Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra kynnti í dag að­gerðir stjórn­valda þegar kemur að landa­mæra­skimun en helstu breytingarnar eru þær að allir sem koma til landsins þurfi að fara í tvær sýna­tökur og vera í sótt­kví á meðan beðið er eftir niður­stöðum úr seinni sýna­tökunni.

Auk Katrínar voru Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra, Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, á fundinum þar sem næstu skref voru rædd.

Mikil áhersla var lögð á að aðgerðirnar kæmu ekki í stað einstaklingsbundna smitvarna og sóttvarnaráðstafanna.

Byggt á trausti

Að­spurð um hvernig hægt verður að tryggja það að fólk virði reglur um sótt­kví og mæti í seinni sýna­töku sagði Katrín að frá upp­hafi hafi að­gerðirnar verið byggð á trausti og að af þeim sem þurftu að mæta í aðra sýna­töku hafi flestir gert það.

„Við munum á­fram byggja okkar að­gerðir á trausti og ef ég á að nefna eitt­hvað eitt sem ég er stolt af varðandi það hvernig Ís­land hefur tekist á við þennan far­aldur þá er það hvernig við höfum byggt okkar árangur á þeirri sam­stöðu og trausti á fólki í sam­fé­laginu,“ sagði Katrín.

Kostnaður eins og áður

„Eins og komið hefur fram er þetta unnið í góðu sam­starfi sýkla- og veiru­fræði­deildarinnar, Ís­lenskrar erfða­greiningar og síðan heilsu­gæslu­stöðva um land allt,“ sagði Katrín á fundinum að­spurð um hvort hægt væri að anna eftir­spurn á sýna­tökum.

Að sögn Katrínar verður á­fram tekið gjald fyrir fyrri skimunina og miðað verður því við sama fyrir­komu­lag og áður þar sem hið opin­bera hefur lagt út fyrir stofn­kostnaði fyrir skimunina. Líkt og með þá sem þurftu að við­hafa heim­komu­smit­gátt verður ekki rukkað fyrir seinni sýna­tökuna á heilsu­gæslu­stöðvum.

Í stöðugri endurskoðun

Að svo stöddu liggur ekki fyrir hversu lengi að­gerðirnar verða í gildi en tak­markanirnar verða endur­skoðaðar reglu­lega. Ef far­aldurinn þróast með þeim hætti að hann verði á niður­leið, til að mynda í ná­granna­löndum, verði hægt að endur­skoða fyrir­komu­lagið.

„Það liggur auð­vitað fyrir þessi heims­far­aldur er að hafa gríðar­leg efna­hags­leg á­hrif, ekki bara á Ís­lendinga og okkur hér á Ís­landi, heldur öll löndin í kringum okkur,“ sagði Katrín og bætti við að þar sem Ís­land væri á leið á rauðan lista hjá ýmsum löndum hafi það enn frekari á­hrif.

Hún sagðist þó hafa trú á að­gerðunum og það sé já­kvætt að sjá hverju það hefur skilað að geta haldið sam­fé­laginu gangandi með á­hrifa­ríkari hætti en önnur lönd. „Við teljum að það verði okkur á­kveðið elds­neyti inn í það að takast á við stöðu efna­hags­mála fram undan.“