Fjöl­miðla­fyrir­tækið Vice skipu­lagði tón­listar­há­tíð í Sádi-Arabíu í leyni þrátt fyrir að hafa heitið því að vinna ekki framar í landinu fyrir að­eins þremur árum í mót­mæla­skyni vegna morðsins á blaða­manninum Jamal Khas­hoggi.

Vice var stofnað í Mon­t­réal, Kanada, árið 1994 og er með skrif­stofur í fjöl­mörgum löndum. Fyrir­tækið hefur lagt á­herslu á að fram­leiða fréttir og skemmti­efni fyrir ungt fólk hefur og notið ó­mældra vin­sælda hjá vest­rænum „hip­sterum“ undan­farna ára­tugi.

Að sögn The Guar­dian var Azimuth tón­listar­há­tíðin sem fór fram í miðri eyði­mörkinni í Sádi-Arabíu skipu­lögð í laumi af starfs­mönnum Vice sem hluti af inn­reið fyrir­tækisins inn á markað í landinu, þrátt fyrir bág­borna stöðu mann­réttinda þar í landi.

Vice slitu sam­starfi við fram­leiðslu­fyrir­tæki í Sádi-Arabíu árið 2018 í kjöl­far þess að blaða­maðurinn Jamal Khas­hoggi var myrtur af yfir­völdum þar í landi og hétu því að vinna ekki framar í landinu. Þrátt fyrir það hefur fyrir­tækið herjað á Sádi-arabískan markað undan­farið og opnuðu ný­lega sér­stakt úti­bú í höfuð­borginni Ri­ya­dh. Að sögn starfs­manna sem The Guar­dian ræddi við hefur fyrir­tækið hunsað kvartanir starfs­manna sinna vegna þessa:

„Starfs­menn Vice hafa árum saman haldið uppi á­hyggju­röddum vegna tengsla fyrir­tækisins við Sádi-Arabíu og við höfum verið hunsuð með innan­tómum stað­hæfingum og aumkunar­verðum af­sökunum,“ sagði einn ó­nafn­greindur starfs­maður.

Starfs­menn látnir skrifa undir þagnar­skyldu­samninga

Azimuth tón­listar­há­tíðin var haldin við upp­haf Co­vid-far­aldursins í mars 2020 en fékk litla um­fjöllun í vest­rænum fjöl­miðlum að sögn The Guar­dian. Um var að ræða í­burðar­mikla há­tíð þar sem gestum var boðið saman­safn af vest­rænni og aust­rænni menningu. Talið er að há­tíðin hafi verið ein­stak­lega arð­bær fyrir Vice en starfs­menn fyrir­tækisins á­ætla að það heildar­fjár­magnið hafi verið um 20 milljónir Banda­ríkja­dala eða rúmir 2,5 milljarðar ís­lenskra króna.

Fjöl­margir vest­rænir lista­menn og mat­reiðslu­menn komu fram á há­tíðinni svo sem franski raf­tón­listar­maðurinn Jean-Michel Jar­re og rapparinn Tini­e Tempah á­samt kokkum frá Michelin-veitinga­stöðunum Contra í New York og Anna­bel’s í Lundúnum.

Þrátt fyrir að Vice hafi skipu­lagt há­tíðina var nafn fyrir­tækisins hvergi að finna í dag­skránni. Verk­takar sem unnu að skipu­lagningunni í gegnum Vice voru auk þess látnir skrifa undir þagnar­skyldu­samninga.

Reyna að markaðs­setja sig fyrir vestur­lönd

Að sögn The Guar­dian er ríkis­stjórn Sádi-Arabíu mjög um­hugað um að endur­markaðs­setja sig fyrir ungt fólk frá vestur­löndum. Vice hefur því hugsað sér gott til glóðarinnar enda hefur fyrir­tækið staðið höllum fæti undan­farin ár og með mikla þörf fyrir nýja fjár­festa.

Að sögn eins starfs­manns er fram­kvæmda­stjórn Vice að fullu með­vituð um þá mögu­lega á­lits­hnekki sem fyrir­tækið gæti lent í ef mark­hópur þeirra í vestur­löndum, ungt rót­tækt og list­rænt fólk, kæmist að tengslum þess við Sádi-Arabíu.

„Það er ó­trú­legt að þrátt fyrir í­trekaða and­spyrnu frá starfs­fólki sínu sé Vice enn þá sátt með að taka við peningum frá landi sem ber bók­staf­lega á­byrgð á ríkis­sam­þykktu morði á blaða­manni,“ sagði starfs­maðurinn.

Spurð um á­hyggjur starfs­manna sinna vegna við­skipta­tengsla fyrir­tækisins í Sádi-Arabíu sagði tals­maður Vice:

„Vice Arabía var sett upp fyrir rúmum fjórum árum sem hluti af al­þjóð­legri út­þenslu okkar, sam­hliða fjöl­mörgum öðrum fjöl­miðla- og fram­leiðslu­fyrir­tækjum sem hafa komið sér fyrir á svæðinu. Vice hefur alltaf lagst á­herslu á sköpun og menningu fyrir ungt fólk í öllum heims­hornum og á Sádi-svæðinu eru tveir þriðju íbúa undir 35 ára aldri.

Við opnuðum við­skipta- og fram­leiðslu­skrif­stofu í Ri­ya­dh fyrr á þessu ári og greindum frá því opin­ber­lega í fjöl­miðlum. Rit­stjórnar­leg rödd okkar hefur og mun alltaf starfa með fullu sjálf­ræði og sjálf­stæði,“ segir í yfir­lýsingu Vice.