Birna Dröfn Jónasdóttir
Föstudagur 22. júlí 2022
22.30 GMT

Bjarni Snæbjörnsson hefur slegið í gegn í sýningunni Góðan daginn, faggi sem sýnd hefur verið yfir fjörutíu sinnum í Þjóðleikhúsinu. Sýningin er sjálfsævisögulegur söngleikur sem byggður er á dagbókum og bréfum sem Bjarni skrifaði á unglingsárunum.

„Ég er alinn upp á Tálknafirði og var mikið að skrifast á við pennavini þegar ég var barn og unglingur því það var ekki mikið að gera í þessum litla bæ. Svo hef ég alltaf haft mikla þörf fyrir að tjá mig í gegnum skrif og bréfin og dagbækurnar voru góð leið til að fá útrás fyrir það,“ segir Bjarni, sem eignaðist mikið af pennavinum í gegnum tímaritið Æskuna þar sem krakkar um allt land gátu auglýst eftir slíkum vinum.

„Meðan við vorum í ferlinu að skrifa sýninguna fékk ég fyrir tilviljun sent bréf frá konu sem ég hafði skrifast á við þegar ég var 13 ára. Í því bréfi var afneitun mín svo greinileg og ég í skrifunum að reyna að sannfæra bæði hana og sjálfan mig um að ég væri ekki hommi. Spyrja hana hvort hún ætti kærasta og segja henni að áhugamál mín væru sætar stelpur og svona.“

Dagbækur Bjarna skrifaði hann á hinum ýmsu tímabilum í lífi sínu og segir hann þær hafa sýnt sér hversu stórt sár hann þurfti að græða hjá sjálfum sér. „Sumar síðurnar eru fullar af einhverju sem skiptir engu máli, bara lýsingar á því hvað ég borðaði í morgunmat og hvað ég var að gera en á öðrum stöðum kemur vanlíðanin svo vel í ljós,“ segir Bjarni. „Á einum stað stendur: Ég er hommi og mér finnst það ógeðslegt.“

Bjarni ólst upp á Tálknafirði og skrifaðist mikið á við pennavini þegar hann var ungur. Sýningin Góðan daginn faggi er meðal annars byggð á bréfum Bjarna sem hann segir sýna þá afneitun sem hann var í með kynhneigð sína.
Fréttablaðið/Eyþór

Skortur á hinsegin fyrirmyndum

„Ég þekkti engan sem var hinsegin og hafði engar slíkar fyrirmyndir í mínum uppvexti. Í öllu sjónvarpsefni, bókum og leikritum voru allir gagnkynhneigðir. Ég horfði á Staupastein, Baywatch, The Cosby Show og fleiri og það eina sem blasti við mér var gagnkynhneigt fólk sem lifði mjög hefðbundnu heterónormatívu lífi,“ segir Bjarni.

„Fyrir utan þetta var allt annað í kringum mig, öll mín fjölskylda og allt samfélagið fyrir vestan gagnkynhneigt og ekki gert ráð fyrir neinum öðrum möguleikum en að ég yrði skotinn í stelpum og myndi síðan eignast konu, eins og það væri eina leiðin til að vera gildur samfélagsþegn,“ segir Bjarni.

„Svo var rækilega ætlast til þess að strákar og karlmenn væru á ákveðinn hátt, með ákveðin áhugamál og hæfileika og alls ekki á nokkurn hátt kvenlegir. Svo hægt og rólega innprentaðist í mig sú hugmynd að ég væri einhvers konar villa, og svo umbreyttist það í djúpt sjálfshatur. Mér fannst ég aldrei tilheyra samfélaginu mínu. Og um þetta fjallar sýningin okkar, uppgjör mitt við þennan hluta af mér,“ bætir hann við.


„Hægt og rólega innprentaðist í mig sú hugmynd að ég væri einhvers konar villa.“


Öráreiti

Bjarni segist í gegnum tíðina hafa orðið fyrir miklu öráreiti, sama eigi við um fjölmarga hinsegin einstaklinga. Öráreiti er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum og eiga sinn þátt í jaðarsetningu þess.

