Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir fyrirtækið munu draga lærdóm af því að ráða starfsmenn í gegnum starfsmannaleigur. Hann heitir því að komi sú staða upp aftur, verði í það minnsta horfið frá frádrætti á húsaleigu á launaseðlum. Samstarf við starfsmannaþjónustur þurfi að taka til umræðu.
Fyrirtækið kvaðst í dag hafna ásökunum Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, um að það bryti á réttindum og kjörum starfsmanna sinna.
Frádráttur vegna húsaleigu á launaseðlum
Manna hafi þurft 50 ný stöðugildi yfir sumartímann en eftir auglýsingar í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og samvinnu við ráðningarþjónustur hafi einungis 20 fengist til starfa. Því hafi verið brugðið á það ráð að leita til starfsmannaleigunnar Elju. Þannig hafi 30 verið ráðnir í gegnum Elju frá maí til lok ágúst.
Sjá einnig: Sakar Strætó um níðingsskap gegn erlendum bílstjórum
Þeir sem tímabundið voru ráðnir voru því rukkaðir um húsaleigu til frádráttar á launaseðlinum en í yfirlýsingu sem Strætó sendi frá sér í dag segir að þeir hafi verið með laun samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Strætó bs.
Fyrirtækið birti dæmi um launaseðla tveggja vagnstjóra með yfirlýsingunni en þar má sjá að þeir eru rukkaðir um 70 og 75 þúsund fyrir húsaleigu. Enginn sé rukkaður um húsaleigu til frádráttar hjá fyrirtækinu í dag.
Jóhannes segir í samtali við Fréttablaðið að stjórnendur fyrirtækisins sjái að frádrátturinn hafi ef til vill ekki verið góð hugmynd.
Draga ekki neitt af launum starfsmanna
„Við sjáum að þetta er ekki alveg eðlilegt og hefðum kannski ekki átt að fara þá leið. En við vorum svosem með undirritað um að þetta væri heimilt,“ segir Jóhannes og vísar til þess að starfsmennirnir hafi skrifað undir samningana sem um ræðir.
En ef það gengur illa og sama staða verður uppi á teningnum að ári, hvaða leiðir munuði fara til að bregðast við að sama saga endurtaki sig?
„Við munum allavega ekki fara þessa leið að draga neitt af launum starfsmanna, það er klárt mál. Við munum núna í framhaldinu taka umræðuna í stjórn um hvaða leiðir eru færar í þessu. Það kemur vonandi niðurstaða fljótlega svo við getum farið að undirbúa þetta því tíminn líður hratt,“ segir Jóhannes og bætir við að sú umræða eigi hins vegar eftir að fara fram hvort fyrirtækið leiti aftur til starfsmannaþjónustu á næsta ári.
Athugasemdir