„Það er búin að vera mjög mikil umferð í fjöldahjálparstöðina frá því hún opnaði í byrjun október,“ segir Þórir Hall Stefánsson, umsjónarmaður fjöldahjálpastöðvar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Borgartúni.

Alls hafa 953 umsækjendur um alþjóðlega vernd dvalið í fjöldahjálparstöðinni og segir Þórir fólkið vera af öllum þjóðernum. Þó mestmegnis frá Venesúela og Úkraínu. „Fólk er almennt mjög ánægt með dvölina hérna,“ segir Þórir og bætir við að enginn hafi dvalið lengur en þrjá sólarhringa í húsnæðinu líkt og stóð til frá upphafi.

„Flestir rúlla í gegnum húsið samdægurs en aðrir gista eina eða tvær nætur. Vinnumálastofnun hefur sett mikið púður í að finna fólki dvalarstað og það hefur gengið vel. Meira að segja miðað við húsnæðisskortinn sem talað er um í samfélaginu. Þau eru að vinna þrekvirki líka. “ segir Þórir.

Nú styttist óðum í jólin og segir Þórir aðspurður jólin líta ágætlega út í fjöldahjálparstöðinni.

„Við erum með fólk á sólarhringsvöktum hérna og öryggisverði sömuleiðis. Síðan er eiginlega ómögulegt að segja til um hvernig þetta mun þróast dag frá degi. Við erum bara eins og Rauða krossinum einum er lagið í viðbragðsstöðu og tilbúin að mæta öllum þeim áskorunum sem koma á okkar borð og okkur hefur tekist að gera það mjög vel hér í fjöldahjálparstöðinni. “

Að sögn Þóris er planið að reyna hafa litla pakka fyrir börnin og gera næstu daga eins hátíðlega og hægt er undir þessum kringumstæðum. „Við erum alveg vel undirbúin fyrir jólin og hátíðirnar.“