„Öráreiti er oftast ómeðvitað og kannski best að lýsa því sem þúsund höfða skrímsli. Það er enginn einn „vondi karl“ sem hægt er að benda á og koma fyrir kattarnef. Þetta er bara kerfisbundið og ómeðvitaður verknaður sem við hinsegin fólk verðum fyrir á hverjum degi. Þegar síendurtekið öráreiti safnast saman á heilli mannsævi þá er algerlega búið að hamra það inn í dýpstu kima undirmeðvitundarinnar að það sé eitthvað að manni,“ útskýrir hann.

„Lykillinn til að komast í gegnum þetta er meðvitund alls samfélagsins um þessi ómeðvituðu gildi sem gera sífellt ráð fyrir að allt fólk sé gagnkynhneigt og sískynja til dæmis.“

Þegar Bjarni var nítján ára sagði hann sínum bestu vinkonum frá því að hann væri hommi. Þremur árum seinna kom hann út fyrir foreldrum sínum og það hélt hann að myndi breyta öllu.

„Mamma og pabbi tóku þessu vel þó að þetta hafi verið mikið sjokk fyrst og ég hélt að þarna væri einhver vendipunktur, að þarna væri þetta bara komið og að ég þyrfti ekki að burðast með þetta lengur. En það var ekki alveg þannig.“

Eftir að Bjarni hafði rætt við foreldra sína flutti hann til Ástralíu. „Þar ætlaði ég bara að lifa draumahommalífinu, ég þekkti engan og ætlaði bara loksins að vera algjörlega ég sjálfur,“ segir hann.

„Þar áttaði ég mig á því að mér leið enn þá svo illa og ég skildi ekkert af hverju. Ég var kominn út og allir vissu þetta núna, af hverju gat ég ekki bara verið stoltur og hamingjusamur? Ég skildi þetta ekki. Ég var með þetta stóra sár sem ég varð að vinna í.“

Bjarni flutti til Ástralíu stuttu eftir að hann kom út fyrir foreldrum sínum. Þar ætlaði hann að lifa „draumahommalífinu,“ en hann áttaði sig þó fljótt á því að hann var með sár á sálinni sem hann þurfti að græða.
Fréttablaðið/Eyþór

Skrifað í gegnum erfiðleikana

Bjarni skrifaði mikið í dagbækurnar þann tíma sem hann var í Ástralíu og þegar hann kom aftur heim en hann flutti aftur til Íslands fyrr en áætlað var þar sem hann fékk slæmt brjósklos.

„Tíminn sem á eftir kom, þegar ég var að jafna mig á brjósklosinu, var mjög erfiður og ég skrifaði mig í gegnum hann með því að halda dagbækur. Svo þegar ég er að fara í gegnum þessar sömu bækur til að búa til sýninguna þá blasir við mér ofboðslega hræddur ungur maður sem fannst hann sjálfur ógeðslegur,“ útskýrir Bjarni.

Upp úr dagbókunum og bréfunum varð til sýningin Góðan daginn, faggi. Þegar Bjarni fór að lesa gömlu bækurnar og bréfin hafði hann samband við vinkonu sína, Grétu Kristínu Ómarsdóttur leikstjóra, og bar undir hana hugmyndina um að gera úr þeim sýningu. „Hún sagði bara strax já!“

Í fyrstu sáu þau fyrir sér sýningu þar sem gleði, skemmtun og æsingur væru við völd en þegar lengra inn í ferlið var komið varð til sýning sem segir frá lífi Bjarna af mikilli einlægni en þrátt fyrir að umfjöllunarefnið sé alvarlegt er sýningin skemmtileg.

„Fyrst sáum við bara fyrir okkur að ég færi í drag og myndi breytast í algera tík sem er með uppistand og söngva. En ferlið leiddi okkur í átt að sársaukanum og við gerum að sjálfsögðu mikið grín að öllu líka. Hláturinn er líka svo heilandi,“ segir Bjarni.

