Auglýsing Íslandsstofu, Icelandverse, hefur farið sem eldur í sinu á samfélagsmiðlum um helgina en hún hefur náð til 9 milljón manns á samfélagsmiðlum á fjórum dögum síðan.

Auglýsingin er eins konar skrum­skæling á kynningar­mynd­bandi Mark Zuckerbergs, stofnanda Facebook, sem sýnt var á dögunum, en þá til­kynnti hann að Facebook hefði breytt um nafn og héti nú Meta.

Um leið kynnti fyrir­tækið nýjan sýndar­veru­leika­heim, Metaverse, sem fyrir­tækið bindur tals­verðar vonir við. Í aug­lýsingu Ís­lands­stofu segir Jörundur, eða Zack Mossbergsson, að ekki sé þörf á neinum sýndar­veru­leika til að sjá stór­brotna náttúru Ís­lands.

Samkvæmt Íslandsstofu er búið að horfa á Icelandverse myndbandið 5,5 milljón sinnum án kostana. Þá hefur það fengið yfir 60.000 viðbrögð á samfélagsmiðlum.

Ís­lands­­stofa hefur áður hitt naglann á höfuðið í markaðs­her­­ferðum sínum eins og Let it Out en Daði Guð­jóns­­son, fag­­stjóri neyt­enda­­markaðs­­setningar hjá Ís­lands­­stofu, segir það ekkert í sam­ræmi við þetta.

„Við höfum aldrei séð svona miðað við að við bjuggum til eitt mynd­band og hentum því út. Við vorum með á­­kveðna taktík auð­vitað en þetta tók því­­líku flugi núna um helgina,“ segir Daði.

Aug­lýsingin hefur einnig fengið um­fjöllun í stærstu miðlum heims á markaðs­svæðum Ís­lands­stofu en miðlar eins og For­bes, The Wall Street Journal, Mail on­line, CNBC, NY Post, The In­dependent, Sky News og Der Spi­egl hafa allir fjallað um aug­lýsinguna og efnis­tök hennar.

Daði segir Ís­lands­stofu vera að taka saman á­hrif slíkrar um­fjöllunar en miðlarnir ná til margra milljóna les­enda.

Hugmynd varð að veruleika á einni viku

Mynd­bandið fór á flug af sjálfs­dáðum enda gátu á­horf­endur ekki hamið sig yfir gríninu. Daði segir Ís­lands­stofu hafa gert afar lítið til að ýta því að stað.

„Við kostuðum eitt­hvað á Face­book því okkur fannst það svo fyndið en á Twitter þar sem aðal­flugið var, það var bara náttúru­legt,“ Daði og bætir við að allt framleiðsluferlið tók ekki nema viku.

„Það kom hug­mynd. Hand­rita­gerðin var einn dagur, Jörundur fenginn til leiks og svo bara skotið í Bláa lóninu. Hann var náttúru­lega bestur í þetta hlut­verk. Ég get ekki í­myndað mér neinn annan í þessu hlut­verki eftir að hafa séð þetta mynd­band. Svo var þetta bara klippt og beint á netið,“ segir Daði.

Jörundur Ragnarsson í hlutverki Zack Mossbergsson
Ljósmynd/skjáskot