„Við erum harmi slegin öll sem eitt,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar um manndráp sem átti sér stað í Ólafsfirði í nótt.

„Þetta var mikið sjokk og það var áfall að heyra af þessu,“ segir Sigríður í samtali við Fréttablaðið. „Í litlu bæjarfélagi sem þessu snertir þetta alla.“

Hún bendir á að fólk geti leitað aðstoðar Ólafsfjarðarkirkju í allan dag, og þá verði kyrrðarstund haldin þar klukkan átta í kvöld. Þá sé búið að virkja viðbragðsteymi Rauða krossins.

Sigríður biðlar þá til fjölmiðla og annara að gefa aðstandendum svigrúm til að syrgja á þessum erfiðu tímum.

Greint var frá málinu í morgun, en lögregla fékk tilkynningu klukkan 2:34 í nótt um að maður væri með stungusár af eggvopni. Viðbragðsaðilar gerðu tilraunir til að hlúa að manninum sem lést á vettvangi. Í kjölfarið voru fjórir handteknir vegna málsins.

Fréttablaðið/Garðar