„Og viðbrögðin við sýningunni hafa verið framar okkar björtustu vonum. Það er í raun ólýsanlegt hvernig hinsegin fólk hefur speglað sig í verkinu og fundið nýja fleti á sér og sinni sársaukafullu sögu. Það er stærra en allt. Og þetta hefur líka snert við mörgum öðrum jaðarhópum og frætt fólk sem býr við þau forréttindi að tilheyra engum jaðarhópi.“

Bjarni er lærður söngvari og leikari og hefur leikið í sjónvarpsþáttum, auglýsingum og kvikmyndum ásamt því að starfa mikið í leikhúsi. Til dæmis leikur hann í kvikmyndinni Þrot eftir Heimi Bjarnason, sem nú er í sýningu í kvikmyndahúsum, og svo leikur hann í Jóladagatali RÚV sem verður á skjánum allan desember.


„Þegar ég er að fara í gegnum þessar sömu bækur til að búa til sýninguna þá blasir við mér ofboðslega hræddur ungur maður sem fannst hann sjálfur ógeðslegur.“


Spurður að því hvort hann hafi upplifað það að honum bæri skylda til að nota það svið sem hann hefði til að vekja athygli á málefnum hinsegin fólks segir hann svo vera og að í raun beri öllum skylda til þess. „Það ætti að vera hagur allra að það sé fjallað um alla hópa samfélagsins sem víðast,“ segir Bjarni.

„Öll ættu að geta séð einhvern sem þau geta tengt við í bíómyndum, sjónvarpsþáttum, bókum, leikhúsi og bara hvar sem er. Og það ætti að vera þannig að gerð sé krafa á að fjölbreytileikinn sé alls staðar. Og þetta ætti bara að vera í lögum landsins og fjárlögum. Að hluti af peningunum sem listir og menning fá ætti að tryggja jaðarhópum sýnileika á þeirra eigin forsendum. Það ætti líka að setja kröfu um það að ef það er verið að fjalla um málefni hinsegin fólks þá ætti að vera einhver hinsegin í teymi þess verkefnis,“ bætir Bjarni við.

Bjarni segir allt of algengt að fólk nýti sér hinseginleikann til að „tikka í box“ og líta vel út, slíkt kallast bleikþvottur.
Fréttablaðið/Eyþór

Hinseginleikinn ekki söluvara

„Hinseginleikinn er ekki söluvara fyrir heteró samfélagið til að tikka í box, það er það sem kallast bleikþvottur,“ bendir Bjarni á. Hugtakið bleikþvottur eða pinkwashing lýsir því hvernig þjóðríki, einstaklingar og fyrirtæki nota sér hinsegin fólk og málefni þess til að skapa sér jákvæða ímynd.

„Það er allt of algengt að fólk fjalli um hinseginleikann eða tengi við hann á einhvern hátt til þess að tikka í einhver box, en þetta þarf að vera gert af heilindum,“ segir Bjarni.

„Það er nefnilega ekki nóg að segja eitthvað einu sinni eða kaupa auglýsingu í bæklingi Hinsegin daga eða eitthvað svoleiðis, heldur þarf fólk raunverulega að standa með hinsegin samfélaginu og taka umræðuna hvar sem er, allt árið um kring. Við kaffivélina, í matarboði eða hvar sem fordómar birtast, þó að það skemmi stemninguna,“ segir Bjarni.

„Og ég er ekki að tala um að rífast eða skapa vandræði, bara mæta með kærleikann og samkennd að vopni ef einhver segir eitthvað fordómafullt. Þannig eru sannir bandamenn okkar,“ segir hann.

„Hjá okkur eru nefnilega hinsegin dagar allt árið um kring, við förum ekkert í pásu frá því að vera hinsegin. Það er mjög sárt að sjá stofnanir, fyrirtæki og fólk nota bleikþvott og standa svo ekki við stóru orðin þegar reynir á. Þetta eru oft erfið samtöl en við þurfum að eiga þau á víðum grundvelli í öllum krókum samfélagsins.“

Bjarni segir eðlilegt að geta ekki sett sig í nákvæm spor annarra, mikilvægast sé að hlusta. „Við getum ekki skilið allt sem annað fólk upplifir. Það sem við þurfum að gera er að hlusta á okkur, fólkið sem er að lifa okkar hinsegin lífi. Við vitum alveg hvað þarf að gera til að gera samfélagið að betri stað fyrir okkur öll.“


„Við getum ekki skilið allt sem annað fólk upplifir. Það sem við þurfum að gera er að hlusta á okkur, fólkið sem er að lifa okkar hinsegin lífi.“


