Jean-Pi­er­re Thebault, sendi­herra Frakk­lands í Ástralíu, sagðist vera leiður en líka reiður á flug­vellinum í S­yd­n­ey í gær­kvöldi þar sem hann var að fara að yfir­gefa landið vegna vopna­samninga Ástrala við Banda­ríkin og Breta.

Frakkar kölluðu sendi­herra sína heim í Ástralíu og Banda­ríkjunum eftir að Ástralir til­kynntu þeim að þeir hefðu hætt við viða­mikinn kaup­samning á kaf­bátum. Þess í stað ætla Ástralir að kaupa kjarn­orku­knúna kaf­báta af Banda­ríkja­mönnum og er um að ræða við­brögð gagn­vart hreyfingum Kín­verja á Kyrra­hafinu, að því er segir í Guar­dian.

Þar að auki ætla Ástralir í AUKUS, nýtt varnar­banda­lag með Banda­ríkja­mönnum og Bretum. Þangað er Frökkum ekki boðið.Þá eru bandarísku kaf­bátarnir tölu­vert öflugri heldur en þeir dísel knúnu kaf­bátar sem Frakkar hugðust selja Áströlum.

Segir Guar­dian að Joe Biden og Banda­ríkja­menn hafi ekki getað hugsað sér Ástrali með slíka tækni, þar sem Kín­verjar hefðu átt tölu­vert auð­veldara með að verða varir við hina tölu­vert hæg­farari frönsku kaf­báta. Frakkar eru hins­vegar gríðar­lega sárir.

„Ég hef séð hversu mikil­vægt það er Áströlum að standa saman. Það sem gerir mig sorg­mæddan er það að ég hélt að við værum vinir og við vorum stungnir í bakið,“ sagði sár­svekktur Thebault á flug­vellinum í S­yd­n­ey í gær­kvöldi.

Hann full­yrðir að Ástralir hafi ekki varað Frakka við slitin á kaup­samningunum, sem hljóðaði upp á 90 milljarða Banda­ríkja­dollara um kaup á tólf dísel knúnum kaf­bátum. Ástralir segjast hins­vegar hafa verið kurteisir í sam­skiptum sínum við Frakka. Thebault telur það af og frá.

„Þetta er eins og að vera í ástarsam­bandi, þegar þú ert lofaður. Eftir það hefurðu skyldum að gegna og skyldan er heiðar­leiki og gegn­sæi. Ef, af ein­hverri á­stæðu, þú vilt skipta um skoðun, þá verðuru að segja það, þú flýrð ekki af hólmi.“

Horfa má á og hlusta á viðtal við sendiherrann þar sem hann ræðir málið hér að neðan: