Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir að ástæða þess að VG á ekki fulltrúa í þingsályktunartillögu um að Ísland verði leiðandi í rannsóknum á hugvíkkandi efnum, sé ekki sú að hreyfingin hafi tekið afstöðu gegn notkun efnisins xílósíbíni, sem er virkt efni í sveppum.

„Við höfum ekki tekið umræðu innan okkar hreyfingar um þetta mál og þess vegna erum við ekki með í málinu. Við skorumst ekki undan að taka þátt í umræðunni þegar hún á sér stað,“ segir Orri Páll.

Þingmenn allra flokka utan VG, alls yfir tuttugu talsins, vilja að heilbrigðisráðherra skapi löglegan farveg fyrir efnið í lækningaskyni.

Engil­bert Sigurðs­son geð­læknir sagði í Fréttablaðinu þegar greint var frá nýrri rannsókn um að skynvíkkandi meðferð geti gagnast fólki sem þjáist af alvarlegu þunglyndi:

„Það þarf aðila sem hefur hlotið þjálfun og getur brugðist við ef reynslan reynist ein­stak­lingi erfið.“

Einnig segir geðlæknirinn: „Við þurfum að lág­marka líkur á að fólk fari illa út úr of­skynjunar­með­ferð eins og gerðist með LSD. En það er þannig með lyf, skurð­að­gerðir, mörg inn­grip, að stundum sam­þykkjum við aukna á­hættu við læknis­með­ferð hjá þeim sem glíma við al­var­legustu veikindin.“