Kjaramálafulltrúi hjá Eflingu sem var við verkfallsvöktun í dag segir að víða hafi orðið uppvíst um verkfallsbrot á hótelum í Reykjavík í dag. Fólk sem ekki hafi til þess leyfi hafi gengið í verk hótelþerna sem hófu verkfall sitt klukkan 10 í morgun. Hótelstjóri Hótel Sögu segir að verkföllin raski starfsemi mikið.

Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um verkföll hreingerningarfólks sem hófust í morgun. Vafi var uppi um lögmæti verkfallsboðunarinnar, en Félagsdómur dæmdi í gær Eflingu í vil. Dómurinn klofnaði og skilaði einn dómari séráliti, auk þess að svo mikilli vafi var uppi um niðurstöðuna að deiluaðilarnir, þ.e.a.s. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands fyrir hönd Eflingar, voru látnir bera málskostnað að jöfnu.

Mikill hamur í fólki í morgun

Mikið hefur gengið á í dag og voru hótelþernur margar mættar til vinnu eldsnemma í morgun til að vinna í haginn áður en verkfallið tók gildi. Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Hótel Sögu, segir að vel hafi gengið miðað við aðstæður. „Miðað við að missa allt þetta dásamlega fólk þá gekk þetta vel. Þau buðust til þessa að mæta snemma í morgun og hlupu inn í herbergin eftir því sem þau losnuðu áður en þau gengu út klukkan 10,“ segir Ingibjörg í samtali við Fréttablaðið. „Það var ofboðslega mikill hamur í þeim í morgun og þau voru mjög dugleg.“

Ingibjörg segir að aðeins hafi verið mannafli til að þrífa herbergi fyrir væntanlega gesti, en ekki hafi verið hægt að sinna tiltekt á herbergjum gesta sem gistu í nótt. „Ég er ein sem get tekið til svo við vonumst bara til þess að ég fái ekki 150 kvartanir frá gestum okkar,“ segir Ingibjörg. „Þetta er mikil röskun því við getum ekki tekið til í mörgum herbergjum og það er takmarkað sem ég næ að þrífa í sölunum hjá okkur, en þeir eru allir bókaðir fyrir veislur í kvöld.“

Starfsnemar gengu í verkin

Ingibjörg segir jafnframt að ófélagsbundnir starfsnemar í hótelstjórnun hafi getað hlaupið í verkin. „Þetta eru ófélagsbundnir erlendir hótelstjórnunarnemar sem koma til okkar og mega vinna við hvað sem er. Ófélagsbundið fólk má vinna og það er alveg skýrt þótt Efling túlki það öðruvísi,“ segir Ingibjörg. Á vinnuréttarvef ASÍ segir „Verkfall nær [...] ekki einungis til félagsmanna í því stéttarfélagi sem boðar til verkfallsins, heldur til allra þeirra sem taka kjör eftir þeim kjarasamningi sem verið er að knýja á um að gerður verði.“

Aðspurð hvort að tjón af völdum verkfalla sé varanlegt segir Ingibjörg að ef komi til áframhaldandi verkfalla muni það hafa mjög slæmar afleiðingar. „Við erum búin að búa við mjög mikla fjölgun á ferðamönnum og það hefur átt sér stað mikil uppbygging. Ef það verður hrun á ferðamönnum út af verkföllum er það ekki gott,“ segir Ingibjörg. „Ég vona bara að deiluaðilar nái saman og að það verði samið sem allra fyrst,“ bætir hún við að lokum.

Verkfallsbrot víða

Ragnheiður Valgarðsdóttir, kjaramálafulltrúi hjá Eflingu, var á verkfallsvakt stéttarfélagsins í dag. Hópurinn fór víða og heimsótti nær öll hótel í og í kringum miðbæ Reykjavíkur. „Okkur var alls staðar vel tekið en það var verið að fremja verkfallsbrot víða. Ég veit ekki hvort þau séu meðvituð eða ómeðvituð eða við urðum vör við að millistjórnendur og deildarstjórar og jafnvel fjármálastjórar voru að ganga í verk þernanna, og við teljum að það séu verkfallsbrot“ segir Ragnheiður í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurð út í aðkomu starfsnemanna sem fjallað er um hér að ofan segir Ragnheiður að það sé verkfallsbrot að áliti Eflingar. „Við ráðfærðum okkur við ASÍ og okkur var greint frá því að ef rekstrarform hótels er einkahlutafélag eru það bara hótelstjórar og stjórnarformenn sem mega ganga í störf hreingerningarfólks, en ekki starfsnemar eða ættingjar eigenda eins og við urðum vör við,“ segir Ragnheiður. 

Beðin um að mæta klukkan 4.30

Ragnheiður segist jafnframt hafa heyrt af því að þernur voru beðnar um að koma eldsnemma í morgun, klukkan hálf fimm, til að reyna að ljúka við sem flest herbergi áður en til verkfallsins kom. Svo lengi sem að slíkt er greitt á yfirvinnutaxta er það þó ekki verkfallsbrot. 

Aðspurð segir Ragnheiður að verkfallsvakt Eflingar hafi orðið vör við einhverskonar verkfallsbrot á um 70 prósent hótelanna sem heimsótt voru. „Við stöðvuðum eina sem var að skipta um rúmföt og hafði ekki hugmynd um að hún væri í verkfalli. Það er auðvitað gróft brot að leyfa þessum starfsmanni að sinna þessum störfum. Stjórnendur hótelsins sögðu að hún væri ekki félagsmaður í Eflingu en það á ekki að skipta máli,“ segir Ragnheiður að lokum.

Eins náði Fréttablaðið tali af Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, er hún var á leið á baráttufund Eflingar í Gamla bíó. „Það er búið að ganga mjög vel í dag og búið að vera alveg ótrúlegur dagur. Þetta er búið að vera svaka stuð og fólk er mjög herskátt,“ segir Sólveig í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að greinargerð um verkfallsbrot verði kynnt um helgina og fjallað verður um aðgerðir verkfallsvaktarinnar.

Verkfalli hreingerningafólks lýkur klukkan 23 í kvöld.