Ungt jafnaðarfólk fordæmir harðlega „ómannúðlegt“ útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra, og hvetur þingmenn til að kjósa gegn því. Með frumvarpinu sé verið að henda fólki í neyð á götuna og svipta það grunnþjónustu sem samræmist hvorki mannréttindaákvæðum stjórnarskrár né alþjóðlegum skuldbindingum um mannréttindi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ungum jafnaðarmönnum.
Í yfirlýsingunni segir að með frumvarpinu sé verulega gengið á réttindi barna, sem sé í hrópandi ósamræmi við barnalög og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Af þeim sökum velti Ungt jafnaðarfólk fyrir sér hvar Framsókn standi í málinu.
„Hvar er barnamálaráðherrann sem sagðist ætla að huga sérstaklega að börnum sem búa við erfiðar aðstæður? Er Ásmundur Einar kannski bara ráðherra sumra barna?“ segir í yfirlýsingunni.
Þá kemur fram að ungt jafnaðarfólk hafi verið slegið eftir áhorf á Silfrið sem sýnt var á RÚV síðustu helgi, þar sem Jódís Skúladóttir, þingkona Vinstri grænna, hafi staðfest það sem þeim grunaði.
„Að VG er ekki vinstri flokkur heldur einangrunarsinnaður íhaldsflokkur. Í stað þess að leggja áherslu á að fjárfesta í mikilvægum innviðum samfélagsins og styðja betur við grunnþjónustu gaf hún í skyn að fjöldi útlendinga væri vandamálið,“ segir í yfirlýsingunni.
„Það hefur sömuleiðis verið sorglegt að fylgjast með framgöngu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanns VG í þessu máli – hún stendur þétt við bakið á Jóni Gunnarssyni og styður ómannúðlegt útlendingafrumvarp Sjálfstæðisflokksins.“
Þá skorar ungt jafnaðarfólk á þingmenn að kjósa gegn útlendingafrumvarpinu.
„Við megum ekki skila auðu þegar það kemur að mannréttindum.“
Talsverð ólga hefur einnig verið innan Vinstri grænna vegna frumvarpsins. Í síðustu viku skrifaði hópur innan VG grein þar sem grasrót flokksins mótmælti útlendingafrumvarpi dómsmálaráðherra. Hópurinn telur að útlendingafrumvarpið einkennist af útlendingaandúð og það virðist hafa það eitt markmið að neita fleirum, enn hraðar, um hæli.
Hólmfríður Árnadóttir, formaður svæðisfélags Vinstri grænna á Suðurnesjum og oddviti Suðurkjördæmis, er meðal þeirra sem skrifuðu greinina. Hún segir það erfitt að upplifa að unnið sé gegn grunngildum flokksins. Þá viðurkenni hún að hún hafi varla þorað að hugsa hvað gerist, verði útlendingafrumvarpið samþykkt óbreytt.
„Ég vona svo sannarlega að okkar fólk grípi vel inn í og að við fáum þessu frumvarpi breytt, þannig að það fari ekki svona í gegn. Af því að við verðum líka að hlusta á þessi mannréttindasamtök sem eru að koma með umsagnir og annað slíkt og okkur ber skylda til þess að sinna þessum málaflokki vel,“ segir Hólmfríður.
„Við erum hluti af alþjóðasamstarfi og við erum með sáttmála í gildi hérna á Íslandi sem snúa að mannréttindamálum og mannréttindum. Þannig ég yrði allavegana mjög leið ef þetta færi svona í gegn svo ég tali fyrir mig,“ bætir hún við