Gísli Garðarsson tekur á mánudag sæti á Alþingi fyrir þingmann Vinstri grænna, Andrés Inga Jónsson. Það kann að vekja sérstaka athygli að Gísli, sem var í sjötta sæti VG í Reykjavíkurkjördæmi norður, sagði sig úr flokknum eftir að hann gekk inn í ríkisstjórnarsamstarf með Framsókn og Sjálfstæðisflokknum.

Gísli tilkynnti það á Facebooksíðu sinni í nóvember 2017 að hann ætti ekki lengur samleið með flokknum eftir að ríkisstjórnin var mynduð. „[N]ú er komið að vatnaskilum. Ég get einfaldlega ekki tekið þátt í þessari vegferð. Ég get ekki réttlætt samstarf við íhaldið fyrir sjálfum mér. Ég get ekki samþykkt það að skjóta hækju undir ráðherrastóla Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Á. Andersen,“ sagði Gísli m.a. í færslu sinni þá.

Í færslu á Facebook í dag, sem sjá má í heild sinni hér fyrir neðan, segir Gísli að hann hafi ekki búist við því að eiga afturkvæmt í stjórnmálin eftir myndun ríkisstjórnarinnar. „Það er því sérlega mikill og óvæntur heiður að fá að taka sæti á Alþingi í næstu viku fyrir hönd flokksins sem ég hef varið fleiri stundum í en nokkuð annað síðan ég var sextán ára gamall,“ skrifar Gísli.

Gísli segir jafnframt í færslunni að kjörtímabilið hafi komið upp á milli sín og VG. „[Þ]að sem skiptir að lokum máli [er] að ég á mikla samleið með stefnu flokksins og kom verulega að mótun hennar um langt skeið, fyrst í stjórn ungliðahreyfingar flokksins en síðar sem fulltrúi hans í borgarkerfinu og ekki síst sem almennur félagi í stefnumótunarvinnu á félags-, flokksráðs- og landsfundum.“

Að lokum þakkar Gísli þingflokknum fyrir traustið. „Það er ekki á hverjum degi sem flokkur forsætisráðherra kallar inn óflokksbundinn þingmann. Geri aðrir betur, segi ég nú bara.“