Óli Björn Kárason, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, segir Sjálfstæðisflokkinn vera markaðshyggjuflokk sem vilji tryggja velferðarkerfi. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir í Viðreisn segir Sjálfstæðisflokkinn berjast gegn markaðslögmálum í sjávarútvegi.

„Við erum róttækur markaðshyggjuflokkur en einnig flokkur velferðar. Það er enginn pólitískur ágreiningur hvort við séum með blandað hagkerfi eða hvort við komum okkur saman um að reka sameiginlegt tryggingakerfi sem tryggir heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð efnahag,“ segir Óli Björn í kosningaþætti Hringbrautar sem verður sýndur í kvöld.

Óli Björn í Sjálfstæðisflokknum mætir í kvöld ásamt Þorbjörgu Sigríði í Viðreisn og Karli Gauta Hjaltasyni í Miðflokknum til að ræða allt það helsta fyrir Alþingiskosningar.

Eruð þið þá ekki hefðbundinn krataflokkur?

„Matthías á Morgunblaðinu sagði einu sinni við mig: Þegar allt kemur til alls erum við Íslendingar kratar. Við erum öll kratar ef það þýðir að við erum í sameiginlegu verkefni að tryggja velferðarkerfi, heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð efnahag, að fólk geti lifað mannsæmandi lífi, að við séum með almannatryggingakerfi til að grípa þá sem þurfa á aðstoð að hjálpa,“ segir Óli Björn og bætir við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alla tíð talað svona.

Skaut þá Karl Gauti inn í: „Þú ert að viðurkenna það að þið hafið verið að færa ykkur til vinstri. Sjálfstæðiflokkurinn er kominn mikið lengra til vinstri en fyrir 10 árum. Þetta er augljóst. Þið eruð kannski að taka að ykkur hlutverk kratanna sem voru áður en þeir eru heimilislausir í dag,“ sagði Karl Gauti.

„Miðflokkurinn hefur ekki stutt tillögur okkar um að lækka skatta eða greitt leið þegar við vildum draga hlut ríkisins af fjármálamarkaði,“ svaraði þá Óli Björn.

Karl Gauti, frambjóðandi Miðflokksins.
Hringbraut/Skjáskot

Þorbjörg Sigríður, frambjóðandi Viðreisnar, segir skatta á Íslandi háa og að Viðreisn sé heilbrigðari hægri og miðjuflokkur til að koma í veg fyrir hækkun skatta. Spurði hún hvernig Sjálfstæðisflokkurinn gæti kallað sig markaðshyggjuflokk miðað við afstöðu þeirra gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjum.

„Hann talar um markaðshagkerfi en hvar stendur Sjálfstæðisflokkurinn í sjávarútveginum til dæmis? Við tölum fyrir því að setja hluta kvótans á markað og í fyllingu tímans verður kvótinn allur þar. Að við leyfum markaðnum að svara því hver verðmætin eru í fiskimiðunum. Sjálfstæðisflokkurinn berst hvergi harðar gegn markaðslögmálum en einmitt þar,“ sagði Þorbjörg.

Þorbjörg Sigríður, frambjóðandi Viðreisnar.
Hringbraut/Skjáskot