Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögregla sé enn í viðræðum við byssumanninn við Miðvang 41 í Hafnarfirði. Maðurinn er einn í íbúðinni og segir Skúli að lögreglan verði á svæðinu þar til maðurinn kemur út.
Skúli ræddi við fjölmiðla rétt fyrir klukkan 12 í dag.
Það var um hálf átta leytið í morgun að tilkynning barst lögreglu um að skotið hefði verið á bifreið fyrir aftan verslun Nettó við Miðvang af svölum íbúðar skammt frá. Eigandi bílsins fór í skýrslutöku hjá lögreglu í morgun og sagði Skúli að hann fengi nú þann stuðning sem hann þyrfti. Ekki er talið að tengsl séu á milli byssumannsins og eiganda bifreiðarinnar.
Lögregla var með mikinn viðbúnað á vettvangi og var fjöldi lögreglubíla, tveir sjúkrabílar og sérsveit lögreglunnar send á vettvang þegar í stað. Leikskóli er í götunni og sagði Skúli að 17 börn og 21 starfsmaður hefðu verið mætt í skólann þegar útkallið kom. Hópurinn heldur sig nú í öðrum enda hússins og segir Skúli að allir þar séu öruggir. Fengu börn og nemendur sendar pizzur til sín í hádeginu.
„Staðan er sú að það er maður sem er einn í íbúð sinni og við erum að tala við hann. Okkar mat er það að aðstæður hér séu öruggar,“ sagði Skúli og bætti við að lögregla væri búin að loka af nokkuð stórt svæði.
„Markmiðið er að fá manninn heilan út og klára þetta með þeim hætti. Við höfum nægan tíma,“ sagði hann en hátt í 20 lögregluþjónar eru á vettvangi. Dróni hefur sveimað yfir fjölbýlishúsinu þar sem maðurinn heldur sig og þá njóta lögreglumenn góðs af róbóta sem var sendur inn í stigagang hússins.
Skúli ítrekaði að lögregla væri tilbúin að vera á vettvangi þar til maðurinn kemur út. Öðrum íbúum stigagangsins er gert að halda sig innandyra. „Við erum með skotlínuna alla tryggða, það er alveg á hreinu,“ sagði hann.
Skúli benti svo á að ef einhverjum líður illa, íbúum á svæðinu eða öðrum, séu starfsmenn Rauða krossins tilbúnir að ræða við fólk í gegnum hjálparsímann 1717.

