Stinningar­lyfið silfenafil, þekktast undir nafninu Viagra, gæti verið nýjasta vopnið í bar­áttunni við Alz­heimers-sjúk­dóminn. Sam­kvæmt nýrri rann­sókn banda­rísks vísinda­fólks eru þeir sem taka inn lyfið 69 prósentum minna lík­legir til að þróa með sér sjúk­dóminn en þeir sem taka það ekki.

Niður­stöðurnar voru birtar í vísinda­ritinu Nature Aging. Rann­sak­endurnir segja þó að enn sé of snemmt til að full­yrða um beint or­saka­sam­hengi á milli inn­töku lyfsins og minni hættu á að fá Alz­heimer, sem er al­gengasta or­sök aldurs­tengdrar heila­bilunnar í heimi.

Talið er að mörg hundruð milljón manna þjáist af Alz­heimer og enn hefur ekki tekist að koma lyfi til með­ferðar á honum á markað, þrátt fyrir að á undan­förnum árum hafi náðst nokkur árangur í þá átt.

Alz­heimers­dagurinn er haldinn um allan heim 21. septem­ber ár hvert.
Fréttablaðið/EPA

Vísinda­fólk við Cle­veland Clinic nýtti sér gögn úr erfða­efnis­gagna­grunnum til að kanna hvort eitt­hvert þeirra 1.600 lyfja sem sam­þykkt eru af banda­ríska lyfja­eftir­litinu gæti komið að gagni við að með­höndla Alz­heimer. Lyf sem hafa á­hrif bæði á mýlildi (e. amyloid) og Tau-prótein, sem talið eru eiga þátt í Alz­heimer-sjúk­dóminum, voru metin gagn­legri en þau sem höfðu á­hrif einungis á annað hvort.

„Sild­enafil, sem sýnt hefur verið fram með líkönum á að auki mjög vits­muni og minni, var besti lyfjakandídatinn,“ segir Dr. Feixiong Cheng sem fór fyrir rann­sókninni.

Þá næst nýtti vísinda­fólkið sér gagna­grunn með sjúkra­gögnum meira en sjö milljón Banda­ríkja­manna til að skoða tengsl milli notkunar sild­enafil og þróunar Alz­heimers-sjúk­dómsins með því að bera saman þá sem neyttu lyfsins við þá sem það ekki gerðu.

Frekari rann­sóknir þarf

Í ljós kom, eftir sex ára eftir­fylgni, að not­endur sild­enafil voru 69 prósentum minna lík­legir til að þróa með sér sjúk­dóminn en þeir sem tóku ekki lyfið. Til að kanna frekar á­hrif lyfsins á sjúk­dóminn hönnuðu rann­sak­endur tölvu­líkan og sýndi það fram á að sild­enafil jók vöxt heila­fruma og hafði einkum á­hrif á Tau-prótein og veitti þetta upp­lýsingar um hugsan­leg á­hrif lyfsins á breytingar á heilanum af völdum sjúk­dómsins.

Cheng segir enn of snemmt til að full­yrða að bein or­saka­tengsl séu milli sild­enafil og Alz­heimers-sjúk­dómsins. Nú þurfi að ráðast í klínískar til­raunir þar sem fólki af báðum kynjum er raðað saman og lyf­leysa notuð.

Pólski vísinda­maðurinn Kon­rad Rejdak við hliðina á vél­menni sem hannað er til að að­stoða Alz­heimers-sjúk­linga.
Fréttablaðið/EPA

Niður­stöðurnar eru „spennandi vendingar“ og gætu markað upp­hafið að nýrri að­ferð í bar­áttunni við sjúk­dóminn segir Dr. Ivan Koychev sem starfar við Ox­ford­há­skóla og tengist rann­sókninni ekki í sam­tali við The Guar­dian.

„Þrátt fyrir að niður­stöðurnar séu á­huga­verðar út frá vísinda­legu sjónar­miði, byggt á þessari rann­sókn myndi ég ekki flýta mér að taka sild­enafil til að koma í veg fyrir Alz­heimers-sjúk­dóminn“, segir Dr Susan Ko­hlhaas, yfir­maður rann­sókna hjá Alz­heimer's Research UK.

„Að geta endur­­nýtt lyf sem þegar er leyft til að með­höndla önnur heilsu­fars­vanda­­mál gæti hraðað fyrir þróun nýrra lyfja og fært okkur tíma­­móta­­með­­ferðir við heila­bilun fyrr. Það er mikil­­vægt að hafa í huga að þessi rann­­sókn sannar ekki að sild­enafil dregur úr hættu á heila­bilun, eða hægir á eða stöðvar fram­­göngu sjúk­­dómsins. Eina leiðin til að sann­­reyna það er stór klínísk rann­­sókn sem mælir á­hrif sild­enafil saman­­borið við hefð­bunda með­­ferð“, segir Ko­hlhaas.