Nauðsynlegt að halda baráttunni áfram

Undanfarið hefur verið uppi umræða um bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks víða um heim, til að mynda hafa hinsegin ungmenni hér á landi bent á fordóma og áreiti sem þau hafa orðið fyrir á samfélagsmiðlum. Þá hefur það færst í aukana að ungir karlmenn gelti að hinsegin fólki á götum úti og í síðasta mánuði létust tvær manneskjur og fjöldi fólks slasaðist þegar maður vopnaður byssu skaut á fólk á skemmtistaðnum London Pub í Osló, en staðurinn er vinsæll meðal hinsegin fólks.

Bjarni segir að þrátt fyrir að hér á landi hafi margt áunnist þegar kemur að réttindum hinsegin fólks sé nauðsynlegt að halda baráttunni áfram. „Gleðin og ástin eru okkar baráttutæki og við verðum að halda áfram. Í samfélaginu okkar er, alveg eins og annars staðar, mikið um fordóma og forréttindablindu,“ segir Bjarni.

Hann segir að í kommentakerfum og á samfélagsmiðlum sé þetta mjög greinilegt. Bakslagið sjáist vel til dæmis í Bretlandi þar sem fordómafull umræða um trans fólk sé orðin að pólitísku vopni stjórnmálafólks.

„Svo er til dæmis Sigmundur Davíð sem nýtir sér þessa fordóma til þess að ná inn atkvæðum með stórundarlegum skoðunum sínum á trans málefnum. Þetta getur ekki viðgengist. Það getur verið mjög hættulegt að gera ekki neitt, sitja hjá og láta sig málin ekki varða og fóðra fordómana,“ segir Bjarni.

„Skeytingarleysið er ekki síður hættulegt. Við verðum öll að standa saman sem samfélag og uppræta mismunun og hatursorðræðu því að dæmin sýna að ljót orð geta fljótt orðið að hnefahöggum eða byssuskotum. Það er raunveruleikinn okkar.“

Bjarni flytur lag Hinsegin daga í ár. Texti lagsins er eftir hann sjálfan og Grétu Kristínu Ómarsdóttur og segir Bjarni textann draumsýn sem hann voni að rætist sem fyrst.
Fréttablaðið/Eyþór

Hinseginleikinn ógn við völd

„Hinseginleikinn er fyrir marga ógn við valdakerfið af því að við erum birtingarmynd möguleika, frelsis og þess að skapa sér eigið líf og lifa óafsakandi utan kerfisins sem kennir okkur frá fæðingu hvernig við eigum að vera til,“ segir Bjarni.

„Sú hugmynd að við getum öll verið frjálsari, líka sís heteró fólk, ruggar bátnum fyrir kynjahlutverk og þau kerfi sem við höfum öll sósast í frá blautu barnsbeini, þetta ógnar til dæmis völdum hvítra karla. Þess vegna eru þeir byrjaðir að gelta á okkur,“ segir Bjarni.

„Það er óhugnanleg afturför og grafalvarlegt. Hvers kyns afmennskun hinsegin fólks er skref í áttina að því að réttlæta ofbeldi gagnvart okkur. Í ljósi alls þessa spyr ég bara: Hverjir eru hundarnir: þau sem gelt er á, eða þeir sem gelta? Þess vegna er enn þá mikilvægara að gefast ekki upp og vera sýnileg. Enginn ætti nokkurn tímann að þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum. Við fæðumst öll með sjálfsagðan tilverurétt. Mannréttindi, frelsi og kærleikur eru ekki tæmandi auðlindir. Það er nóg til fyrir okkur öll,“ bætir Bjarni við.


„Sú hugmynd að við getum öll verið frjálsari, líka sís heteró fólk, ruggar bátnum fyrir kynjahlutverk og þau kerfi sem við höfum öll sósast í frá blautu barnsbeini.“


Hinsegin dagar alla daga

Dagana 2. til 7. ágúst fara fram Hinsegin dagar í Reykjavík. Bjarni flytur lag hátíðarinnar sem er eftir Axel Inga Árnason og er endurhljóðblöndun af laginu Næs úr Góðan daginn, faggi. Bjarni segist afar spenntur fyrir hátíðinni.

