Ásmundur Sveinsson, annar eigandi handverksbarsins Session Craft bar, segir að fjárhagslega höggið af aðgerðum stjórnvalda í dag vera gríðarlega mikið.
„Þetta er svo margþætt. Fólk rekur ekki fyrirtæki frá degi til dags, viku til viku og frá mánuði til mánaðar heldur lengra fram í tímann,“ segir Ásmundur í samtali við Fréttablaðið.
„Við erum með okkar sérfræðikunnáttu og það sem við leggjum áherslu og það er í raun fersk vara. Við erum nýbúnir að panta inn vöru fram í tímann og það er rétt rúmlega mánuður síðan við fengum að opna aftur og nú þurfum við að fara loka,“ segir Ásmundur.
„Við erum að fara hella fullt af bjór því hann endist ekki,“ bætir hann við. Ásmundur segist hafa skilning á því að stundum þurfi að grípa til harðra aðgerða en bendir á að reksturinn hjá sér hefur verið lokaður í sex til sjö mánuði af síðustu tólf.
Hefur áhrif á alla fjölskylduna
Ásmundur segir að reksturinn hafi verið komið í slæmt ásigkomulag eftir síðustu lokun og gæti þetta því ekki komið á verri tíma.
„Okkur leist nú ekki á blikinu og vorum eiginlega að verða súrefnislausir þegar það mátti opna aftur. Þannig það kom á besta tíma en hvað þessi lokun mun standa veit maður ekki. Þetta er bara erfitt,“ segir Ásmundur.
Session fjárfesti nýlega í sjálfsafgreiðslukerfi til að reyna halda rekstrinum gangandi til að geta fylgt öllum reglum. „Það er búið að taka svo mikið tönnina úr okkar rekstri í heilt ár. Við höfum reynt okkar besta og gert okkar besta í að fylgja öllu en samt erum við hér, aftur,“ segir Ásmundur.
„En þetta er ekki bara peningar heldur hellings tími. Ég er þriggja barna faðir og þetta hefur ekki bara áhrif á mann sjálfan heldur alla fjölskylduna, börnin manns og alla í kringum mann,“ segir Ásmundur.
„Við erum líka búnir að vinna undir takmörkunum sem hefur haft mikil áhrif á okkar rekstur. Við höfum verið duglegir að fylgja öllum þeim takmörkunum sem okkur hefur verið sett og fylgt öllum reglum en við erum alltaf að taka höggið,“ segir Ásmundur og bætir við að hann sé mjög ósáttur við stjórnvöld hvað varðar stöðuna á bólusetningum á Íslandi.