Leit að fjall­göngu­mönnunum John Snorra, Mohammad Ali Sadpara, og Juan Pablo Mohr, hefur ekki enn borið árangur en ekkert hefur spurst til þeirra í átta daga. Þeir sáust síðast morguninn 5. febrúar þegar þeir hófu ferð sína að toppi K2, næst hæsta fjalli heims.

Sajid Sadpara, sonur Ali Sadpara, var sá síðasti sem sá mennina en hann stefndi á toppinn með þeim. Hann þurfti þó að snúa við í um 8.200 metra hæð, um 400 metra frá toppinum, vegna súr­efnis­leysis en erfiðasti hluti ferðarinnar í flösku­hálsi fjallsins var þar eftir.

Mögulegt að einhver hafi slasast

Að sögn Sajid sá hann þá komast yfir flösku­hálsinn og er hann því viss um að þeir hafi komist á toppinn en margir telja það hættu­legast að fara niður fjalls­hlíðina. Þeir sem þekkja til Ali Sadpara full­yrða þó að hann myndi ekki gera slík mis­tök.

Þorps­búar í þorpi Ali Sadpara gruna að mögu­lega hafi John Snorri eða JP Mohr, eða þeir báðir, slasast á leiðinni niður og Ali Sadpara orðið eftir til þess að bjarga þeim. Mögulega munu þau aldrei komast að því hvað gerðist.

Ekki búin að gefast upp

Veru­lega ó­lík­legt er að mennirnir séu enn á lifandi en yfir­völd í Pakistan greindu frá því í vikunni að þeir myndu halda leit á­fram næstu 60 daga. Í gær tókst síðan pakistanska hernum að rekja síðustu GPS stað­setningu þeirra og stóð til að leitað yrði á því svæði í dag. Vegna slæmra veðurskilyrða þurfti aftur að móti að hætta við.

Í sam­tali við BBC segir Sajid að það séu litlar líkur á að þeir finnist á lífi þar sem þeir hafa lítið súr­efni og frost getur farið niður í -80 gráður. Hann hefur þó ekki gefist upp fyrir fullt og allt. „Þetta hefur ekki gerst í sögu fjalla­klifurs, þannig við getum að­eins vonast eftir krafta­verki.“

Lína Móey, eigin­kona Johns Snorra, hefur sömu­leiðis tjáð sig um leitina og sagt að litlar líkur séu á því að þeir finnist á lífi en hún heldur þó í vonina.