Ólöf Helga Adólfsdóttir, frambjóðandi til forseta ASÍ finnst leiðinlegt að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins hafi tekið ákvörðun að draga framboð sitt til baka. Hún vill ekki segja að það sé sundrung innan ASÍ, en hún telur að ákvörðunin að fresta þinginu muni gefa þeim meira andrými.
Hvernig lýst þér á niðurstöður þingsins?
„Bara ágætlega. Ég var á móti, en við náðum mjög góðri samstöðu um ákvörðunina, þannig ég er bara ánægð,“ segir Ólöf, sem var á móti því að þinginu yrði frestað. „Ég bara taldi það sterkara fyrir okkur að ljúka málefna vinnu hér í dag og kjósa okkur forystu, en ég var í minnihluta.“
Ólöf vill ekki segja að það sé sundrung innan ASÍ. „En við erum ósammála og það er allt í lagi. Nú höfum við tekið þessa ákvörðun að fresta þinginu og það gefur okkur smá tækifæri til þess að vinna í þeim málefnum sem við erum ósammála um. Þetta gefur okkur meira andrými,“ segir Ólöf.
Ætlarðu að bjóða þig fram aftur?
„Ég þarf ekki að gera það, ég er búinn að bjóða mig fram. Í rauninni er þetta ekki nýtt þing, heldur bara framhald, þannig ef ég dreg framboð mitt ekki til baka þá stendur það,“ segir Ólöf.
Hún segir að ASÍ sé vel í stakk búið til að takast á við komandi kjaraviðræður.
„Hann Kristján (Þórður Snæbjarnarson) er reyndur maður og hann verður forsetinn okkar núna áfram. Við erum með sterkt forsetateymi eins og er og sterka miðstjórn. Þetta er reynt fólk og það verður gaman ef VR, Efling og VLFA eru tilbúin til þess að koma aftur að borðinu og vera með okkur. Það er það sem skiptir máli. Við erum sterkari þegar við erum fleiri,“ segir Ólöf.
Tölvupósturinn eign félagsins
Ólöfu finnst umfjöllunin um meintar njósnir í tölvupósti Sólveigar Önnu vera ósanngjörn, en hún segir að tölvupóstarnir hafi verið eign Eflingar á þessum tímapunkti.
„Það er mikilvægt að eitt komi alveg á framfæri, sem að ég held að sé búið að koma fram, að Agnieszka fékk aðgang að tölvupóstinum sem formaður félagsins. Formaður félagsins er eigandi félagsins. Á þessum tímapunkti var Sólveig Anna búin að segja af sér og hætt. Hún var búin að fá tvær vikur til að tæma persónuleg gögn af pósthólfinu, eftir það var það sem sat eftir inn á hólfinu vinnugögn og eign félagsins. Svo kom að því að við þurftum að fá gögn sem voru bara til inn á hennar netfangi og þá þurfti að ná í þessa pósta. En það var enginn að skoða nein gögn sem snéru ekki beint að þessu máli. Það er ósanngjörn umfjöllunin um þetta mál, enda hefði verið eðlilegast að bíða eftir niðurstöðum frá Persónuvernd um hvort brot væri að ræða,“ segir Ólöf.