Yogananda D. Pitt­man, starfandi lög­reglu­stjóri þing­hússins í Was­hington, D.C., hefur beðist af­sökunar á ó­eirðunum sem brutust út í þing­húsinu þann 6. janúar síðast­liðinn. Hún viður­kennir að lög­regla hafi vitað að það væri mikil hætta á of­beldi um daginn en ekki hafi verið gripið til við­eig­andi ráð­stafana.

Að því er kemur fram í frétt New York Times um málið ræddi Pitt­man við með­limi fjár­laga­nefndar full­trúa­deildarinnar fyrir luktum dyrum fyrr í dag en þar lýsti hún ó­eirðunum sem hryðju­verka­á­rás og sagði að lög­regla hefði þurft að vera betur undir­búin.

Þar greindi hún frá því að stjórnar­nefnd lög­reglunnar í þing­húsinu hafi tveimur dögum fyrir ó­eirðirnar ekki viljað kalla þjóð­varð­liða til borgarinnar og síðan tafið út­kallið í rúman klukku­tíma þegar ó­eirðirnar brutust út.

Áttu ekki roð í uppreisnarmennina

Pitt­man var sjálf ekki lög­reglu­stjóri þegar stuðnings­menn Trumps ruddu sér leið inn í þing­húsið en for­veri hennar, Ste­ven Sund, sagði af sér eftir ó­eirðirnar. Engu að síður baðst Pitt­man af­sökunar fyrir hönd lög­reglunnar og sagði lög­regluna ekki hafa upp­fyllt há­leitar kröfur sínar, sem og kröfur þingsins.

„Við vissum að það væri mikil hætta á of­beldi og að þing­húsið væri skot­markið. [Lög­reglan] var undir­búin til að mæta þessum á­skorunum en við gerðum ekki nóg,“ sagði Pitt­man um málið og bætti við að tólf hundruð lög­reglu­menn hafi ekki átt roð í tugi þúsunda upp­reisnar­manna.

Ákærður til embættismissis í annað sinn

Alls létust fimm manns í ó­eirðunum við þing­húsið fyrr í mánuðinum og vakti málið mikla reiði meðal Banda­ríkja­manna. Donald Trump, þá­verandi for­seti Banda­ríkjanna, var harð­lega gagn­rýndur vegna málsins en hann hafði fyrr um daginn á­varpað stuðnings­menn sína og hvatt þá til að arka að þing­húsinu til að mót­mæla.

Þing­menn Demó­krata innan full­trúa­deildarinnar lögðu í kjöl­farið fram á­kærur á hendur Trump fyrir að hvetja til upp­reisnar og þann 13. janúar sam­þykkti meiri­hluti deildarinnar að á­kæra Trump form­lega til em­bættis­missis. Þannig varð Trump fyrsti for­seti sögunnar til að vera á­kærður tvisvar.

Öldunga­deild þingsins á eftir að taka málið fyrir en Nan­cy Pelosi, for­seti full­trúa­deildarinnar, sendi á­kærurnar til öldunga­deildarinnar í gær. Réttar­höldin munu síðan hefjast eftir tvær vikur og þurfa tveir þriðju þing­manna að sam­þykkja á­kærurnar ef sak­fella á Trump.

Demó­kratar og Repúblikanar komust að sam­komu­lagi vegna réttar­haldanna fyrir helgi og var þeim frestað svo teymi Trumps fengi meiri tíma til undir­búnings og Biden fengi meiri tíma til þess að ná til­nefningum sínum í em­bætti gegn.