Hörður Hákon Jónsson er einn fárra á Íslandi í skaðaminnkandi skömmtunarmeðferð vegna morfínfíknar. Hann vill að meðferðin verði gerð fleirum aðgengileg. Hann segir fordóma of mikla og að veikt fólk sé gert að glæpamönnum. Hákon eins og hann er oftast kallaður opnar sig í von um skilning og fleiri úrræði.

„Það er best fyrir mig að fá bara lyf fyrir hvern dag og þannig eru reglurnar í þessari meðferð, annars myndi þetta enda í rugli hjá mér og ég væri búinn með lyfin eftir nokkra daga,“ segir hann og hlær.

Er skammturinn alltaf sá sami, skiptir það ekki líka máli?

„Jú, það minnkar líkurnar á að þú farir þér að voða, ofskammtir eða deyir, vegna þess að fólk er þá ekki að nota önnur morfínlyf með lyfjunum sem það er að fá. Það er öruggast að fá alltaf sömu skammtastærðina. Þannig er fólk bara að rétta sig af til að geta fúnkerað og verið í jafnvægi.“

Í tengslum við þetta minnist Hákon á afglæpavæðingu neysluskammta sem einnig er honum mikið hjartans mál, og sérstaklega fyrir þau sem ekki hafa komist í þessa meðferð.

„Það er verið að gera okkur að glæpamönnum, ofan á allt hitt. Það hefur litað allt okkur líf, við höfum setið í fangelsum og verið brennimerkt. Þetta er endalaus hringekja og þetta er ekki hjálplegt fyrir neinn,“ segir hann og heldur áfram;

„Fólk er stundum búið selja sál og líkama fyrir skammtinn sinn. Lögreglan veit ekki hvað er í gangi innra með manneskjunum og það getur verið mjög hættulegt að taka neysluskammta af fólki. Það getur orðið mjög veikt og setur það í mikla neyð.“