„Eins og ég sagði áðan þá eru allir dagar hjá okkur hinsegin dagar. En á þessari dásamlegu hátíð okkar erum við sérstaklega sýnileg og fögnum með gleðina að vopni,“ segir hann og vonar að sem flest taki þátt í hátíðinni og sýni stuðning.

„Það ættu bara öll að mæta í gleðigönguna til dæmis. Gera sér glaðan dag, fagna fjölbreytileikanum og sýna stuðning sinn í verki. Koma með börnin sín, vini og fjölskyldu og sýna þeim og sjá sjálf að það eru til fyrirmyndir fyrir öll,“ segir Bjarni en gangan fer fram laugardaginn 6. ágúst og leggur af stað frá Hallgrímskirkju klukkan 14.

Lagið Næs verður frumflutt í BAkaríinu á Bylgjunni á morgun, laugardag, og segir Bjarni að um sannkallaða diskógleði með djúpum skilaboðum sé að ræða. „Þetta er baráttusöngur þar sem við gerum okkur grein fyrir sársaukanum og skömminni sem okkur hefur verið innrætt gegnum hið samfélagslega „norm“ og biðlar til alls fólks um að leyfa öllum að tilheyra, sem er grundvallarþörf mannsins,“ segir hann.

Texti lagsins, sem er eftir Bjarna og Grétu Kristínu, er að sögn Bjarna draumsýn sem hann vonar að rætist sem fyrst. „Það væri rosa næs, ef fengi ég að vera sá sem ég er, og ekkert þyrft’að fela,“ segir til að mynda í laginu. „Þetta þyrfti ekki að vera svona flókið, snýst bara um að setja sig í spor annarra og hlusta á það sem fólk hefur að segja,“ segir Bjarni.

Eflandi að snerta við fólki

Þegar Bjarni fór af stað með Góðan daginn, faggi segist hann ekki hafa getað gert sér góðu móttökurnar í hugarlund. „Þetta hefur verið ævintýralegt og það er ótrúlega eflandi tilfinning að finna það þegar maður snertir við fólki,“ segir Bjarni og stoltið leynir sér ekki.

„Markmið sýningarinnar var að bjóða upp á einhvers konar heilun og viðbrögðin hafa verið ótrúleg, bæði frá hinsegin fólki og straight sís fólki. Fólk hefur talað um það að eftir að hafa séð sýninguna skilji það betur það sem hinsegin fólk sé að upplifa og það er frábær tilfinning.“

Markmið sýningarinnar Góðan daginn faggi var að bjóða upp á einhverskonar heilun. Bjarni segir viðbrögðin við sýningunni hafa verið ótrúleg, bæði frá hinsegin fólki og straight sís fólki.
Fréttablaðið/Eyþór

Þurfum að geta rætt alla hluti

Í vetur stendur til að ferðast með sýninguna víða um land og heimsækja bæði leikhús og grunnskóla. Þá hefur sýningunni einnig verið veittur styrkur bæði frá forsætis- og félagsmálaráðuneytinu til að sýna í framhaldsskólum.

„Þetta er bara alveg frábært og við tökum þessu fagnandi og munum vanda okkur mikið. Eftir hverja skólasýningu verða umræður þar sem börn og ungmenni geta spurt spurninga sem við svörum eftir bestu getu,“ segir Bjarni.

Hann segir afar mikilvægt fyrir ungt fólk að geta rætt alla hluti, hinseginleikann og hvað sem er. „Þess vegna er mikilvægt að veita þeim upplýsingar til dæmis með list en líka á stöðum eins í félagsmiðstöðvum. Samtökin ’78 og hinsegin félagsmiðstöðin sem þau reka fyrir ungt fólk ættu að vera á fjárlögum,“ segir Bjarni.

„Eins ætti það að vera í fjárlögum og reglugerðum að fjölbreytileikinn sé sjáanlegur alls staðar. Af því að það allra mikilvægasta sem við gerum núna er að efla fræðslu margfalt á öllum skólastigum, í fyrirtækjum og í stofnunum. Það mun margborga sig í fallegra og betra samfélagi fyrir okkur öll.“

Athugasemdir