Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, lauk rétt í þessu ávarpi sínu fyrir Alþingi Íslendinga. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, tók fyrstur til máls og byrjaði á að bjóða alla velkomna á þennan einstaka viðburð. Hann sagði Íslendinga og þingmenn hafa fylgst með styrknum í Úkraínumönnum og sagði Alþingi fordæma harðlega framgang Rússa.
Birgir sagði síðan við Selenskí að Íslendingar deila sameiginlegum gildum með Úkraínumönnum um lýðræði og mannréttindi áður en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók til máls
Guðni sendi samstöðu og stuðningskveðjur til úkraínsku þjóðarinnar á þessum „dimmu tímum.“
„Við dáumst að styrk ykkar og þjóðaranda andspænis ofbeldi hins rússneska innrásarhers. Ég hef hitt landa þína hér á Íslandi sem hafa þurft að flýja heimkynni sín og komist alla leið til Íslands. Þau eru velkominn hingað og eiga hér griðastað eins lengi og þau þurfa,“ sagði Guðni.
Guðni lauk ræðu sinni á úkraínsku og sagði: „ Við stöndum með öllum þeim sem leita friðar, við stöndum með þeim sem þurfa að verjast ofbeldi og við stöndum með þeim sem vilja búa í frjálsu lýðræðislegu samfélagi.“

„Þetta er mikill heiður fyrir mig að fá mæla hér á Alþingi“
Selenskí hóf ræðu sína á góðri íslensku og sagði „góðan daginn." Hann sagðist þakklátur fyrir tækifærið að fá tala fyrir framan Alþingi Íslendinga sem hann sagði það endurspegla hinn frjálsa heim.
„Þetta er mikill heiður fyrir mig að fá mæla hér á Alþingi sem endurspeglar hinn frjálsa heim,“ sagði Selenski. „Við erum mjög tengd í menningarlegu tilliti og höfum verið það í yfir þúsund ár,“ bætti hann við.
Stærð þjóða skiptir ekki máli heldur framlag hvers og eins
Selenskí sagði að það væri ýmislegt sem tengdi Ísland og Úkraínu en nú væri Úkraína þolandi árása frá Rússum. „Þeir vilja ná landi okkar og segja að Úkraína eigi ekki neinn rétt til sjálfstæðis,“ sagði Selenskí.
„Við horfum kannski ekki á sömu ógnir og þið, með eldgos og jarðskjálfta, en við lítum á ykkur sem nágranna,“ sagði Selenskí og bætti við að verið væri að berjast fyrir grundvallar mannréttindum í stríðinu í Úkraínu.
Hann sagðist þakklátur fyrir að Íslendingar tóku þótt í efnahagsaðgerðum gegn Rússlandi. „Ég hvet ykkur eindregið til að halda þessari aðstoð áfram og setja þrýsting á Rússland. Enginn viðskipti við einræðið,“ sagði Selenskí og bætti við að öll lönd ættu að hætta að kaupa rússneska olíu.
„Það skiptir ekki máli hvort þjóðin er stór eða lítil heldur skiptir framlag hvers og eins máli,“ sagði Selenskí.
Hann sagði að fram undan væri mikil enduruppbygging í Úkraínu og sagði að reynsla Íslendinga í orkumálum gæti reynst vel á því sviði.
„En fyrst verðum við að vinna þetta stríð,“ sagði Selenskí að lokum.
