Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar segir að ef krapaflóðið hefði fallið tveimur tímum fyrr í morgun hefði farið miklu verr.
Krapaflóðið féll um klukkan tíu í morgun. Engan sakaði en almannavarnir lýstu yfir hættustigi sem nú hefur verið aflýst.
„Íbúar eru enn í töluverðu áfalli. Við viljum vera örugg á heimilunum okkar og staðan er þannig í gilunum og fjöllunum núna að það er lítill snjór eftir,“ segir Þórdís og að þess vegna hafi hættustiginu verið aflýst.
Þegar Fréttablaðið náði tali af henni seinni partinn var hún á leið til Rauða krossins en þar hafði fólki verið boðið að leita sér áfallahjálpar en flóðið féll á sama stað og mannskætt flóð féll fyrir 40 árum. Þá létust sex.
„Þetta er bara við ráðhúsið og við heyrðum í flóðinu koma niður,“ segir Þórdís en flóðið féll við hlið árfarvegar.
„Þetta kemur úr gilinu í raun og þetta snjór sem hefur verið fastur þarna. Við bjuggumst aldrei við þessu á húsin en ef þetta hefði verið stærra flóð, og ef það hefði verið meiri snjór í fjallinu, þá hefði þetta getað verið mun verra. Og ef þetta hefði verið um áttaleytið hefði þetta verið mun hættulegra, þá eru krakkar á leið í skóla og fólk á leið til vinnu,“ segir Þórdís.
Fleiri flóð sem féllu í dag
Gul viðvörun er á svæðinu á morgun, eins og nær öllu landinu, en Þórdís segist ekki hafa áhyggjur af því að það sama gerist aftur. Svo lítill snjór sé í fjallinu núna en að það séu aðrir staðir sem valdi henni áhyggjum
„Það er hlíð sem við keyrum héðan frá Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, sem við þurfum að keyra á leiðinni suður, eða hvert sem er út á svæðinu og þar féll stórt snjóflóð,“ segir Þórdís og á við Raknadalshlíð en þar falla reglulega snjóflóð.
Hér að neðan má sjá fleiri myndir sem voru teknar í dag af viðbragðsaðilum við störf.





