„Það er mjög algengur misskilningur að víðavangshlaup séu bara fyrir einhverja elítuhlaupara, svo er alls ekki. Mitt markmið er að fólk á öllum getustigum átti sig á því hvað víðavangshlaup eru ótrúlega skemmtileg,“ segir Burkni Helgason, skipuleggjandi hjá Framförum, hollvinafélagi millivegalengda- og langhlaupara.

Nú í október verður haldin 16. víðavangshlauparöð félagsins á höfuðborgarsvæðinu.

Tvær vegalengdir eru í boði og hefst styttra hlaupið á undan. Stutta hlaupið er yfirleitt um 1 kílómetri en það lengra 6-7 kílómetrar á sama hring. „Það er algjör lágmarksyfirbygging. Ég hef aldrei hækkað skráningargjaldið, það er ennþá 500 kall,“ segir Burkni.

Vegalengdirnar eru settar upp með það fyrir augum að höfða til sem flestra, bæði millivegalengda- og langhlaupara og hlaupara á öllum aldri á öllum getustigum. Burkni segir að krakkar séu sérstaklega boðnir velkomnir.

„Hugmyndin er að vera með stutt, rosalega skemmtilegt verkefni fyrir hlaupara á laugardagsmorgnum í október. Víðavangshlaup eru yfirleitt alltaf hringhlaup. Tilgangurinn er að vera með eitthvert verkefni á þessum tíma ársins, í ár er auðvitað aðeins öðruvísi staða, vegna samkomubannsins hafa verkefnin gjarnan hlaðist á haustið. Ég hef alveg haldið hlaup fyrir fimm manns,“ segir Burkni og hlær.

Um er að ræða þrjú hlaup, fyrsta verður í Kjarrhólma í Kópavogi 3. október, annað hlaupið verður 17. október við Gufunesbæ í Grafarvogi og það þriðja verður 31. október við Borgarspítalann í Fossvogi.

„Þetta snýst um að hlaupa á bæði möl og grasi. Ég reyni að hafa undirlagið og landslagið fjölbreytt.“

Burkni segir að samanborið við götuhlaup eða hlaup á hlaupabrautum reyni víðavangshlaup meira á hugann, það geri þau svo skemmtileg.

„Það þarf alltaf að skipta um takt, þú ert alltaf að bregðast við einhverju nýju, þú slekkur aldrei á huganum eins og hægt er að gera þegar hlaupið er á sléttu undirlagi,“ segir Burkni. „Svo þegar þú hleypur á mjúku undirlagi þá getur þú algjörlega gengið fram af þér án þess að vera illt í skrokknum daginn eftir. Þú finnur mikla meira fyrir löppunum þegar hlaupið er á malbiki, grasið og mölin er miklu meira fyrirgefandi.“

Burkni sjálfur var öflugur hlaupagarpur, en hans keppnisdagar eru liðnir. „Því miður, ég er búinn að fara í tvær hnéaðgerðir og hleyp ekki lengur sjálfur.“

Ekki er þörf á neinum sérstökum eða dýrum útbúnaði, bara góðum skóm.

„Í dag horfi ég öðruvísi á umheiminn, ef ég sé grasbala þá hugsa ég um að hlaupa á hann. Það er ótrúlega mikið af svæðum sem hægt er að hlaupa á í höfuðborginni,“ segir Burkni. Stóra málið sé að fá aðra til að sjá heiminn með sömu augum. „Ég get fullyrt að engum sem hefur mætt í Framfarahlaup hefur þótt það leiðinlegt.“