Björn Leví Gunnars­sonar, þing­maður Pírata, Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir for­maður Við­reisnar og Inga Sæ­land for­maður Flokk Fólksins komu saman í við­tals­þættinum Viku­lokin í dag og ræddu þar meðal annars um tengsl frum­varps dóms­mála­ráð­herra um for­virkar rann­sóknar­heimildir lög­reglu og yfir­standandi rann­sókn lög­reglunnar á meintri hryðju­verka­ógn. Þá kom einnig til tals sú hug­mynd að lög­regla byrji að ganga með raf­byssur.

„Það er stórt bil á milli þess að skipu­leggja eitt­hvað og að gera eitt­hvað,“ sagði Björn Leví um rann­sókn hryðju­verka­málsins en hann telur að skoða þurfi or­sakir þess að aukið of­beldi sé að birtast í sam­fé­laginu. „Hver eru við­brögðin, ætlum við í vopna­kapp­hlaup? Hvaðan er þetta að koma? Eigum við ekki að stíga til baka og sjá að við erum komin á stað sem við viljum ekki vera á. Hvaðan er á­rásargirnin að koma? Eru þetta við­brögð gegn vald­stjórninni og þannig af­leiðingar refsi­stefnu? Þar sem verið er að refsa veiku fólki,“ sagði Björn Leví.

Björn Leví Gunnars­sonar, þing­maður Pírata, var gestur í vikulokunum í dag.
Fréttablaðið/Ernir

Sé tengt refsi­stefnu stjórn­valda

Jón Gunnars­son dóms­mála­ráð­herra gaf út ný­verið að ekki ætti lengur að tala um for­virkar rann­sóknar­heimildir heldur frekar um af­brota­varnir. Björn Leví telur að það sem Jón Gunnars­son talar fyrir sé mjög tengt þeirri refsi­stefnu sem rekin er í tengslum við til dæmis fíkni­efna­mál.

„Við getum ekki slitið þessi tvö mál í sundur, það er segja um for­virkar rann­sóknar­heimildir og svo aukinn vopna­burð lög­reglu því hvort tveggja er í frum­varpi dóms­mála­ráð­herra. Þetta er hluti af stærri mynd. Við lög­gjafarnir verðum að taka á­byrgð þar sem við erum aðilinn sem segir hvað er ó­lög­legt að gera“ sagði Björn Leví og hélt á­fram.

„Kannski eigum við bara að spyrja okkur hvort við erum að beita réttu tækjunum til dæmis með því að setja lög sem refsa fíklum. Á lög­reglan að fara í átt að veiku fólki og hand­taka það? Þetta er grund­vallar spurning um það hvar við erum stödd og ég er al­ger­lega á því að við erum að fara í ranga átt,“ sagði hann.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, vill frekar tala um afbrotavarnir.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þor­gerður Katrín var að mörgu leyti sam­mála Birni en hún taldi einnig erfitt væri að greina á milli for­virka rann­sóknar­heimilda lög­reglu og ný­legra hug­mynda um raf­byssu­væðingu lög­reglunnar. „Fjölgun lög­reglu­manna er lykil­at­riði og hafa skýrslur sýnt fram á það. Ef þetta er til­rauna­verk­efni með raf­byssurnar þá gott og vel,“ sagði Þor­gerður Katrín og bætti við „Mér finnst byssurnar sak­lausara skref í raun þar sem við þurfum að fara var­lega með hluti eins og for­virkar rann­sóknar heimildir. Þetta breytir á­sýnd lög­reglunnar og ég hefði viljað sjá áður en til­rauna­skrefið er tekið að þetta væri partur af heildar stefnu­mótun. Ég hefði viljað sjá meiri og betri kynningu á þessu verk­efni,“ sagði Þor­gerður Katrín.

Raf­byssurnar ekki tengdar hryðju­verka­málinu

Grímur Gríms­son sagði á blaða­manna­fundi að til­rauna­verk­efni lög­reglu með raf­byssur væri ekki tengt hryðju­verka­málinu en margir stjórnar­and­stöðuliðar telja að rann­sókn málsins, raf­byssu­væðingin og hinar meintu af­brota­varnir tengist með ein­hverjum hætti.

Inga Sæ­land taldi að stjórnar­and­staðan myndi sam­einast um að breytingar yrðu gerðar á frum­varpi dóms­mála­ráð­herra. „Ég held að þetta eigi eftir að taka þó­nokkuð miklum breytingum í með­ferð þingsins. Það sem mér finnst al­var­legast er þegar lög­reglan er í innra eftir­liti með sjálfri sér. Það gengur hrein­lega ekki upp. Menn eru hleraðir hér hægri vinstri og gildrum er beitt svo fremi sem grunur er um að lög­brot sé að eiga sér stað. Það þarf að stíga var­lega til jarðar í þessum efnum,“ sagði Inga Sæ­land.

Að lokum taldi Björn það mikil­vægt að skoða hvernig lög­reglan beitir valdi sínu við rann­sóknir mála en hann telur að rök­studdur grunur ætti að vera grund­vallar at­riði í vald­beitingu og eftir­liti lög­reglu.

„Fólki er refsað fyrir að hlýða ekki fyrir­mælum lög­reglu. Það ætti að vera rök­studdur grunur áður en heimildir eru veittar fyrir eftir­liti. Lög­reglan þarf ekki að bera neina á­byrgð í þessum málum. 12 ára drengur var dreginn út úr bíl með leik­fanga­byssu í tengslum við rann­sókn hryðju­verka­málsins og fjöl­skyldu­faðir fékk vél­byssu í and­litið fyrir framan börnin sín. Hvernig getur þetta gerst?“ spurði Björn Leví.