Lögreglunni á Norðurlandi eystra barst tilkynning um að sést hafi til hvítabjarnar á sjöunda tímanum í kvöld. Jóhannes Árnason íbúi í Höskuldarnesi sagði að ekki hafi sést hafís neins staðar við Hraunhafnartanga en minnir á að það hafi ekki heldur sést til hafíss þegar hvítabjörn birtist í Þistilfirði árið 2010.

„Við erum næsta byggða ból við Hraunhafnartangan svona með fasta búsetu, en það er fólk þarna miklu nær yfir sumarið, svona í sumarbústöðum.“ segir Jóhannes í samtali við Fréttablaðið.

Jóhannes segir að engin lögregla sé á Melrakkasléttu heldur tilheyri svæðið lögreglunni á Húsavík og á Þórshöfn.

„Það er enginn lögreglumaður á svæðinu en það er hér lögreglumaður sem hætti störfum fyrir tveimur til þremur árum að sökum aldurs og það var hann sem hringdi og lét vita. Við erum næsta byggða ból við Hraunhafnartanga svona með fasta búsetu, en það er fólk þarna miklu nær yfir sumarið, svona í sumarbústöðum.“

„Við erum alveg óhrædd, maður fer ekkert af taugum, en við kíkjum út um gluggann hvort það komi einhver heimreiðina, maður opnaði nú byssuskápinn og svona, þannig að maður sér fljótur að grípa til skotvopna ef maður sér eitthvað grunsamlegt í nágrenninu.“

Gerði íbúm viðvart

Jóhann Hinrik Þórarinsson fyrrverandi lögreglumaður gerði Jóhannesi og fleiri íbúum á Melrakkasléttu aðvart. Lögreglan á Akureyri hafði samband við hann þar sem hann þekkti vel til á svæðinu og bað hann um að láta íbúana vita.

 „Ég hafði samband við fólk sem býr þarna á Melrakkasléttunni til að láta þau vita að grunur léki um að ísbjörn væri þar á ferð.“ segir Jóhann Hinrik í samtali við Fréttablaðið.

Jóhann bendir á að að bjarndýrin geti farið hratt yfir og komist langar vegalengdir. 

„Eins og við vitum af fyrri reynslu þá bera þessi dýr sig mjög hratt yfir, við höfum vitneskju af því úr Skagafirði það voru drepin tvö dýr þar og síðan í Þistilfirði þá var bjarndýr drepið sem fór mjög hratt yfir.“ 

„Bjarndýr getur synt hundruð kílómetra þannig að hafísinn getur hafa verið langt í burtu, fyrir utan það að þetta bjarndýr hefði getað komið af landi miklu miklu vestar án þess að fólk hefði orðið vart við það.“