Slysavarnafélagið Landsbjörg fór af stað með umferðarátak í dag þar sem markmiðið er að breyta viðhorfi ökumanna og fá bílstjóra á öllum aldri til að hugsa sig um áður en að gripið er í símann eða keyrt of hratt, að sögn Svanfríði Önnu Lárusdóttur verkefnastjóra slysavarna.
Samkvæmt Svanfríði hefur viðhorf Íslendinga gagnvart umferðinni breyst nokkuð á undanförnum árum. „Hegðun okkar er einhvern veginn meira óhlýðin,“ segir hún.
„Við sjáum til dæmis töluverða hækkun þar sem fólki finnst frekar allt í lagi að vera með snjallsímann undir stýri, við sjáum að fólki finnst allt í lagi að keyra hraðar en þrjátíu á þrjátíu götum,“ segir Svanfríður. „Fólki finnst meira allt í lagi að fara hraðar en á níutíu.“
Í viðhorfskönnun Samgöngustofunnar fyrir árið 2021 mátti einnig sjá slakara viðhorf svarenda gagnvart því að nota öryggisbelti og keyra undir áhrifum áfengis. Skýrsla Samgöngustofu um umferðarslys frá árinu 2021 sýndu jafnframt fram á aukningu slysa og slysaðra miðað við árið á þar á undan. Árið 2020 var þó lægra en meðaltal síðustu tíu ára.
Í skýrslunni segir að meira sé um að ungir ökumenn slasist og óvarnir vegfarendur, til að mynda á rafhlaupahjólum. Árið 2021 voru 16,8 prósent slysa þar sem einstaklingar slösuðust alvarlega eða létust af völdum rafhlaupahjóla. Lítið var um slík slys árið 2020 og engin fyrir það.
Svanfríður segir að Landsbjörg hafi lengi unnið að því að minnka notkun snjallsíma undir stýri og nú einnig hjá ökumönnum rafhlaupahjóla.
Gefa sig á tal við fólk á ferðinni
Einingar frá Landsbjörg verða á ferðinni í allt sumar. „Á bæjarhátíðum og tjaldsvæðum og þar sem þeim þykir best henta eftir því hvað er að gerast á þeim landshluta,“ segir Svanfríður.
Fólk úr slysavarnafélaginu mun spjalla við fólk um allt land um umferðaröryggi, dreifa bæklingum, minna á ökuhraða og fleira í þeim dúr. Auk þess munu þau gefa fólki glæra framrúðuplástra sem Sjóvá lætur framleiða og eiga að koma í veg fyrir að sprungur í framrúðum stækki.
„Svo erum við með skemmtileg myndbönd líka á samfélagsmiðlum, sem eru svona teiknimyndir þar sem bílstjórinn er flugstjórinn og farþeginn er flugþjónninn,“ segir Svanfríður. „Þetta er aðallega að minna bílstjórann á að hann þarf að hafa augun á veginum og hendur á stýri.“
Svanfríður segir að Landsbjörg vilji, ásamt öðrum stofnunum, ná að breyta viðhorfum fólks og fá það til að hugsa sig tvisvar um. „Við verðum bara að taka okkur taki,“ segir hún. „Við berum öll ábyrgð í umferðinni.“