Ungt jafnaðar­fólk for­dæmir harð­lega „ómannúðlegt“ út­lendinga­frum­varp Jóns Gunnars­sonar, dóms­mála­ráð­herra, og hvetur þing­menn til að kjósa gegn því. Með frum­varpinu sé verið að henda fólki í neyð á götuna og svipta það grunn­þjónustu sem sam­ræmist hvorki mann­réttinda­á­kvæðum stjórnar­skrár né al­þjóð­legum skuld­bindingum um mann­réttindi. Þetta kemur fram í yfir­lýsingu frá Ungum jafnaðar­mönnum.

Í yfir­lýsingunni segir að með frum­varpinu sé veru­lega gengið á réttindi barna, sem sé í hrópandi ó­sam­ræmi við barna­lög og barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna. Af þeim sökum velti Ungt jafnaðar­fólk fyrir sér hvar Fram­sókn standi í málinu.

„Hvar er barna­mála­ráð­herrann sem sagðist ætla að huga sér­stak­lega að börnum sem búa við erfiðar að­stæður? Er Ás­mundur Einar kannski bara ráð­herra sumra barna?“ segir í yfir­lýsingunni.

Þá kemur fram að ungt jafnaðar­fólk hafi verið slegið eftir á­horf á Silfrið sem sýnt var á RÚV síðustu helgi, þar sem Jó­dís Skúla­dóttir, þing­kona Vinstri grænna, hafi stað­fest það sem þeim grunaði.

„Að VG er ekki vinstri flokkur heldur ein­angrunar­sinnaður í­halds­flokkur. Í stað þess að leggja á­herslu á að fjár­festa í mikil­vægum inn­viðum sam­fé­lagsins og styðja betur við grunn­þjónustu gaf hún í skyn að fjöldi út­lendinga væri vanda­málið,“ segir í yfir­lýsingunni.

„Það hefur sömu­leiðis verið sorg­legt að fylgjast með fram­göngu Katrínar Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra og formanns VG í þessu máli – hún stendur þétt við bakið á Jóni Gunnars­syni og styður ó­mann­úð­legt út­lendinga­frum­varp Sjálf­stæðis­flokksins.“

Þá skorar ungt jafnaðar­fólk á þing­menn að kjósa gegn út­lendinga­frum­varpinu.

„Við megum ekki skila auðu þegar það kemur að mann­réttindum.“

Talsverð ólga hefur einnig verið innan Vinstri grænna vegna frum­varpsins. Í síðustu viku skrifaði hópur innan VG grein þar sem gras­rót flokksins mót­mælti út­lendinga­frum­varpi dóms­mála­ráð­herra. Hópurinn telur að út­lendinga­frum­varpið ein­kennist af út­lendinga­and­úð og það virðist hafa það eitt mark­mið að neita fleirum, enn hraðar, um hæli.

Hólm­fríður Árna­dóttir, for­maður svæðis­fé­lags Vinstri grænna á Suður­nesjum og odd­viti Suður­kjör­dæmis, er meðal þeirra sem skrifuðu greinina. Hún segir það erfitt að upp­lifa að unnið sé gegn grunn­gildum flokksins. Þá viður­kenni hún að hún hafi varla þorað að hugsa hvað gerist, verði út­lendinga­frum­varpið sam­þykkt ó­breytt.

„Ég vona svo sannar­­lega að okkar fólk grípi vel inn í og að við fáum þessu frum­­varpi breytt, þannig að það fari ekki svona í gegn. Af því að við verðum líka að hlusta á þessi mann­réttinda­­sam­tök sem eru að koma með um­­­sagnir og annað slíkt og okkur ber skylda til þess að sinna þessum mála­­flokki vel,“ segir Hólm­fríður.

„Við erum hluti af al­­þjóða­­sam­­starfi og við erum með sátt­­mála í gildi hérna á Ís­landi sem snúa að mann­réttinda­­málum og mann­réttindum. Þannig ég yrði alla­vegana mjög leið ef þetta færi svona í gegn svo ég tali fyrir mig,“ bætir hún við