Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Bifröst, segir að fjöldaúrsagnir úr Vinstri grænum séu í takti við þá erfiðleika sem Katrín Jakobsdóttir stríði við í stjórnarsamstarfinu með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.
„Þetta eru viðbrögð við lagasetningu sem VG stendur að og mætti segja að væri í andstöðu við grunngildi flokksins,“ segir Eiríkur.
Tugir manna hafa sagt sig úr VG síðustu daga eftir að VG stóð að samþykkt útlendingafrumvarpsins sem varð að lögum í vikunni. Þar á meðal er varaþingmaðurinn Daníel E. Arnarsson.
„Þetta er erfið ríkisstjórn, það verður að viðurkennast. Það hefur verið erfitt fyrir VG að vera í þessari ríkisstjórn af því að það hefur þurft að veita afslátt af ýmsum málum og semja um önnur mál. Sem er alveg eðlilegt þegar við erum með fjölflokka ríkisstjórn,“ segir Daníel.
„Mér fannst þróunin vera í þá átt að ef maður er ekki 100 prósent með þeim, þá er maður orðinn á móti þeim.“
Daníel segist ekki enn skilja hvers vegna mikilvægt var að leggja þetta tiltekna frumvarp fram. Hann segir meðmælendur frumvarpsins sömuleiðis ekki hafa svarað spurningum um gæði frumvarpsins umfram það sem samþykkt var 2016.
„Flokkurinn er að nálgast það sem mætti kalla úlfakreppu,“ segir Eiríkur. „Ólgan magnast upp og birtist í verulegu fylgisfalli.“
Katrín flutti ræðu við setningu landsþings VG á Akureyri í gær. Var engan bilbug á henni að finna. Eiríkur segir þó augljóst að Katrín sé á milli steins og sleggju og eigi engan góðan kost. Hún hafi skuldbundið sig í þessari ríkisstjórn, skuldbundið sig til að standa með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
„Á sama tíma þarf Katrín líka að standa vörð um grunnstefnu flokksins og þar er að gliðna á milli.“
Líklegast er að þessi vandræðagangur haldi áfram að mati Eiríks ef VG slítur ekki ríkisstjórnarsamstarfinu.
„Vinstri græn eru ekki óvön að standa frammi fyrir svona áskorunum. Það gerist iðulega þegar vinstri flokkar taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi,“ segir Eiríkur.
Meðal þeirra sem sagt hafa sig úr Vinstri grænum síðustu daga er Bjartur Steingrímsson. Hann er sonur stofnanda Vinstri grænna, Steingríms J. Sigfússonar. Bjartur var lengi virkur í ungliðastarfi flokksins og var á lista flokksins í Mosfellsbæ.
Fylgi VG hefur mælst 6–7 prósent undanfarið