Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn, segir að smitið sem greindist í gær utan sótt­kvíar komi honum ekki á ó­vart þrátt fyrir að þau hafi auð­vitað vonast til þess að slíkt myndi ekki gerast.

„Þetta er það sama og við höfum talað um allan tímann. Við erum ekki veiru­frí,“ segir Víðir.

Hann segir að enn sé þó verið að meta smitið og mót­efna­mæling í gangi en Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, greindi frá því að ein­stak­lingurinn sem smitaðist kom að utan fyrir tveimur vikum og greindist þá nei­kvæður. Hann átti ferð aftur út núna og þegar hann fór að sækja sér vott­orð kom í ljós að hann var já­kvæður.

Bíða eftir niðurstöðum

„Það er alltaf mögu­leiki á að þetta sé gamalt smit þótt að hann hafi ný­lega verið búinn að fara í tvö próf. Við ætlum að skoða þetta í ró­leg­heitunum og smitrakning er í gangi. Það er verið að skoða hvar hann hefur verið og hverjir geta verið út­settir. Við erum að vinna þetta á sama tíma og við erum að bíða eftir frekari niður­stöðum úr rann­sóknum,“ segir Víðir.

Hann segir að þetta undir­striki mikil­vægi þess að sinna per­sónu­legum sótt­vörnum og segir að það hafi komið fljótt í ljós í haust að þegar til­slakanir voru og fólk slakaði á þeim þá fór veiran fljótt á flug.

„Við skulum samt sjá til hvað kemur út úr þessu. Við erum ekki með neinar stórar á­hyggjur í augna­blikinu því þetta er eitt­hvað sem við bjuggumst við að fá,“ segir Víðir.