Jóhannes Rúnars­son, fram­kvæmda­stjóri Strætó bs., segir fyrir­tækið munu draga lær­dóm af því að ráða starfs­menn í gegnum starfs­manna­leigur. Hann heitir því að komi sú staða upp aftur, verði í það minnsta horfið frá frá­drætti á húsa­leigu á launa­seðlum. Sam­starf við starfs­manna­þjónustur þurfi að taka til um­ræðu. 

Fyrir­tækið kvaðst í dag hafna á­sökunum Sönnu Magda­lenu Mörtu­dóttur, borgar­full­trúa Sósíal­ista­flokksins, um að það bryti á réttindum og kjörum starfs­manna sinna.

Frádráttur vegna húsaleigu á launaseðlum

Manna hafi þurft 50 ný stöðu­gildi yfir sumar­tímann en eftir aug­lýsingar í fjöl­miðlum, sam­fé­lags­miðlum og sam­vinnu við ráðningar­þjónustur hafi einungis 20 fengist til starfa. Því hafi verið brugðið á það ráð að leita til starfs­manna­leigunnar Elju. Þannig hafi 30 verið ráðnir í gegnum Elju frá maí til lok ágúst.

Sjá einnig: Sakar Strætó um níðings­skap gegn erlendum bílstjórum

Þeir sem tíma­bundið voru ráðnir voru því rukkaðir um húsa­leigu til frá­dráttar á launa­seðlinum en í yfir­lýsingu sem Strætó sendi frá sér í dag segir að þeir hafi verið með laun sam­kvæmt kjara­samningi Starfs­manna­fé­lags Reykja­víkur­borgar og Strætó bs. 

Fyrir­tækið birti dæmi um launa­seðla tveggja vagn­stjóra með yfir­lýsingunni en þar má sjá að þeir eru rukkaðir um 70 og 75 þúsund fyrir húsa­leigu. Enginn sé rukkaður um húsa­leigu til frá­dráttar hjá fyrir­tækinu í dag.

Jóhannes segir í sam­tali við Frétta­blaðið að stjórn­endur fyrir­tækisins sjái að frá­drátturinn hafi ef til vill ekki verið góð hug­mynd.

Draga ekki neitt af launum starfsmanna

„Við sjáum að þetta er ekki alveg eðli­legt og hefðum kannski ekki átt að fara þá leið. En við vorum svo­sem með undir­ritað um að þetta væri heimilt,“ segir Jóhannes og vísar til þess að starfs­mennirnir hafi skrifað undir samningana sem um ræðir. 

En ef það gengur illa og sama staða verður uppi á teningnum að ári, hvaða leiðir munuði fara til að bregðast við að sama saga endur­taki sig? 

„Við munum alla­vega ekki fara þessa leið að draga neitt af launum starfs­manna, það er klárt mál. Við munum núna í fram­haldinu taka um­ræðuna í stjórn um hvaða leiðir eru færar í þessu. Það kemur vonandi niður­staða fljót­lega svo við getum farið að undir­búa þetta því tíminn líður hratt,“ segir Jóhannes og bætir við að sú um­ræða eigi hins vegar eftir að fara fram hvort fyrir­tækið leiti aftur til starfs­manna­þjónustu á næsta ári.