Jón Atli Bene­dikts­son, rektor Há­skóla Ís­lands, segir að hann sé þakk­látur Veitum að hafa gengið strax til verka eftir vatns­lekann síðasta fimmtu­dag en mjög mikil­vægt að skólinn fái skemmdirnar bættar.

Greint var frá því fyrr í dag að niður­staða Veitna hafi leitt í ljós að um mis­tök hafi verið að ræða á fram­kvæmda­svæði þeirra við Suður­götuna sem varð til þess að vatns­lögn sprakk.

„Ég vil þakka Veitum fyrir að hafa farið strax í málið og greina það. Það er komin niður­staða um að þetta hafi verið ein­hvers konar mann­leg mis­tök. Það er vonandi þannig að há­skólinn fái þetta bætt. Það er okkur mjög mikil­vægt,“ segir Jón Atli.

Fram kom í til­kynningu Veitna að það sé á á­byrgð trygginga­fé­laga að skera úr um bóta­á­byrgð en Jón Atli segir það alveg skýrt að há­skólinn muni leita réttar síns með þetta.

Stórar stofur ónothæfar

Hann segir að hreinsunar­starf gangi vel og mikil sam­staða sé meðal starfs­fólks. Hann segir að teppin séu farin af gólfinu og að raf­magn sé komið aftur á Gimli. Það sé hægt að nota efri hæðir Há­skóla­torgs og Gimli en að neðri hæðirnar séu alveg ó­not­hæfar.

„Það mun taka langan tíma að koma þessu í lag. Kennsla mun lík­lega ekki hefjast þar fyrr en í haust. Þetta er gríðar­legur skellur. Þetta voru stórar stofur sem við vorum að nota í stað­kennslunni. Þetta hefur veru­lega á­hrif á okkar starf en ég þakka Veitum fyrir að hafa verið opin með þetta og unnið vel með okkur

Þannig þetta er í vinnslu og það kemur í ljós síðar hver ber á­byrgð á að greiða fyrir skemmdirnar?

„Já, og við búumst við því að fá þetta bætt,“ segir Jón Atli að lokum.