„Það er mikil­vægt að Seðla­bankinn sé upp­lýstur um það að við munum sækja hverja einustu krónu sem þeir leggja á heimilin, í formi hærri vaxta, í næstu kjara­samningum,“ segir Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, á Face­book-síðu sinni.

Ragnar deilir þar grein sem hann og Vil­hjálmur Birgis­son, for­maður Verka­lýðs­fé­lags Akra­ness, skrifuðu og birtist á vef Vísis í há­deginu.

Í greininni er bent á að við gerð síðustu kjara­samninga hafi verið litið til þess að samningar hefðu í för með sér lækkun vaxta. Því hafi verið samið með hóf­stilltari hætti til að leggja grunn að því að auka ráð­stöfunar­tekjur launa­fólks með fleiri þáttum en beinum launa­hækkunum.

Ragnar og Vil­hjálmur nefna að Seðla­bankinn hafi nú í þrí­gang hækkað stýri­vexti og Lands­bankinn spái enn frekari hækkun. Þannig verði þeir komnir í 4,25% árið 2023, eða á sama stað og þeir voru við gerð Lífs­kjara­samningsins vorið 2019.

„Við munum ekki sætta okkur við að aukin verð­bólga vegna að­gerðar­leysis stjórn­málanna, og Seðla­bankans, í hús­næðis­málum eða ytri á­hrifa vegna er­lendra hækkana verði settar á herðar okkar fé­lags­manna með hærri vöxtum,“ segir í grein þeirra.

Þá segir enn fremur:

„Sama má segja um hið opin­bera, bankana, trygginga­fé­lögin og fyrir­tæki í þjónustu og verslun sem hafa hækkað verð til neyt­enda langt um­fram það sem eðli­legt getur talist, skert þjónustu og skilað met af­komu. Við munum sækja hverja einustu krónu sem þið takið af fólkinu okkar í næstu kjara­samningum.“