Ragnar Þór Ingólfs­son for­maður VR var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann segir nauð­syn­legt að ríkis­stjórnin grípi til að­gerða gagn­vart yfir­vofandi verð­lags­hækkunum og að verka­lýðs­hreyfingin muni sækja í sig veðrið í komandi kjara­við­ræðum.

Ragnar segir mikil­vægt að ríkis­stjórnin ljúki við­ræðum sínum sem fyrst enda sé brýn þörf á að­gerðum: „Ríkis­stjórnin verður að fara klára þessa verka­skiptingu svo við getum farið að bregðast við ef ekki á illa að fara. Ef verð­lagið hækkar þá skilar það sér út í verð­bólguna og þá hækka lán hjá þeim sem eru með verð­tryggð lán og þá hækkar leigan hjá þeim sem eru með leigu­samninga.“

Ragnar segir komandi vetur verða erfiðan ef ekkert verður að gert: „Við þurfum að­gerðir til þess að stemma stigu við verð­lags­hækkunum sem eru yfir­vofandi, þá aðal­lega út af hrá­vöru­verðs­hækkunum og sömu­leiðis þessum brestum sem hafa orðið í virðis­keðjunni […] Hún er í svo­litlu rugli núna og við vitum ekki hvað tekur langan tíma að vinda ofan af þessu.“

Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra sagði í sam­tali við Vísi fyrir skömmu að honum þætti ekki til­efni til að grípa til neinna að­gerða í þessum máli eins og staðan væri í dag.

Ragnar segir Bjarna vera van­meta stöðuna: „Það sér það hver maður að hjón sem hafa verið að greiða húsa­leigu upp á 280.000 krónur á mánuði fyrir þriggja her­bergja íbúð, fyrir kannski ein­hverjum 18 mánuðum síðan og leigan er að detta í 306.000 krónur í dag, bara út af verð­bólgu og öðrum þáttum. Þetta eru 26.000 krónur sem við þurfum að semja um að nánast tvö­falda þetta í launa­hækkun til að standa undir þessari hækkun, og þetta er bara húsa­leiga,“ segir Ragnar.

Hann heldur á­fram: „Þegar við erum komin með aðrar verð­lags­hækkanir inn þá hljóta allir að sjá að við í verka­lýðs­hreyfingunni sitjum ekki þegjandi og hljóða­laus á hliðar­línunni og látum þetta bara ganga yfir okkar fé­lags­menn með til­heyrandi kaup­máttarrýrnun. Sömu­leiðis ef Seðla­bankinn ætlar að halda á­fram að hækka stýri­vexti,“ segir Ragnar.

Hann fer hörðum orðum um Bjarna Bene­dikts­son og segir verka­lýðs­hreyfinguna standa fast á sínu: „Við munum sækja hverja einustu krónu í næstu kjara­samningum. Og ef að fjár­mála­ráð­herra tekur ekki þá stöðu al­var­lega þá ætti hann að finna sér eitt­hvað annað að gera.“

Ragnari þykir vont hve langan tíma tekur að mynda ríkis­stjórn: „Það er ó­trú­legt að það skuli taka svona langan tíma að mynda ríkis­stjórn vegna þess að manni finnst svona eins og landið sé pínu­líitð að brenna á meðan fólk er ein­hvers staðar inni að skipta með sér verk­efnum.“