Yogananda D. Pittman, starfandi lögreglustjóri þinghússins í Washington, D.C., hefur beðist afsökunar á óeirðunum sem brutust út í þinghúsinu þann 6. janúar síðastliðinn. Hún viðurkennir að lögregla hafi vitað að það væri mikil hætta á ofbeldi um daginn en ekki hafi verið gripið til viðeigandi ráðstafana.
Að því er kemur fram í frétt New York Times um málið ræddi Pittman við meðlimi fjárlaganefndar fulltrúadeildarinnar fyrir luktum dyrum fyrr í dag en þar lýsti hún óeirðunum sem hryðjuverkaárás og sagði að lögregla hefði þurft að vera betur undirbúin.
Þar greindi hún frá því að stjórnarnefnd lögreglunnar í þinghúsinu hafi tveimur dögum fyrir óeirðirnar ekki viljað kalla þjóðvarðliða til borgarinnar og síðan tafið útkallið í rúman klukkutíma þegar óeirðirnar brutust út.
Áttu ekki roð í uppreisnarmennina
Pittman var sjálf ekki lögreglustjóri þegar stuðningsmenn Trumps ruddu sér leið inn í þinghúsið en forveri hennar, Steven Sund, sagði af sér eftir óeirðirnar. Engu að síður baðst Pittman afsökunar fyrir hönd lögreglunnar og sagði lögregluna ekki hafa uppfyllt háleitar kröfur sínar, sem og kröfur þingsins.
„Við vissum að það væri mikil hætta á ofbeldi og að þinghúsið væri skotmarkið. [Lögreglan] var undirbúin til að mæta þessum áskorunum en við gerðum ekki nóg,“ sagði Pittman um málið og bætti við að tólf hundruð lögreglumenn hafi ekki átt roð í tugi þúsunda uppreisnarmanna.
READ: Acting US Capitol Police chief Yogananda Pittman's statement to Congress on the January 6 riot https://t.co/TGjWBtTo53
— Jake Tapper (@jaketapper) January 26, 2021
Ákærður til embættismissis í annað sinn
Alls létust fimm manns í óeirðunum við þinghúsið fyrr í mánuðinum og vakti málið mikla reiði meðal Bandaríkjamanna. Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna, var harðlega gagnrýndur vegna málsins en hann hafði fyrr um daginn ávarpað stuðningsmenn sína og hvatt þá til að arka að þinghúsinu til að mótmæla.
Þingmenn Demókrata innan fulltrúadeildarinnar lögðu í kjölfarið fram ákærur á hendur Trump fyrir að hvetja til uppreisnar og þann 13. janúar samþykkti meirihluti deildarinnar að ákæra Trump formlega til embættismissis. Þannig varð Trump fyrsti forseti sögunnar til að vera ákærður tvisvar.
Öldungadeild þingsins á eftir að taka málið fyrir en Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, sendi ákærurnar til öldungadeildarinnar í gær. Réttarhöldin munu síðan hefjast eftir tvær vikur og þurfa tveir þriðju þingmanna að samþykkja ákærurnar ef sakfella á Trump.
Demókratar og Repúblikanar komust að samkomulagi vegna réttarhaldanna fyrir helgi og var þeim frestað svo teymi Trumps fengi meiri tíma til undirbúnings og Biden fengi meiri tíma til þess að ná tilnefningum sínum í embætti gegn.