„Það hefur komið mér þónokkuð skemmtilega á óvart hvað það hefur verið mikil umfjöllun í kjölfar þess að ég birti þennan pistil á sunnudaginn,“ segir Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur, um umræðuna sem farið hefur af stað í kjölfar pistils sem sem hann birti fyrir nokkru.

Í pistli sínum hvetur hann Íslendinga til þess að velta fyrir sér stöðu öryggis- og varnarmála hér á landi og hvort hér ætti að vera föst viðvera varnarliðs.

„Flestir ef ekki allir fjölmiðlar hafa tekið þetta upp. Sérfræðingar hafa verið að ræða þetta og stjórnmálamenn líka,“ bætir Baldur við.

Innlegg Baldurs hefur vakið mikla athygli og viðbrögðin hafa ekki látið standa á sér standa. Sitt sýnist hverjum af kommentakerfunum að dæma, þar sem margir hafa tekið til máls og ýmist lýst sig fylgjandi þessum hugmyndum Baldurs eða gagnrýnt þær harðlega.

„Núna bara síðast sá ég að þingmenn Viðreisnar eru komnir fram með þingsályktunartillögu um íslensk varnarmál í víðu samhengi, en ein af tillögunum í þingsályktuninni er að skoða gaumgæfilega hvort þörf sé á varnarliði hér á öryggissvæðinu á Keflavík.“

Umræðan verið betri en við var að búast

Spurður út í hörðu viðbrögðin sem greina má í umræðunni á facebook og kommentakerfum fréttamiðla á borð við Hringbraut, sem nýverið birti frétt uppúr viðtali Baldurs í hlaðvarpi Harmageddon svarar Baldur, „Þessi einstöku skot sem hafa komið á þessar færslur mínar frá þeim sem hafa alla tíð verið andvígir aðild Íslands að NATO og varnarsamstarfi við Bandaríkin. Ég átti alveg von á því.“ Þvert á móti þykir honum hafa borið minna á ómálefnalegum skotum og meira af góðri umræðu um þetta, sem hann segir að sé góðs viti.

Þegar sjónum er beint að umræðuhefðinni, sem Baldur segir í pistli sínum að hafi hingað til einkennst af vissri þögn og undanfærslu, tekur Baldur eftir því að þó svo enn eimi eftir af þeim sjónarmiðum, að við þurfum ekki svo mikið að ræða varnar- og öryggismál, hafi hann orðið þess var að landsmenn virðast móttækilegri fyrir umræðunni en áður.

„Markmiðið með pistlinum hafi verið að vekja athygli á mikilvægi þess að Íslendingar fari inn í þessa umræðu, sem hefur ekki verið að eiga sér stað hér á landi, en hefur verið að eiga sér stað á hinum norðurlöndunum undanfarna mánuði. Þá segir hann að. það sé ánægjulegt að sjá að það hefur orðið raunin þessa vikuna.“

Varnarstefnan hafi fælingarmátt

Baldur tekur þó fram í samtali við Fréttablaðið: „Ég er ekki að spá því af innrás verði. Eigi að síður þá vitum ekki hvort stríðið í Úkraínu muni vinda upp á sig. Það getur alveg undið upp á sig á næstu mánuðum og við verðum að undirbúa okkur undir það að það geti orðið, þó að sjálfsögðu við vonum að það verði ekki.“

Í því samhengi telur Baldur að varnarstefna sem byggist á fælingu sé besta leiðin til friðar því þá komi ekki til stríðsátaka. Hann telur vesturveldin hafi gleymt sér í gleðinni yfir falli Sovétríkjanna og sömuleiðis gleymt þessu grundvallar atriði sem felst í þessum fælingarmætti. Baldur vill snúa varnarstefnunni þannig að fælingarstefnan sé aftur gerð miðlæg.

Baldur bendir á að Ísland sé eina bandalagsríkið í NATO sem skortir „þriðju stoðina“ sinni varnarstefnu, sem sé lítið herlið. Hinar tvær séu Atlantshafsbandalagið og varnarsamningur við Bandaríkin. „Við megum ekki verða veikasti hlekkurinn í NATO ef til átaka kemur.“ Segir Baldur og bendir á að staðan sé nú sé uppi sé þess eðlis það sé beinlínis hættulegt að taka ekki skýra afstöðu í þessum málum:

„Við getum ekki lengur verið svona naive í garð þess sem Pútín segir, þegar hann lýsir því yfir núna að Rússland eigi að ná yfir það landsvæði sem tilheyrði gamla keisaradæminu. Þar á meðal eru Finnland, Eystrasaltsríkin og Pólland. Við verðum að taka þetta alvarlega.“

Aðspurður hvort einhver fordæmi séu fyrir því að gerð hafi verið takmarkaðar innrásir í lítil óvarin smáríki eins og hann lýsir í pistli sínum nefnir Baldur á dæmi frá tímum kalda stríðsins, „þegar Sovétríkin fóru með herafla inn í þau ríki sem þau töldu vera á sínu áhrifasvæði. Eins og þegar þau fóru inn í Tékkóslóvakíu 1968, Ungverjaland 1956 og við höfum líka mörg dæmi um það að Bandaríkin skiptu sér að innanlandsmálum, með öryggissveitum og herafla, í Mið- og Suður-Ameríku.“

„Sem betur fer vegna fælingarstefnunnar sem bæði stórveldin viðhöfðu á tímum kalda stríðsins þá réðust þau aldrei hvert á annað. Sovétríkin réðust ekki inn í lítil ríki vinveitt NATO eða meðlimi í NATO og Bandríkin réðust aldrei inn í lítil ríki í kringum Sovétríkin, sem þau töldu vera á sínu áhrifasvæði.“

„Svo vil ég minna á að það má ekki heldur gleyma hryðjuverkaógninni.“

Annað sem Baldur telur mikilvægt að hafa í huga í þessu samhengi er að hernaður hefur gjörbreyst frá tímum kalda stríðsins.

„Beinar allsherjainnrásir ríkis í annað ríki eru sjaldséðar. Það sé algengara að ríki beiti sér á bak við tjöldin í afmörkuðum, litlum árásum á annað ríki til að ná markmiðum sínum. Þannig gegna málaliðar vaxandi hlutverki í hernaði ríkja nú til dags. Ég sé varnarlið fyrir mér ekki síst til að bregðast við þannig árásum.“

„Svo vil ég minna á að það má ekki heldur gleyma hryðjuverkaógninni, það eru oft ríki sem standa á bak við þær. Hryðjuverkaárás, getur verið með þeim hætti að það þurfi að takast á við hana með varnarliði. Ógnin sem stafar af þessum litlu takmörkuðu árásum, sem einkenna nútíma hernað.“

Þetta hafi ekki komið nægilega vel fram í umræðunum að mati Baldurs.

Að lokum áréttar Baldur að hann hafi ekki átt við að Íslendingar ættu að manna þessi varnarlið:

„Ég hef einmitt ekki verið að tala fyrir því að Íslendinga eigi sjálfir að setja upp varnarsveitir. Ég hef verið að tala fyrir því að við göngum til viðræðna við okkar bandalagsríki um að þeir hafi litlar varnarsveitir hér á landi.“