Þor­valdur Jóhanns­son, fyrrum bæjar­stjóri á Seyðis­firði, var meðal þeirra sem þurfti að yfir­gefa heimili sitt vegna aur­skriðna sem féllu á Seyðis­firði síðast­liðinn desember. Hann er nú kominn aftur heim til sín en rýmingu í hverfi hans var af­létt milli jóla og ný­árs. Að sögn Þor­valds hafa síðustu dagar verið mjög sér­stakir.

Á meðan rýmingunni stóð fóru Þor­valdur og fjöl­skylda hans til Reykja­víkur og dvaldi Þor­valdur þar á hóteli sem átti tengsl við Seyðis­fjörð. „Ég var þar bara í mjög góðu at­læti milli þess sem að ég fór og heim­sótti barna­börnin mín og lang­afa­börnin. Þetta var alveg ó­trú­legt, maður fann alveg hvernig faðmurinn var alls staðar gal­opinn,“ segir Þor­valdur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þorvaldur Jóhannsson, fyrrum bæjarstjóri á Seyðisfirði.
Mynd/Aðsend

Sérstök áramót

Fjöl­skyldan náði síðan að fagna komu nýs árs á Seyðis­firði en Þor­valdur segir að þrátt fyrir allt hafi þau átt mjög sér­stök ára­mót. Á­kveðið var að engum flug­eldum yrði skotið upp heldur myndi fólk safnast saman í kringum lónið sem er mynnið á fjarða­ránni.

„Það var feyki­lega fal­legt veður og við söfnuðumst öll saman niður við lónið með friðar­ljós og kerti, og náðum að halda hönd í hönd allt í kringum lónið,“ segir Þor­valdur. Bæjar­stýra Seyðis­fjarðar, Aðal­heiður Borg­þórs­dóttir, flutti síðan hug­vekju og í kjöl­farið sungu allir saman lagið Ég er kominn heim.

„Þetta var geysi­lega fal­leg stund. Veðrið var líka svo gott, það var stillt og bjart, og fjalla­hringurinn sem hafði ógnað okkur svona veru­lega nokkrum dögum áður, hann virtist vera í óra­fjar­lægð frá okkur akkúrat á þessari stundu,“ minnist Þor­valdur.

Hér fyrir nedám má finna myndband frá gamlárskvöldinu. Myndbandið er eftir Söndru Ólafsdóttur.

Hreinsunar­starf hófst síðan af krafti á ný­árs­dag en mikið verk er fyrir höndum.

Bærinn þekktur fyrir stór og mikil flóð

Fyrstu skriðurnar féllu á bænum þann 15. desember og var ó­vissu­stigi al­manna­varna í kjöl­farið lýst yfir. Þann 18. desember féll síðan stærsta skriðan og var á­kveðið að lýsa yfir neyðar­stigi í bænum. Það var síðan fært niður í hættu­stig sem er nú í gildi á svæðinu en ekki hafa allir í­búar fengið að snúa aftur heim.

Á því tíma­bili sem aur­skriðurnar féllu féll metúr­koma á svæðinu og var upp­söfnuð úr­koma 569 milli­metrar á milli 14. til 18. desember. Að sögn Þor­valds kom það á ó­vart þar sem veðrið hafði verið mjög gott þar áður. „Manni fannst eigin­lega ekkert vera í loftinu sem myndi kalla á að þetta myndi gerast.“

„Það var orðið nokkuð ljóst að ef ekki slotaði rigningunni, að þá gæti eitt­hvað gerst hér í fjalla­hringnum hjá okkur, því að svæðið okkar, Seyðis­fjörður, er nokkuð þekkt fyrir stór og mikil aur­flóð svona í gegnum tíðina,“ segir Þor­valdur en fyrstu flóðin sem féllu voru í Nautaklaufinni, skammt frá húsi hans.

Ótrúlegt hvað allt gekk vel

Hann segir engan hafa órað að skömmu síðar myndi stóra flóðið falla við Búðar­á. „Þá fellur þetta stóra og mikla flóð sem er talið vera bara ein­stakt á Ís­landi í byggð í dag, þetta svo­kallaða ár­þúsunda­flóð, og tekur þarna með sér tíu hús á leiðinni til sjávar,“ segir Þor­valdur. Hann sá ekki sjálfur flóðið en margir aðrir í bænum horfðu á það falla.

„Það voru náttúru­lega skelfi­legar af­leiðingar sem hlutust af því, en ljósi punkturinn í því var að sem betur fer þá fórst enginn í þessum ham­förum hérna hjá okkur,“ segir Þor­valdur. Hann vísar til þess að upp­runa­lega hafi stóra flóðið stefnt á fjögur hús á svæðinu þar sem um 20 manns voru inni en á síðustu stundu skipti flóðið sér þannig að húsin og fólkið björguðust.

Mörg hús urðu skriðunum að bráð en blessunarlega lést enginn í hamförunum.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Í kjöl­far stóra flóðsins hafi verið á­kveðið að rýma bæinn og segir Þor­valdur það hafa verið sögu­lega að­gerð. „Hér voru bara 650 manns og fjöldinn allur af hús­dýrum, hundum og köttum, sem var bara fluttur úr bænum á góðum tveimur klukku­tímum upp til Egils­staða,“ segir hann en rýmingin gekk mjög vel.

„Þá kannski sýndi það hvað sam­taka­máttur, sam­heldni og sam­hugur var alveg ó­skap­lega sterkur í öllu þessu fári,“ segir Þor­valdur enn fremur og bætir við að Seyð­firðingar hafi fengið að­stoð úr öllum áttum. „Það er í rauninni ó­trú­legt hvað þetta gekk allt saman vel.“

Engan bilbug að finna

Þor­valdur segir það vera erfitt að horfa upp á bæinn eftir skriðurnar en þær tóku með sér mikla menningar­arf­leið sem Seyð­firðingar hafa byggt upp. Þá sé beig­ur hjá mörgum að snúa aftur í húsin sín ná­lægt fjalls­hlíðinni en aftur á móti sé engan bil­bug að finna hjá í­búum. „Við gerum ráð fyrir að okkur verði hjálpað að byggja bæinn upp og hlustum ekki á neinar úr­tölur í þeim efnum.“

Þrátt fyrir að flestir hafi verið til­búnir að hjálpa segir Þor­valdur að ýmsar raddir séu nú farnar að heyrast frá fólki sem skilur ekki af hverju menn búa á stöðum eins og Seyðis­firði. Hann biður fólk um að gefa Seið­fyrðingum frið til að vinna úr á­fallinu.

„Hér höfum við kosið að vera og við höfum svo sem þurft að berjast við náttúru­öflin, bæði með snjó­flóðum og aur­skriðum áður, og við höfum alltaf staðið keik á eftir, þó að þetta sé ekki skemmti­legt svona rétt á meðan á því stendur,“ segir Þor­valdur en hann er bjart­sýnn á fram­tíðina.

„Við getum ekkert annað en horft fram á veginn, því að ef við ekki trúum því að við byggjum þennan bæ upp, þá gerir það náttúru­lega enginn,“ segir Þor­valdur. „Við trúum því bara að þessi sam­taka­máttur og þessi faðmur sem að Ís­land bauð okkur í þessum erfið­leikum okkar, að hann standi okkur opinn við upp­bygginguna á­fram. Við trúum því og treystum.“

Enn er hættustig í gildi á Seyðisfirði en hreinsunarstarf fer þar nú fram.
Mynd/Eiríkur Hafdal