Múgur og margmenni voru saman komin á Austurvelli um hádegisbilið í dag til þess að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda gegn loftslagsbreytingum. 

Fyrir mótmælunum stóðu meðal annars Landsamtök íslenskra stúdenta(LÍS), Samband íslenskra framhaldsskólanema og Ungir umhverfissinnar. 

Kraftur í mótmælendum 

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, formaður LÍS, segir mótmælin hafa gengið vonum framar. 

„Við höfðum í rauninni ekkert sérstaklega skýra hugmynd um það hverjir myndu mæta, eða hve margir en þetta voru nokkur hundruð ungmenni sem mættu á Austurvöll í dag og köfðust aðgerða,“ segir Elsa María í samtali við Fréttablaðið.

Segir hún mikinn kraft hafa verið í hópnum sem mun mæta aftur á Austurvöll næsta föstudag. „Og alla föstudaga eftir það þangað til að það gerist eitthvað.“

Kröfur mótmælenda sneru meðal annars Ísland lýsi yfir neyðarástandi og láti að minnsta 2.5 prósent af þjóðarframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Þá vilja mótmælendur sýna stjórnvöldum að almenningur sé meðvitaður um alvarleika málsins og vilji róttækar aðgerðir. 

Verkfallið í dag var innblásið af inni sænsku Gretu Thunberg. Skólaverkfall hennar hefur vakið gífurlega athygli þar sem hún hefur setið á þrepum sænska þinghússins og mótmælt aðgerðarleysi stjórnvalda, í stað þess að mæta í skóla. 

Sambærileg mótmæli ungmenna hafa verið haldið víða um Evrópu síðustu misseri. Til að mynda í Bretlandi, Belgíu og Hollandi þar sem ungmenni hafa krafist þess að stjórnvöld fórni ekki framtíðinni á altari loftslagsbreytinga.