Ekki verður gripið til hertra aðgerða innanlands, fólk sem kemur til Íslands mun þurfa að skila neikvæðu Covid-prófi við komuna til landsins. Þær breytingar taka gildi eftir viku, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir í samtali við Fréttablaðið að ríkisstjórnin líti á þetta sem mildar aðgerðir til að draga úr áhættunni.

„Heilbrigðisráðherra er ekki á þessum fundi. Ég lagði fram, fyrir hennar hönd, minnisblað um breytingar á landamærum. Þær taka gildi eftir viku, því þær kalla á undirbúning. Þær gera ráð fyrir því að þeir sem að hingað koma og eru bólusett þurfa að framvísa neikvæðu prófi vegna Covid. Annað hvort PCR-prófi eða Antigen, sem er hraðpróf,“ segir Katrín.

„Enn fremur verður mælst til þess, það verður ekki skylda, að þeir sem eru með tengslanet hér á landi, þau fari í skimun innan sólarhrings frá komu til landsins. Hugsunin er þá að draga úr áhættunni. Við erum sem betur fer ekki að sjá alvarleg veikindi, en við erum að sjá töluverða fjölgun smita hjá bólusettum. Við lítum á að þetta séu mildar ráðstafanir.“

Ekki í fullu samræmi við minnisblað

Katrín segir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé ekki í fullu samræmi við minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis. „Ekki alveg, að því leytinu til að krafan um PCR eða hraðpróf er í fullu samræmi við tillögur sóttvarnarlæknis, svo leggur heilbrigðisráðherra það til að það séu almenn tilmæli til þeirra sem eru búsettir hér á landi að mæta í skimun innan 24 tíma, sóttvarnarlæknir leggur til að það sé skylda en þá erum við farin að ganga á jafnræðisregluna,“ segir hún.

„Mér finnst þetta skynsamlegar aðgerðir því að fyrst núna erum við að öðlast reynsluna af bólusetningum. Við erum að sjá fjölgun smita, við erum ekki að sjá alvarleg veikindi. Ég tel að þessar aðgerðir séu mjög mildilegar. Ég held líka að þessar smittölur gefi tilefni til aðgerða, það er hluti þjóðarinnar sem er ekki bólusettur og bóluefnin veita ekki fullkomna vörn.“

Ekki farin að sjá alvarleg veikindi

Var samstaða um aðgerðirnar innan ríkisstjórnarinnar?

„Það eru ýmsar spurningar sem vakna við ríkisstjórnarborðið. Þetta er niðurstaðan. Og þetta tekur gildi eftir viku. Það hefur verið mjög skýr sýn hjá ríkisstjórninni að forgangsraða aðgerðum að landamærunum þannig að lífið hérna innanlands geit gengið sinn vanagang.“

Teljið þið að það stafi einhver hætta af kórónuveirunni fyrir þá sem eru bólusetttir?

„Það er nú það. Þrátt fyrir að við séum búin að standa í þessu síðustu sextán mánuði þá höfum við ekki öll svörin. Við höfum lagt okkur fram við að hlusta á vísindamenn, við gerum ekki neina breytingu þar á. Við erum ekki farin að sjá alvarleg veikindi, við heyrum hins vegar fréttir frá Ísrael, sem er mjög framarlega í bólusetningu og hafa verið með litlar ráðstafanir, þar eru dæmi um alvarleg veikindi.“