Sól­veig Anna Jóns­dóttir segir það ekki koma til greina að af­henda ríkis­sátta­semjara kjör­skrá sam­takanna svo að hann geti fram­kvæmt at­kvæða­greiðslu um miðlunar­til­löguna sem hann lagði fram í gær. Hún segir að sam­kvæmt lögum eigi þau sjálf að fram­kvæma at­kvæða­greiðsluna og segist ekki með réttu geta af­hent svo við­kvæm trúnaðar­gögn sem svo eigi að af­henda til þriðja aðila, Advania, til að fram­kvæma kosninguna. At­kvæða­greiðsla þeirra um boðað verk­fall stendur enn og mun, sam­kvæmt fyrri dag­skrá, ljúka á mánu­dags­kvöldið.

Aðal­steinn Leifs­son, ríkis­sátta­semjari, segir að hann sé að skoða sín næstu skref hvað varðar þetta en hann segir Eflingu standa í vegi fyrir at­kvæða­greiðslunni með því að af­henda ekki kjör­skrána.

Trúnaðargögn sem ekki er hægt að afhenda

„Hann hefur enga heimild til að gera það sem hann er að reyna að gera, að hrifsa til sín kosninguna og af­henda svo hana á­fram og gögnin til Advania. Hér er svo margt ó­ljóst og mörgum spurningum ó­svarað og við getum ekki og ætlum ekki að af­henda kjör­skrána,“ segir Sól­veig Anna Jóns­dóttir í sam­tali við Frétta­blaðið en fé­lagið sendi út yfir­lýsingu þess efnis fyrr í dag.

Hún segist ekkert hafa séð af vinnslu­samningi við Advania og viti ekki hvaða öryggis­ráð­stafanir þau geti gert og bendir á að kjör­skrá þeirra séu mjög við­kvæm gögn. Hún segir öll vinnu­brögð í kringum þetta til há­borinnar skammar.

Spurð hvort hún sjái fyrir sér að fram­kvæma kosninguna sjálf segist hún þó ekki gera það heldur.

Nýr veruleiki í umhverfi verkalýðsfélaga

Efling lýsti yfir van­trausti á ríkis­sátta­semjara í gær og mið­stjórn ASÍ hvatti hann til þess að draga hana til baka í gær. BHM, BSRB og Kennara­sam­band Ís­lands lýstu því svo í dag að miðlunar­til­lagan setti hættu­legt for­dæmi. Spurð hvort hún finni fyrir með­byr segir Sól­veig Anna að það hafi sést æ skýrar eftir því sem dregst á deiluna, jafn­vel áður en miðlunar­til­lagan er lögð fram, að það sé verið að svipta fé­lagið sjálf­stæðum samnings­rétti sínum og að þessi miðlunar­til­laga sé á skjön við allar venjur og hefðir í slíkum samninga­við­ræðum.

„Þá áttar fólk sig á því að nái þetta fram að ganga þá er runnin upp nýr veru­leiki fyrir allt um­hverfi verka­lýðs­fé­laga á þessu landi og ég held og veit að það er veru­leiki sem fólk vill auð­vitað ekki stíga inn í. Þá erum við búin að fallast á það að hægt sé með í­þyngjandi og ó­lýð­ræðis­legum að­gerðum og inn­gripum að svipta fé­lög sjálf­stæðum samnings­um­boði þegar þau eru að gera það sem þau hafa fulla heimild til að gera og eiga að gera, sem er að berjast fyrir bættum réttindum fé­lags­fólks sínum,“ segir Sól­veig Anna.