degi B. Eggertssyni í dag, segir Sanna svo ekki vera.
Hún segist gera ráð fyrir því að hún verði í bandi við hina oddvitana í dag. „Mér finnst bara mikilvægt að heyra í fólki og held línunni auðvitað opinni og ekkert að því að tala við fólk. Við sjáum bara hvernig dagurinn verður.“
Útilokar ekki samstarf til hægri
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, segist í samtali við mbl.is ekki útiloka samstarf til hægri. Áður hefur komið fram að Viðreisn, Píratar og Samfylking muni fylgjast að í viðræðum um myndun nýs meirihluta næstu daga.
Segist Þórdís hafa unnið með Sjálfstæðisflokknum að ýmsum málum á undanförnu kjörtímabili, þó það hafi ekki verið áberandi í fjölmiðlum.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Fréttablaðið að sér finnist ótrúverðugt ef Framsókn myndi meirihluta með flokkum sem voru í gamla meirihlutanum.
„Nei, ég myndi ekki segja að ég hafi misst af lestinni, ekki miðað við óformleg samtöl sem ég hef átt við oddvita annarra flokka,“ segir Hildur.