Svana Kristín Guðbjartsdóttir, móðir hins eins og hálfs árs gamla Theodórs Helga, segist ekki geta vonað annað en að einhverju verði breytt á leikskólalóð Eyrarskjóls á Ísafirði, þar sem sonur hennar er í leikskóla, eftir að trjákurl festist í hálsi hans og sat fast.

Fréttablaðið greindi frá bréfi aðstoðarleikskólastjóra Eyrarskjóls á Ísafirði sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs í gær. „Nú hefur það gerst sem við höfum öll óttast, það er að lítið barn setti trjákurl í munninn og það fór niður í háls barnsins og sat þar fast,“ sagði meðal annars í bréfi Ingibjargar Einarsdóttur til bæjarstjórnar.

„Sem betur fer var kennari sem sá atvikið og brást við, en það gekk ekki að losa kurlið út hálsi barnsins fyrr en það ældi við átökin við að reyna að ná andanum og losa sig við það,“ sagði Ingibjörg jafnframt í bréfi sínu.

Trjákurl í sandkassanum

Svana Kristín segist ekki hafa áttað sig á alvarleika málsins í fyrstu en sonur hennar er átján mánaða og var að leika á sérstakri ungbarnalóð sem ætluð er fyrir 12 til 24 mánaða börn þegar atvikið átti sér stað fyrir rúmum tveimur vikum.

Trjákurlið sem Theodór Helgi setti í munninn er notað sem fallvörn á leikskólalóðinni en aðstoðarskólastjórinn hefur barist fyrir því að losna við það af lóðinni.

Svana Kristín segir trjákurlið vera á allri lóðinni en sonur hennar var í sandkassanum þegar atvikið átti sér stað. „Kurlið er komið út um allt og er í sandkassanum og í öllu grasinu. Það er líka undir hengirúminu notað sem fallvörn en þetta dreifist út um allt líka þannig þetta er ekki bara eitt svæði sem kennararnir þurfa að fylgjast með, þetta er bara alls staðar.“

Ábyrgð sveitarfélagsins

Aðspurð segir Svana Kristín að Theodór Helga líði vel og að atvikið hafi ekki haft neina eftirmála. Hún sé búin að vera í góðu sambandi við leikskólann um hvað þau ætli að aðhafast í málinu.

„Við getum ekki annað en vonað að einhverju verði breytt. Leikskólinn er allavega að reyna sitt besta til að fá einhverju breytt en leikskólastjórarnir hafa ekki lokavald í einhverju svona, því miður. Þetta er ábyrgð sveitarfélagsins að gera þetta,“ segir Svana Kristín og bætir við að búið sé að stúka lóðina af núna vegna málsins. Krakkarnir hafi nú einungis lítinn hellulagðan blett fyrir útiveru.