Leikarahjónin Nína Dögg Filippusdóttir og Gísli Örn Garðarsson hafa verið saman í að verða 28 ár. Þau kynntust tveimur árum áður en þau sóttu bæði um í Leiklistarskólann og komust saman inn. „Við erum eins og kvótakerfið, það skilur þetta enginn,“ segir Gísli Örn og þau Nína skella upp úr.

„Áður en við fórum í inntökupróf í leiklistarskólann var Gísli Örn í námi úti í Noregi og ég flutti þangað til hans. Hann setti upp Rocky Horror-sýningu þarna og ég dansaði í henni og var í kórnum svo við byrjuðum að vinna saman á sama tíma og við byrjum saman,“ segir Nína en þau Gísli Örn bjuggu þá í kommúnu í Noregi.

„Þegar við komum heim lendum við svo saman í átta manna bekk í Leiklistarskólanum, ásamt Birni Hlyni, og í svona leiklistarnámi vinnur bekkurinn mjög náið saman og það höfum við gert alla tíð síðan,“ segir hún.

Samrýmd hjón

Nína og Gísli Örn útskrifuðust úr Leiklistarskólanum árið 2001. Fyrir útskrift stofnuðu þau Vesturport ásamt Birni Hlyni Haraldssyni, Ingvari E. Sigurðssyni og fleirum, og hafa síðan leikið í og framleitt fjölda leiksýninga, kvikmynda og sjónvarpssería. Þau eiga tvö börn og tóku nýlega í gegn hús á Seltjarnarnesi þar sem þau búa ásamt börnum sínum.

Fyrir utan að sinna saman heimili, ala upp börn og vinna saman eiga Gísli Örn og Nína einnig sameiginleg áhugamál, svo sem sjósund, hestamennsku og dans. „Gísli var nú ekki sérstaklega mikill dansari til að byrjað með, en varð lífið ekki skemmtilegra þegar þú byrjaðir að dansa?“ segir Nína og beinir orðum sínum til Gísla Arnar sem játar því.

„Það er miklu skemmtilegra að dansa en að dansa ekki,“ segir Gísli Örn. „Já, ég mæli með því fyrir alla sem dansa ekki að stíga inn í þennan heim, það er miklu skemmtilegra að lifa dansandi en ekki dansandi,“ segir Nína.

„Þó að við séum nú ekki dansandi á hverju kvöldi þá er vissulega gaman að stíga út úr þægindarammanum sínum. Þetta byrjaði hjá mér þegar ég var að leika í sjónvarpsseríu á Englandi. Ég var mjög lengi í burtu og leiddist svo á kvöldin þegar upptökurnar voru búnar,“ segir Gísli Örn sem spurði fólkið sem vann með honum í verkefninu hvað það gerði til að drepa tímann á kvöldin.

„Þau sögðu mér að þau færu að dansa á salsaklúbbum sem voru ótrúlegt en satt úti um allt í Newcastle. Ég var svo gamaldags að mér fannst algjört rugl að fara edrú út að dansa á þriðjudagskvöldi, í raun það asnalegt að ég ákvað að snúa við blaðinu, ögra sjálfum mér, og verða karlmaður sem þorir að dansa.“

Sambandið eins og hafið

Spurð að því hvaða áhrif það hafi á samband þeirra að vera tíðum í sundur mánuðum saman vegna vinnu segja þau mikilvægt að slíta ekki keðjuna á milli sín. „Þetta er bara eins og hafið. Stundum eru öldur, stundum er það slétt og stundum er ofsasjór, jafnvel brim, en ég myndi segja að við höfum unnið mjög vel úr þeim öldum sem hafa komið í okkar líf,“ segir Nína og Gísli Örn tekur undir.

„Það hljómar kannski klisjukennt, en það eru ákveðin forréttindi að gera svona mikið saman, 28 ár eru langur tími og við höfum lifað gefandi og litríku lífi,“ segir hann.