Forsvarsmenn Flugfreyjufélags Íslands fylgjast grannt með þróun mála hjá WOW air. Unnið hefur verið að því síðustu daga að bjarga rekstri flugfélagsins fyrir horn á met tíma. Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að Arctica Finance, ráðgjafar WOW air, auk fulltrúa fjárfestingabankasviðs Arion banka vinni hörðum höndum að því að fá einkafjárfesta, innlenda og erlenda, auk lífeyrissjóða með háar fjárhæðir á borðinu til þess að bjarga rekstri félagsins.

Sjá einnig: Samþykkja að breyta skuldum WOW í hlutafé

Í nýjustu tilkynningu frá flugfélaginu, sem barst upp úr hádegi kom fram að skuldabréfaeigendur WOW air hafi samþykkt að breyta skuldabréfum sínum í hlutafé. Formlegar viðræður við fjárfesta um fjármögnun félagsins séu hafnar. Rúmlega fjögur hundruð félagsmenn Flugfreyjufélags Íslands starfa hjá flugfélaginu. Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands(FFÍ), segir forsvarsmenn félagsins ekki vita meira um stöðu mála en það sem fram hefur komið fram í fjölmiðlum.

Sjá einnig: Samningafundi frestað í annað sinn vegna WOW

„Við fylgjumst grannt með og upplýsum félagsmenn eftir þörfum. Það er ekkert annað en að vona það besta og vera bjartsýnn,“ segir Berglind í samtali við Fréttablaðið. 

Sjá einnig: Ögurstundin er runnin upp

Aðspurð segir hún töluverður hluti flugfreyja félagsins haft samband við stéttarfélagið og trúnaðarmenn þess til þess að spyrjast fyrir um sín mál. „Eins og er þá er fyrirtækið gangandi og það eru jákvæðar fréttir að berast þannig það er ekki verið að ýta undir óþarfa áhyggjur en við erum tilbúin með aðgerðaráætlun ef til þess kemur. Þá munum við senda starfsmönnum upplýsingar um réttarstöðu og næstu skref en það er ekki þörf á því eins á því.“